Framlagning skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 13:50:03 (1807)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel þessa umræðu ofur eðlilega enda hljóta þessi mál fyrst og fremst að eiga erindi hér til hv. Alþingis. Kynningin sem fór fram á þessu máli í morgun sem er hér til umræðu, þ.e. aðeins þó hluti af því, var kynning á nokkrum efnisatriðum í frv. en ekki kynning á lögum að sjálfsögðu.
    Auðvitað er það þannig að margoft hefur það gerst að efnisatriði frumvarpa og tilvonandi frumvarpa hafa verið til umræðu annars staðar en á hinu háa Alþingi áður en það fær tækifæri til að fjalla um málið. Það vildi svo til í þessu máli að fréttamenn höfðu fengið upplýsingar, ekki úr fjmrn., um annað frv. og þess vegna fannst mér betra að það kæmust þá réttar upplýsingar til skila heldur en hamrað væri á röngum eða valið úr frv. eftir geðþótta annarra en þeirra sem kynnu að eiga frv.
    Varðandi fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar vil ég segja að það sem hefur tafið málið er framhald kjarasamninganna, þ.e. að ákveðið var að kynna Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu fyrirliggjandi áform ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrv. og þess vegna voru gerðar ákveðnar breytingar á áformunum sem nú liggja fyrir í þessu frv. Hins vegar vegna spurningar hans þá vil ég segja frá því að Sjálfstfl. hefur heimilað framlagningu frv., Alþfl. fjallaði um frv. á mánudaginn var og mér er sagt að afgreiðsla muni fara fram þar í dag.
    Að allra síðustu vil ég endurtaka að frv. verður sent hv. þm. í efh.- og viðskn. og fulltrúar fjmrn. munu mæta á fund nefndarinnar í fyrramálið til að fara í gegnum frv. og svara efnislegum fyrirspurnum þótt frv. sé ekki komið til 1. umr. Að lokum, virðulegi forseti, vil ég þakka fyrir þessar ágætu og skemmtilegu umræður.