Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:41:18 (1836)


[15:41]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekkert í núverandi kerfi sem knýr dómsmrh. til að styðja val sitt á hæstaréttardómara málefnalegum rökum. Ég vil biðja hæstv. dómsmrh. að tilgreina það hér hvað það er í núverandi skipan sem knýr á um það að sérstakur rökstuðningur sé reiddur fram. Hvar er hann látinn í té? Hvar kemur hann fram opinberlega og gagnvart hverjum? Það hefur a.m.k. farið fram hjá okkur. Þvert á móti má orða þetta þannig að ráðherrann þarf ekki í dag að rökstyðja val sitt með neinum hætti. Hann þarf hvergi að mæta til þess nema þá forseti lýðveldisins neiti að skrifa undir staðfestingarbréfið. En þeir sem setið hafa í ríkisráði vita það nú að það fer ekki fram málflutningur þar þegar menn leggja fram bréf til undirritunar fyrir forseta lýðveldisins.
    Það er einmitt gallinn við núverandi kerfi, hæstv. ráðherra, að kerfið er ekki opinbert og málefnalegt með þessum hætti. Sú breyting að Hæstiréttur yrði sjálfur að leggja fram álitsgerð um umsækjendur og hún væri opinber og fagleg væri veigamikið skref í þessa átt. Og það að setja málið upp hér áðan eins og ráðherra gerði, litlu væri Vöggur feginn og hér væri um einhvern sigur að ræða o.s.frv. sýnir bara best að ráðherrann er eitthvað illa staddur þessar klukkustundirnar. Það hlýtur að vera út af Svalbarðsmálum eða einhverjum öðrum og hann hafi skilið sjútvrh. eftir heima þegar hann kom hérna sem dómsmrh. og á því höfum við vissan skilning, en mér finnst alveg óþarfi að láta það bitna á þessari umræðu.