Hlutafélög

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 16:45:28 (1780)

[16:45]
     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 32/1978, með síðari breytingum, sem ég flyt ásamt hv. 4. þm. Reykv. Frv. þetta var flutt á síðasta þingi en varð eigi útrætt og er því endurflutt að nýju með lítils háttar breytingum þar sem tekið hefur verið tillit til fram kominna ábendinga umsagnaraðila.
    Eins og fram kemur í fskj. með frv. þá var það á síðasta þingi sent til umsagnar til nokkurra aðila og þær eru birtar í fskj. Þar kemur fram að umsagnaraðilar lýsa almennt yfir stuðningi við þetta frv. en þeir eru Landssamband ísl. útvegsmanna, Neytendasamtökin, Verslunarráð Íslands og álitsnefnd Félags löggiltra endurskoðenda.
    Þær breytingar sem gerðar voru á frv. nú frá því sem var á síðasta þingi eru smávægilegar. Það er lagt til að í stað 25 hluthafa eða fleiri verði þeir 75 eða fleiri, hvað varðar skilyrði þess að ekki megi leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf.
    Efnisatriði frv. eru í örstuttu máli þau, virðulegi forseti, að lagðar eru til fáeinar breytingar sem allar hníga í þá átt að stuðla að því að hlutafélög verði í ríkari mæli en nú

er almenningshlutafélög. Markmiðið er að auka trú almennings á hlutafélög sem fjárfestingarkosti og efla hlutabréfin sem valkost, sparnaðarvalkost við bankakerfið. Við flm. teljum það mjög mikilvægt að hlutabréf njóti meira trausts og álits hjá almenningi sem fjárfestingarvalkostur en nú er af mörgum ástæðum.
    Í fyrsta lagi vegna þess að fleiri hluthafar þýðir einfaldlega aukin áhrif og aðhald almennings á rekstur þeirra. Í öðru lagi að með því að hlutafélög sæki meira fé til síns reksturs með sölu hlutabréfa, þá er dregið úr lánsfjárþörf þeirra og þannig stuðlað að lækkun vaxta á markaði. Í þriðja lagi gerist það að með því að efla hlutabréfin sem fjárfestingarvalkost, þá er um leið verið að efla nýjan þátt sem veitir bönkunum aðhald í samkeppninni um sparifé. Það eru því nokkur atriði sem öll hníga að þessu sama og þau atriði sem við flm. höfum tekið til athugunar í hlutafélagalöggjöfinni og leggjum til að verði breytt eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er lagt til að stjórn hlutafélags verði kosin á hluthafafundi og að allir stjórnarmenn skulu kosnir á sama fundi. Með því er verið að afnema svonefnda víxlkosningu sem gaf mönnum færi á því að nýta tvisvar sinnum einfaldan meiri hluta í hlutafélagi og færði mönnum fleiri stjórnarmenn og aukin völd en hlutabréfaeign gat réttlætt.
    Í öðru lagi er lagt til að eigi megi leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf ef hluthafar eru 75 eða fleiri í hlutafélaginu, en í dag er þetta miðað við 200 hluthafa eða fleiri. Og það má nefna til fróðleiks að talið er að virk hlutafélög hér á landi séu á milli fjögur og fimm þúsund en einungis þrjú hundruð af þeim, eða vel innan við 10% séu almenningshlutafélög.
    Þá er lagt til að herða reglur þær sem nú gilda um það hvenær skylt er að hafa löggiltan endurskoðanda á ársreikningum fyrirtækis. Ástæðan er einföld. Með því að hafa löggilta endurskoðendur í ríkari mæli þá er auðvitað verið að freista þess að auka traust á upplýsingum sem frá fyrirtækinu koma. Þær verða undirritaðar af til þess bærum endurskoðanda og ættu því að stuðla að auknu trausti almennings á hlutafélaginu.
    Þá er í fjórða lagi lagt til að stjórn hlutafélags verði skylt að senda hluthöfum ársreikning og ársskýrslu fyrirtækisins innan sex mánaða frá lokum reikningsársins ef hluthafar æskja þess. Með þessu er verið að opna fyrir upplýsingastreymi þannig að hluthafar eigi skýlausan rétt á þessum upplýsingum og ekki verði neinir hnökrar þar á.
    Þá er lagt til að breyta ákvæðum um aðgang að ársreikningum hjá hlutafélagaskrá þannig að það verði ,,skylt`` að veita almenningi aðgang að hlutafélagaskránni í stað þess að vera ,,heimilt`` eins og nú er þegar í hlut eiga hlutafélög sem leggja engar hömlur á heimild hluthafa til meðferðar á hlutabréfum sínum. Þá er lagt til að lokum, virðulegur forseti, að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1995 eða eftir rúmt ár. Það er vegna þess að talið er nauðsynlegt, ef frv. þetta verður að lögum, að veita fyrirtækjum nokkurt svigrúm til að breyta samþykktum sínum til samræmis við ákvæði frv.
    Virðulegi forseti. Ég vísa að öðru leyti til framsöguræðu fyrir þessu frv. á síðasta þingi en ég vil að lokum benda á að það er afar fróðleg bók sem til er og var gefin út fyrir alllöngu af síðari flutningsmanni málsins, hv. 4. þm. Reykv., um almenningshlutafélög og hlutverk þeirra í lýðræðisþjóðfélagi og ég tel að margir hefðu gott af að kynna sér efni þeirrar bókar og mætti vera komið lengra í þróun í þá átt en raun ber vitni. En frv. sem hér er til umræðu er einmitt byggt að miklu leyti ef ekki öllu á þeim grunni sem þar er lagður að því er varðar afstöðu til þessa forms, hlutafélagaformsins.
    Ég vil, virðulegur forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efn.- og viðskn.