Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:24:45 (1832)


[15:24]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rétt að hv. 8. þm. Reykn. hefur misskilið mig, annaðhvort vísvitandi eða óafvitandi og skiptir ekki máli í þessu sambandi. Ég dró hér inn í umræðuna þær breytingar sem urðu á reglum um skipan embættismanna í Háskóla Íslands vegna þess að ég tel að þær séu til marks um að það er óheppilegt að fjölskipaðir aðilar beri ábyrgð á embættaveitingum eins og þessum. Það dragi úr líkum á því að það sé komið við málefnalegum sjónarmiðum. Það á ekkert við um sjálfstæði háskólans. Embættavaldið gæti þess vegna verið í höndum deildarforseta eða rektors Háskóla Íslands út frá þeim sjónarmiðum sem ég var að tala um og er fullkominn útúrsnúningur af hálfu hv. þm. að halda því fram að þar sé eitthvað verið að vega að sjálfstæði háskólans. Það er verið að tala um form á embættaveitingum og hvernig megi veita aðhald að veitingavaldinu, þannig að tryggt sé að sem best sé gætt málefnalegra viðhorfa. En ég hef ekki orðið var við það í málflutningi hv. þm. Alþb. að það sé í raun og veru það sem fyrir þeim vakir með málflutningi þeirra í þinginu.