Samningsveð

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:15:48 (1811)


[14:15]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þar sem ég mun hafa tækifæri til að koma nánar að þessu máli í umfjöllun í hv. allshn. þá ætla ég ekki að gera margar athugasemdir hér við 1. umr. En ég vil þó koma nokkrum atriðum á framfæri.
    Í þessu frv. til samræmdra laga um veð er bæði fjallað um stærri og smærri aðila, þ.e. fyrirtæki og einstaklinga. Athugasemdir mínar varða í rauninni báða aðila. Það er í fyrsta lagi að það er töluvert um að lánað sé út á veð sem í rauninni eru metin hátt yfir því sem raunhæft er. Þetta eru dæmi sem eru því miður mjög vel kunn núna á síðustu árum og sjálfsagt lengra aftur í tímann þó að það sé sérstaklega hægt að líta á þetta nú. Þannig að ég held að það þurfi að taka á þessu máli líka og gera þá kröfu að það verði raunhæft mat sem liggi til grundvallar þegar veð er metið. En þetta kemur auðvitað inn á fleira eins og hvernig almennt er staðið að útlánum banka og annarra sem stunda útlán, en ég tel fulla ástæðu til að geta þess hér. Í öðru lagi vil ég líka benda á það og hef þá einkum einstaklinga í huga, að það er allt of lítil krafa gerð til lánastofnana, að það sé lánað út á raunhæfa greiðsluáætlun, heldur er látið duga ef hægt er að útvega veð, eigið eða annarra. Þetta finnst mér mjög ámælisvert, að það skuli vera í reynd staðið að útlánum með þessum hætti. En þetta eru dæmi sem við þekkjum flest og ég minni á að við kvennalistakonur höfum flutt frv. hér á Alþingi þar sem við höfum reynt að taka á þessu máli og gera þá kröfu til útlánastofnana að það sé miðað við raunhæfa greiðsluáætlun og greiðslugetu en ekki bara litið á veð þegar verið er að lána einstaklingum. Það eru því miður fjöldamörg dæmi um það að einstaklingar hafa fengið miklu hærri lán heldur en þeir ráða við að greiða. Það er í afskaplega fáum tilvikum sem gerð er krafa um að gerð sé einhvers konar greiðsluáætlun heldur eru langflestar útlánastofnanir fullsáttar við það ef bara er hægt að reiða fram veð og þá er jafnvel oft og tíðum þannig að það eru veð einhverra annarra heldur en þeirra sem taka lánið og eiga að greiða af því. Og það er annað sem við kvennalistakonur höfðum einnig í okkar frv. og það er að reyna að tryggja öryggi þess sem lánar veð, því eins og við vitum þá er þetta mjög ,,praktíserað``.
    Vissulega þarf að gera sömu kröfu þegar lánað er til fyrirtækja, að það sé virkilega verið að lána á einhverjum raunhæfum grunni. Þar er fjölbreytnin enn meiri og í sumum tilvikum er að sjálfsögðu ekki hægt að standa að lánveitingum nema full veð og þá fullverðmæt veð komi til. En í öðrum tilvikum stendur það atvinnustarfsemi og jafnvel nýsköpun í atvinnu fyrir þrifum að það er erfitt fyrir nýherja í viðskiptum að fara í gang með atvinnurekstur vegna þess að þeir eru ekki reiðubúnir til að veðsetja heimili sín eða annarra, jafnvel þótt það sé alveg tryggt að þeir geti eða mjög líklegt sé að þeir geti staðið við þá greiðsluáætlun sem gerð er. Það er einfaldlega ekki litið á annað en veð og það eru ekki allir reiðubúnir til að veðsetja sín heimili jafnvel þótt þeir hafi mjög góða og örugga áætlun um endurgreiðslu lána. Þetta á ekki síst við um þær konur sem eru að fara út í atvinnurekstur. Þetta er þekkt stærð. Það hefur oft verið rætt um þetta undir ýmsum formerkjum, en það hefur því miður lítið eða ekkert gerst. Það eru afskaplega fáir enn sem eru reiðubúnir til þess að koma til móts við slíkar áætlanir þegar verið er að byggja upp atvinnurekstur.
    Ég tel fulla ástæðu til að koma þessum almennu athugasemdum á framfæri og ég held að það sé alveg tilefni til þess í þessari umræðu. Vissulega þurfa að gilda skýr og samræmd lög um veð, en það verður jafnframt að taka það fyrir að veð eru bæði misnotuð og ofnotuð í allri lánastarfsemi hér á landi.