Framlagning skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 13:33:04 (1798)

[13:33]

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég sé mig knúinn til þess að taka hér til máls undir liðnum ,,Athugasemdir um störf þingsins`` er sá seinagangur sem nú er af hálfu ríkisstjórnarinnar við framlagningu mála.
    Við þá breytingu sem gerð var á þingsköpum í haust var það að mínu mati einlægur vilji þingmanna að breyta starfsháttum Alþingis og hverfa til betri vinnubragða en hér hafa tíðkast um langt árabil, óháð því hverjir hafa farið með stjórnartaumana á hverjum tíma.
    Að mínu mati hefur stjórnarandstaðan sýnt að hún vill vinna að þessari breytingu af fullum heilindum og fyrir því gæti ég fært rök ef eftir því væri leitað. Eitt hefur hins vegar ekki breyst. Það er seinagangur ríkisstjórnarinnar við að leggja fram fylgifrumvörp fjárlaga. Nú undir lok nóvember er ekki enn búið að leggja fram skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar. Okkur þingmönnum er tjáð í fjölmiðlum að í þeim felist verulegar breytingar á skattheimtu ríkisins. Það virðist því enn eiga að vinna á þann hátt að veigamiklar breytingar á skattheimtunni séu unnar í tímahraki rétt fyrir jólin.
    Virðulegi forseti. Ég hlýt því að ganga eftir því við ríkisstjórnina hvenær von sé á að skattafrumvörpin verði lögð fram. Fjmrh. er farinn að kynna þau á fundum úti í bæ og þar höfum við enn eitt dæmi um þá lítilsvirðingu sem ríkisstjórnin sýnir þinginu varðandi málatilbúnað hér á Alþingi. Í því sambandi get ég nefnt að í allri þeirri vinnu sem fram hefur farið á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um skattabreytingar í tengslum við gerð kjarasamninga hefur ríkisstjórnin aldrei séð ástæðu til þess að kynna efh.- og viðskn. Alþingis málið. Það er þó enn þannig að það er Alþingi eitt sem leggur á skatta eða breytir skattalögum. Slík vinna getur hvorki farið fram hjá aðilum vinnumarkaðarins né á fundum hjá Verslunarráði Íslands.