Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:45:06 (1838)


[15:45]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur staðfest að það er ekkert sem knýr á um að ráðherra, hver sem hann er, geri grein fyrir rökstuðningi sínum við val á einstaklingi í Hæstarétt eða aðra stöðu dómara. Hvort hann býr í huga sínum eða ræðir á lokuðum kontor um einhverjar málefnalegar forsendur er hans mál. Það birtist hvergi á vettvangi stjórnkerfisins og það staðfesti ráðherrann hér áðan.
    Hann fór síðan að benda á að það kynnu hins vegar að koma upp þau tilvik að ráðherrann yrði að reiða fram rökin. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra. Og hver eru þau tilvik? Það er að embættaveitingin sé kærð til umboðsmanns Alþingis. Er ráðherrann virkilega að benda á þá leið hér sem fullnægjandi leið að einhverjir umsækjendur um embætti hæstaréttardómara kæri veitinguna til umboðsmanns Alþingis? ( PP: Eða fyrir Jafnréttisráði.) Já, eða Jafnréttisráðs sem var nú líklegast tilvikið sem hann var að vísa í þegar hann var að tala við hv. 9. þm. Reykv. þannig að við sjáum það nú öll hér í salnum að það að kæra veitingu á dómaraembætti í Hæstarétti til Jafnréttisráðs eða umboðsmanns Alþingis er ekki farsæl leið. Þá er betra að gera aðrar breytingar á kerfinu heldur en halda því fram að eina vörnin sé að fara þá leið. Ég teldi það ekki heppilegt fyrir réttarkerfið í landinu að dómsmrh. þyrfti að standa í sams konar skaki við umboðsmann Alþingis út af veitingu hæstaréttardómaraembættisins eins og hæstv. utanrrh. hefur orðið að gera varðandi embætti tollvarðar á Keflavíkurflugvelli.