Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:42:23 (1817)


[14:42]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Spurningin er ekki fyrst og fremst sú hvort Pétur Hafstein hafi verið hæfur til að setjast í réttinn eða ekki, heldur hvort hann var hæfastur af þeim sem sóttu. Hæstv. dómsmrh. getur ekkert vikið sér undan því að hvað starfsreynslu við dómarastörf snertir var hann frekar neðarlega á lista þeirra umsækjenda sem til greina komu. Það er staðreynd máls. Ef dómaraferill hans er borinn saman við t.d., að mig minnir, tvo umsækjendur, þó ég sé ekki með listann alveg í huga mér, en mig minnir að bæði borgardómarinn Garðar Gíslason og borgardómarinn Auður Þorbergsdóttir hafi sótt um þetta embætti. Þau voru bæði tvímælalaust með mun meiri reynslu og víðtækari embættisferil að baki heldur en Pétur Hafstein.
    Það var líka ljóst að Pétur Hafstein hafði nokkrum mánuðum áður blandað sér með mjög eftirminnilegum hætti í átök þáv. formanns Sjálfstfl., Þorsteins Pálssonar, við þáv. borgarstjóra í Reykjavík, Davíð Oddsson. Pétur Hafstein hafði skrifað sérstaka stuðningsgrein í Morgunblaðið sem er afar óvenjulegt. Ég held að hann sé einn af fáum, ef ekki eini sýslumaðurinn á síðari árum, sem hefur með þeim hætti á opinberum vettvangi blandað sér í hörð flokkspólitísk átök. Ég man ekki eftir neinu öðru dæmi um að einstaklingur úr embættisstétt sýslumanna hafi blandað sér í jafnhörð flokkspólitísk átök.
    Ég skal hins vegar svara hæstv. dómsmrh. alveg skýrt. Ég tel að bæði Garðar Gíslason og Auður Þorbergsdóttir hafi staðið langt framar Pétri Hafstein til að taka sæti í Hæstarétti.