Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:45:30 (1819)


[14:45]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ef það þarf að sanna það hvers vegna er nauðsynlegt að breyta lögunum um vald dómsmrh. til að skipa í Hæstarétt þá mun þessi síðasta ræða Þorsteins Pálssonar lifa allan þann tíma sem sú umræða fer fram. Þessi ræða, hæstv. dómsmrh., var ósmekkleg, hún var út í hött, hún er satt að segja ekki svara verð ef hæstv. dómsmrh. kýs að fara með umræðuna með þeim hætti sem hann gerði áðan. Ég er alveg reiðubúinn að ræða við hæstv. dómsmrh. um alla þá umsækjendur sem þar komu fram á faglegum forsendum. Ég hef hins vegar ekki gert það mánuðum saman vegna þess að fjölskyldutengsl mín við einn umsækjanda voru með þeim hættum og ég sagði það alveg skýrt áðan. Og ef hæstv. dómsmrh. heldur virkilega að málflutningur minn um Hæstarétt sé sprottinn af þessu þá bendi ég hæstv. dómsmrh. á að lesa ítarlega grein sem ég skrifaði um þessi mál með tillögum um breytingar á vali á hæstaréttardómurum sem birtist í Morgunblaðinu veturinn 1987--1988. Þar getur hæstv. dómsmrh. séð að þau sjónarmið sem ég hef lýst hafði ég fyrir löngu sett fram. En sæmst væri að hæstv. dómsmrh. bæði þá konu sem lengsta dómarareynslu hefur á Íslandi, starfandi dómara, afsökunar á ummælum sínum áðan og að hann skyldi leggjast svo lágt að þykjast vera að leggja fyrir mig einhverjar gildrur í umræðunum til þess að geta dregið þetta fram með þessum hætti.