Samningsveð

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:10:06 (1810)

[14:10]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ekki skal dregið úr þörf atvinnulífsins fyrir veð á þessum tímum þegar rekstrargrundvöllur er slíkur að nauðungaruppboðum rignir yfir þjóðina. En það fór nú svo að sá fyrsti sem stóð hér upp og efaðist um að allt efni frv. gæti óbreytt orðið að lögum var stjórnarþingmaður, hv. 5. þm. Reykn.
    Ég sé að það er gert ráð fyrir því hér t.d. að brennsluolía á fiskiskipi sé veðhæf. Mér finnst nú dálítið langt seilst svo ekki sé meira sagt. Það verður nú að vera hægt að gera ráð fyrir því að hún sé notuð á mótorinn. Og það er eitt og annað í þessu þar sem menn teygja sig mjög langt þó ekki sé meira sagt. Hérna er gert ráð fyrir því að veiðirétturinn, réttur til fiskveiða, hann fylgi með í veði skipa. Nú er það svo að það er ekki eigandinn sem ræður réttinum, heldur í sumum tilfellum sjútvrh. sem getur þá hirt veðið af þegar honum sýnist. Ef skip er svipt haffæriskírteini þá fær það ekki veiðiréttindi áfram og þannig er hægt að telja fram og til baka.
    Ég ætla ekki að gera lítið úr því að hér sé gerð tilraun til þess að rýmka möguleika á því að hægt sé að veðsetja. En ég vil undirstrika að mér sýnist efni þessa frv. vera þess eðlis að það þurfi mjög mikillar athugunar við. Og það þarf sérstaklega athugunar við á því sviði að menn veðsetji nánast ekki það sem

þeir eiga ekki á þeirri forsendu að þeir hafi það undir höndum eins og kom hérna fram hjá hv. 5. þm. Reykn. Þetta leiðir líka hugann að því sem er ekki óalgengt þegar nauðungarsala fer fram að þá er sagt: Svona mikið fékkst upp í forgangskröfur. En svo kemur að hinum þættinum, hvað fékkst upp í almennar kröfur. Það hafa nú ekki alltaf verið háar upphæðir sem hafa komið upp í hinar almennu kröfur og mér sýnist að það geti farið svo að það verði ansi lítið eftir í hinar almennu kröfur þegar menn eru búnir að veðsetja hér eins og þessar hugmyndir benda til.
    Ég hygg líka að undir sumum kringumstæðum geti það verið dálítið erfitt að standa á því hvort veð hefur rýrnað með eðlilegum hætti eða ekki. Það er nú einu sinni svo að þær hugmyndir um veðsetningu lifandi afurða, sem hér eru á ferðinni, eru góðra gjalda verðar svo langt sem þær ná. En þar er engu að síður um takmarkaða möguleika að ræða, að eigandi geti haft á því eðlilega ábyrgð að það sé til staðar sem um er rætt.
    Þetta vildi ég segja hér vegna þess að allshn. hefur nú haft ærið að vinna að undanförnu. Hún var geymd í sýslumannaumræðu alllengi, alveg sérstök umræða um sýslumenn fram og til baka, þangað til þær fréttir berast utan úr bæ að það sé nú búið að setja sýslumennina á vetur og þá loksins dvínaði sú umræða. Ég tel að þetta mál þurfi mikillar athugunar við og það fari ekkert á milli mála að hér eru menn að teygja sig mjög langt í heimildum til veðsetninga og réttar til veðsetninga og satt best að segja þá sýnist mér að í sumum tilfellum geti þetta verið á þann veg að of langt sé gengið.