Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:43:13 (1837)


[15:43]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir að sjá hér fyrrv. ráðherra taka til máls og halda því fram að það séu engar almennar stjórnsýslureglur í gildi sem séu þess eðlis að ráðherrar verði að láta málefnaleg sjónarmið ráða varðandi embættaveitingar sínar. Það kemur mér mjög á óvart að fyrrv. ráðherra skuli láta þessi sjónarmið í ljósi og kannski skýrir það eitthvað af hans embættisathöfnum.
    En það er vissulega svo að þó að ekki séu allt skráðar réttarreglur á sviði stjórnsýslunnar, þá eru þær gildandi og fela í sér að ráðherra verður að láta málefnaleg sjónarmið ráða. Um það bera m.a. vitni umsagnir umboðsmanns Alþingis. Það kemur fram í dómsmálum af ýmsu tagi og það ætti hv. 9. þm. Reykv. að vita vegna stöðuveitinga sem hann bar ábyrgð á á sínum tíma sem ráðherra. Og þess vegna furða ég mig á því að þessi sjónarmið skuli koma fram. Það má hins vegar tryggja það miklu betur með ýmsu móti, hefur sums staðar verið gert í stjórnsýslunni, en má gera annars staðar að tryggja það betur að

þetta málefnalega aðhald sé að veitingavaldinu á hverjum tíma. Og það eru sjónarmið sem lúta að slíkum umbótum sem ég hef verið að setja fram og tel að eigi fullan rétt á sér og það sé eðlilegt að menn vinni að og ég fagna því ef það er vilji til þess og er sannfærður um að hv. nefnd mun fjalla um málið á þeim grundvelli.