Framlagning skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 13:44:58 (1804)


[13:44]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég er satt að segja nokkuð undrandi á stjórnarandstöðunni hér í þetta skipti, að hún skuli vera að reka á eftir þessum málum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem ég er sannfærður um að eru heldur vitlaus mál og þingið megi þakka sínum sæla fyrir hvern þann dag sem líður án þess að ríkisstjórnin flytji hér inn mikið af stjórnarfrumvörpum. Ég vil því leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir það hvernig hann hefur haldið á þessu máli og legg til að hann haldi áfram að flytja þessi mál fyrir Verslunarráð Íslands en sleppi því að koma með þau til Alþingis Íslendinga.