Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:26:20 (1833)


[15:26]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta er nú að verða svo hrottalega málefnalegt eða hitt þó heldur af hálfu hæstv. dómsmrh. að maður er bara í vandræðum með að taka þátt í umræðunni. Maður þarf svo langa þingreynslu og mikla hæfileika til þess að geta tekið þátt í umræðu með æfingum af því tagi sem hæstv. ráðherra beitir sér fyrir. Það hlýtur að vera eitthvað erfitt þessa dagana hjá hæstv. ráðherra. Veit hann ekki hver hefur veitingavaldið hjá menntmrn.? Hann talar alltaf eins og veitingavaldið hafi verið tekið af menntmrh. Veit hann það ekki að það er menntmrh. sem hefur veitingavaldið en undirbúningurinn að veitingunni er í höndum háskólans? Hinn faglegi undirbúningur. Menntmrh. getur neitað hvaða tillögu sem er sem kemur frá dómnefndum eða háskóladeildum eða háskólaráði. Veitingavaldið er hjá ráðherranum. Hæstv. ráðherra dómsmála gekk út frá því í gagnrýni sinni á háskólakerfið að það væri vonlaust fyrst og fremst af því að ráðherrann hefði í raun og veru ekki lengur veitingavaldið. Það er ekki svo. Þessi gagnrýni ráðherrans er röng, hún er misskilningur í grundvallaratriðum. Það er auðvitað líka dálítið sérkennilegt að nota þetta sem sérstök rök á móti því frv. um Hæstarétt sem hér er verið að tala um. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að vekja athygli á því að það var hæstv. dómsmrh. sem vakti athygli á því að einn flokkur hefur verið fjarverandi í þessari umræðu. Það voru ekki við, hinir ómálefnalegu þingmenn Alþb., sem vöktum athygli á því, það var dómsmrh., hinn málefnalegi dómsmrh. sem vakti athygli á því, auglýsti það með neonljósum hér í stólnum áðan að Alþfl. hefði ekki látið sjá sig í umræðunni og væri reyndar aldrei í salnum í seinni tíð þegar talað er um dóms- og réttarkerfið í landinu. Öðruvísi mér áður brá meðan Alþfl. beitti sér flokka harðast fyrir umræðum af þessu tagi.
    Ég held að ráðherrann gagnrýni þetta frv. í raun og veru þannig að þar megi tala um grundvallarmisskilning. Aðalatriðið í mínum huga er það að ég kýs við lok umræðunnar, af því að ég hef ekki kost á því að tala aftur í þessu máli, að slá því föstu að ráðherrann hafi viðurkennt að það kerfi sem nú er sé ekki það eina fullkomna undir sólinni. Hann viðurkenni að það sé hugsanlegt að finna aðferð til að laga þetta kerfi. Hann segi hins vegar að það kerfi, sem við erum að gera tillögu um, sé ekki gott, og honum er auðvitað frjálst að hafa þá skoðun. Það er hans mál. En mér finnst aðalatriðið þá að menn sammælist um að það sé komið upp aðhaldi að ráðherrunum við embættaveitingar, líka í þessu tilviki, eins og hæstv. ráðherra dómsmála orðaði það reyndar áðan.
    Ég tel því mikilvægt að sú nefnd sem fær málið til meðferðar láti sér ekki nægja að afgreiða stjfrv. þegar þar að kemur heldur afgreiði hún þetta frv. líka með einhverjum hætti.

    Ég bendi á að í þessu frv. er fjallað um skipan og tillögu dómsmrh. á hæstaréttardómurum til forseta Íslands í fyrsta lagi og ég tel að það sé mikilvægt að það hafi verið opnað fyrir það að með það mál verði e.t.v. farið einhvern veginn öðruvísi en nú er gert. En í öðru lagi er í þessu frv. gerð tillaga um að leggja blátt bann við því að dómarar í Hæstarétti stundi dómstörf hjá öðrum stofnunum, innlendum eða erlendum, eða fjölþjóðlegum, og það er líka gert ráð fyrir því að menn geti ekki fengi leyfi frá störfum í Hæstarétti og komið svo þangað aftur eftir missiri eða ár, heldur sé það svo að ef menn vilja fara úr Hæstarétti í önnur störf þá verði menn að yfirgefa Hæstarétt og það er að sjálfsögðu veruleg breyting á þeim reglum sem gilt hafa um dómara í Hæstrétti. Þessar tvær síðarnefndu tillögur eru líka mikilvægar þó þær hafi því miður ekki verið ræddar í síðustu lotunni. En ég endurtek, hæstv. forseti, að ég fagna því að þrátt fyrir allt hefur hæstv. dómsmrh. sagt að það sé kannski til betra kerfi undir sólinni en það sem nú er við lýði.