Héraðsskólinn að Núpi

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 18:06:30 (1795)

[18:06]
     Flm. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að mæla hér fyrir till. til þál. um málefni Héraðsskólans að Núpi og hún er á þskj. 162. Flm. ásamt mér eru Kristinn H. Gunnarsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd til að gera tillögur um framtíð Núpsskóla í Dýrafirði. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar menntamálaráðuneytis og heimamanna. Nefndin skili tillögum fyrir 1. júní 1994.``

    Virðulegi forseti. Rekstur héraðsskóla hefur verið á undanhaldi hin síðari ár. Sú staðreynd að flestir grunnskólar reyna nú að bjóða fram kennslu í efstu bekkjum grunnskólans í heimabyggð hefur valdið því að sífellt fækkar þeim nemendum sem sækja það nám í héraðsskólum. Vegna nemendafæðar var hætt við að reka Héraðsskólann að Núpi sl. skólaár. Ekki var gerð tilraun til þess að taka þann rekstur upp aftur á yfirstandandi skólaári. Staðurinn hefur skipað veglegan sess í skólastarfi í landinu og þar er mikill og góður húsakostur í eigu ríkisins sem stendur ónotaður. Það ætti að vera hagur ríkissjóðs að nýta þetta húsnæði sem best. Því er mikil nauðsyn á að Alþingi láti málið til sín taka og finni skólanum verkefni að nýju. Ég tel að þar komi ýmislegt til greina, það gæti verið um að ræða skólabúðir í einhverju formi, og má þá minna á Héraðsskólann á Reykjum. Það gæti verið námskeiðahald ýmiss konar eða að leigja aðstöðuna til ferðaþjónustu eða jafnvel til að reka fyrirtæki. Ég tel að það skipti miklu máli að nýta þessar eignir og halda þeim við því að það hlýtur að vera allra hagur.
    Það er svo sem ekki nýtt að málefni héraðsskólanna komi á dagskrá hér á hinu háa Alþingi. Nú nýlega bar á góma málefni Héraðsskólans í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þá var það upplýst að skilað hefur verið nál. til menntmrn. þar sem gert er ráð fyrir því að skólinn sé rekinn þar í svipuðu formi og áður var en þó þannig að nú sé það viðurkennt að skólinn taki við unglingum sem ekki rekist í hinu venjulega skólakerfi. Með þeirri viðurkenningu kæmu að stofnuninni starfsmenn með tilskilda menntun til að takast á við að sinna þessum unglingum. Ég tel að við skólann í Reykjanesi hafi það fyrst og fremst vantað þegar hann var í rekstri að þessi þörf væri viðurkennd. Nú hefur það sem sagt tekist með þessu nál. og nú bíðum við eftir því að hæstv. menntmrh. vinni úr því áliti.
    Á Vestfjörðum hafa verið starfandi tveir héraðsskólar og þeir eru núna báðir lokaðir. Það er hastarlegt að horfa upp á það að í þessum landshluta, sem hefur átt við sérstaka erfiðleika að etja og átt í vök að verjast við að halda uppi byggð, þá skuli báðar þessar skólastofnanir hafa verið lagðar af. Öllum ætti að vera það ljóst að eitt af því mikilvægasta til að halda við byggð er skóli. Skólastofnun sogar til sín fólk, kennara, nemendur og fleira starfslið. Og hvarvetna þar sem reynt er að styðja við byggð í öðrum löndum er skóli það sem fyrst er hugað að.
    Í öðrum héraðsskólum hefur verið reynt að breyta skólunum og taka mið af nýjum tíma. Það má geta þess að í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram um héraðsskóla og hvernig starfsemi þeirra hefur breyst á undanförnum fimm árum kemur í ljós að flestir þeirra hafa reynt sig í nýjum verkefnum. Í þessu svari kemur m.a. fram að í Alþýðuskólanum á Eiðum eru nú 94 nemendur og í Héraðsskólanum í Reykholti eru 100 nemendur, í Héraðsskólanum í Skógum er 51 nemandi. Það sem aðallega hefur breyst í starfi þessara skóla er að Héraðsskólanum á Reykjum var breytt í skólabúðir eins og ég sagði áðan árið 1988 og starfsemin sem þar er hefur gefið mjög góða raun. Héraðsskólanum á Laugum var breytt í framhaldsskóla árið 1988 og er þar nú þriggja ára framhaldsnám. Nafni skólans var þá breytt og hann heitir raunar núna Framhaldsskólinn á Laugum. Héraðsskólanum á Laugarvatni var breytt á þann hátt að starfsemin var sameinuð Menntaskólanum á Laugarvatni fyrir tveimur árum og starfar hann því ekki lengur sem sjálfstæð stofnun. Ég hef getið hér um Héraðsskólann að Núpi og í Reykjanesi en í Alþýðuskólanum á Eiðum er starfræktur 10. bekkur grunnskóla og 1. og 2. bekkur framhaldsnáms. Í Héraðsskólanum í Reykholti eru starfandi 1. og 2. bekkur framhaldsnáms og í Héraðskólanum í Skógum eru núna efstu bekkir grunnskóla og eins árs framhaldsnám og það er tengt við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
    Af þessari upptalningu má sjá að í öllum héraðsskólunum sem hér hafa verið starfræktir undanfarin ár hefur verið haldið uppi starfsemi, henni hefur verið breytt á ýmsan hátt sums staðar og þá fært til nútímahorfs eða þeirrar eftirspurnar sem er í ýmislegt nám. Það er aðeins á Vestfjörðum, þ.e. Núpi og Reykjanesi, sem skólunum hefur hreinlega verið lokað án þess að leita leiða til þess að finna þeim annað verkefni.
    Ég tel að ekki megi láta þessi mál liggja í láginni. Það verður að gera allt sem hægt er til að finna þessum skólum hlutverk. Ef ekki er hægt að finna það innan menntakerfisins þá væri þó öllu skárra að afhenda heimamönnum húsnæðið, t.d. héraðsnefnd á viðkomandi stöðum. Það væri þá von til þess að þar með yrði gerð lokatilraun til að finna einhverri starfsemi þar samastað.
    Ég vænti þess að þesari tillögu verði vel tekið og að hæstv. menntmrh. sjái til þess að skipuð verði nefnd sem geri úttekt á því hvaða starfsemi sé hægt að reka í Núpsskóla og við fáum þá að sjá tillögur um það.
    Ég vil að loknum þeim umræðum sem hér verða um málið leggja til að till. verði vísað til síðari umræðu og hv. menntmn.