Héraðsskólinn að Núpi

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 18:14:37 (1796)


[18:14]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér hreyft máli sem er allmikið hagsmunamál fyrir okkur Vestfirðinga og ég vil þakka 1. flm. málsins fyrir framtak hennar í því. Eins og fram kom í máli hennar er afar óvenjulega að málum staðið hvað Vestfirði varðar síðustu ár í málefnum héraðsskóla. Þar hefur hæstv. menntmrh. einfaldlega lokað skólunum og ekki haft uppi neina tilburði til þess að finna þeim skólum einhver önnur verkefni í menntakerfinu eða hafa samráð við heimamenn um framtíð staðanna.
    Ég vil harma það hvernig að þessum málum hefur verið staðið af hálfu hæstv. menntmrh. og bætir ekki úr seinagangurinn í hinu málinu sem vikið var að í framsögu, málefni Héraðsskólans í Reykjanesi.
    Ég tel að það sé fyllilega hægt, ef menn vilja, að finna þessum mannvirkjum verkefni við hæfi á Núpi í Dýrafirði en þar eru óvenjuglæsileg húsakynni og vel við haldið. Ég vil minna á þáltill. sem flutt var á síðasta þingi af 2. varaþm. Alþfl. á Vestfjörðum, Bryndísi Friðgeirsdóttur, um skólabúðir á Núpi í Dýrafirði og það er vissulega ein hugmyndin sem kemur til greina að athuga. --- (Gripið fram í.) Já. Þakka þér fyrir, hv. þm. Mér bent á að það sé misminni hjá mér, flm. var 1. varaþm. Alþb. í Vestfjarðakjördæmi, Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti á Suðureyri. --- Það er vissulega verkefni sem vert er að skoða. Það eru reknar skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði og þar er mikil eftirspurn og miklu meiri en skólinn þar getur sinnt.
    En það er líka sjálfsagt að einskorða sig ekki við eitt verkefni heldur líta til fleiri sem menn kunna að hafa í huga og því tel ég sjálfsagt að Alþingi samþykki þáltill. þá sem hér liggur fyrir.
    Ég vil skora á hv. Alþingi að verða vel við þessum tillöguflutningi og vænti þess að a.m.k. þingmenn Vestfirðinga standi saman um þetta verkefni.