Samningsveð

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:07:21 (1809)


[14:07]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni frv. sem kom fram fyrir fyrra þing, en þá að þinginu áliðnu. Má vera að þess vegna hafi bæði allshn. þingsins og þeim aðilum sem hún sendi frv. til umsagnar gefist knappur tími til að fjalla um það. Þess er að minnsta kosti getið í fleiri en einni af umsögnum þeim sem borist hafa. Og vel að merkja, ég tek þátt í umræðunni vegna viðræðna sem ég hef átt við nokkra aðila í þjóðfélaginu sem telja sig varða ákvæði sem birtast í þessu frv.
    Mér sýnist, virðulegi forseti, að það sé ástæða til að gæta að ákvæðum sem varða veðsetningu vöru þannig að ekki verði mögulegt að veðsetja vöru þriðja aðila meðan seljandi á enn vörureikning óútkljáðan og varan því í raun háð almennum reikningsskilmálum. Ég hygg að á þessu þurfi að taka með ákvæði í 3. gr. frv. ásamt kaflanum um veðsetningar vöru sem kemur fram í 33.--34. gr.
    Á sama máta og varðandi sömu aðila tel ég merkilegt ákvæði í 39. og 40. gr. um að söluveð geti fallið brott við ákveðna skilmála og tel að þar þurfi að minnsta kosti að upplýsa vel og skilmerkilega þá aðila sem selja öðrum vörur við söluveði sem þarna er gert ráð fyrir að hafi þó hærri rétt heldur en almennar reikningskröfur.
    Í síðasta lagi, virðulegi forseti, finnst mér merkilegt að fremst í frv., sem eðlilegt er, eru skilgreind nokkur atriði sem koma oft fram í frv. Hins vegar kemur ekki fyrr en í 25. gr. sérstök skilgreining á hugtakinu rekstraraðili.
    Mér virðist eðlilegt að skilgreiningar komi allar fram mjög snemma í lagafrv. og lögum en tel hins vegar að þetta skipti ekki máli varðandi þau efnisatriði sem ég hef gert að umtalsefni.
    Ég ráðgeri, virðulegi forseti, að koma skoðunum mínum á framfæri við þá nefnd þingsins sem fær frv. til athugunar, hv. allshn., ellegar að leggja fram brtt. sem væntanlega fengi þá umfjöllun í nefndinni ásamt frv.