Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:53:15 (1822)


[14:53]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég get mjög tekið undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e. að umræða um Hæstarétt ætti að fara fram með öðrum hætti en gerst hefur í þessari umræðu og hversu varhugavert það getur verið að draga nöfn einstakra hæstaréttardómara og umsækjenda um þær stöður inn í þessar umræður. Satt best að segja hef ég dregið að taka til máls í hinni almennu umræðu vegna þess að allar ræður hv. flm. hafa að meira eða minna leyti snúist um einstakar persónur sem sitja í Hæstarétti eða hafa sótt um þau störf. Ég hef haft það á tilfinningunni að það væri meira kappsmál að draga þau atriði inn í umræðuna en efnisatriði frv. Af þeim sökum hef ég dregið að taka hér til máls um efnisatriði frv. en ég tek að öðru leyti undir þau varnaðarorð sem hv. 6. þm. Norðurl. e. mælti hér í sinni ræðu.