Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:18:27 (1829)


[15:18]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í marga mánuði hefur þjóðin rætt það hvernig Alþfl. lítur á embætti sem herfang. Tryggingastofnun ríkisins, eðlilegt að forstjórinn sé þingmaður Alþfl. Seðlabankastjóraembættið. Gamla lénskerfið. Nú gerist það þegar hæstv. dómsmrh. loksins tekur til máls í þessari umræðu að hans ræða er nánast samfelld vörn fyrir það að þessi forustumaður Sjálfstfl. vill halda þessu gamla kerfi um herfang stjórnmálaflokkanna í embættakerfinu á Íslandi, allt upp í Hæstarétt. Ekki einungis að hann telji nauðsynlegt að vera áfram með þá skipan að pólitískur ráðherra hafi nánast alræðisvald yfir því hverja hann skipar dómara í landinu, heldur fer hann að ráðast á Háskóla Íslands vegna þess að í tíð síðustu ríkisstjórnar beitti hæstv. þáv. menntmrh., Svavar Gestsson, sér fyrir því í góðu samráði við háskólann að tryggt væri að faglegt sjónarmið en ekki pólitískur geðþótti menntmrh. réði embættaveitingum í háskólanum. Og hæstv. dómsmrh. kemur hér og segir: Háskólinn hefur farið með þetta vald á þann veg að þessi nýja skipan er vond. Gamla kerfið, þar sem menntmrh. Sjálfstfl. gátu verðlaunað flokksgæðingana með því að veita þeim embætti í háskólanum, það var miklu betra. Það eru mikil tíðindi í umræðunni í þjóðfélaginu um siðleysið af hálfu ríkisstjórnarinnar sem þó fyrst og fremst hefur verið tengt Alþfl. að nú skuli hæstv. dómsmrh., Þorsteinn Pálsson, gerast slíkur talsmaður fyrir þetta gamla flokkspólitíska herfangskerfi á Íslandi, eins og hann gerði áðan. Ég hélt satt að segja að hann væri í hópi þeirra manna sem vildi ekki aðeins breyta almennum lögum í átt til nútíðarhorfs heldur vildi einnig leggja til hliðar þetta gamla herfangskerfi en það var greinilegt af hans ræðu að svo er ekki.