Þjóðfáni Íslendinga

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 10:40:35 (1845)


[10:40]
     Gísli S. Einarsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka flm., hv. 16. þm. Reykv., fyrir tillöguna. Þessi tillaga er mjög tímabær. Ég vil taka undir það að notkun íslenska þjóðfánans er svo lítil að það liggur við að það sé vanvirða við fánann, okkar þjóðartákn, að fáninn skuli vart finnast og sjást í skrifstofum og í sendiráðum Íslands erlendis. Það tel ég vera vanvirðu við þjóðartákn okkar Íslendinga.
    Ég tel einnig að á mörgum stöðum og opinberum stofnunum á Íslandi þá vanti þetta þjóðartákn okkar sem gæti fleytt okkur fram meðal þjóða með því að virða fánann betur.
    Það er til dæmis að taka að á ráðstefnum sem Íslendingar standa fyrir erlendis, á ýmsum kynningum, þá er verið að kynna íslenskar vörur, það er verið að kynna íslensk málefni og þá gleyma menn að hafa með sér táknið og sýna hvaðan við komum og kynna okkar land með íslenska fánanum. Aðrar nágrannaþjóðir okkar eins og Danir, það má segja að þeir e.t.v. ofnoti fánann. Það er ofnotkun þegar hvers kyns vörur, t.d. nærföt, eru orðnar merktar með þjóðfána. Það er vanvirða á hinn veginn. ( Gripið fram í:

Af hverju?) Ég hvet til þess að íslenski fáninn verði í hávegum hafður og menn taki nú á þessari þáltill. og veiti henni góðan framgang. Og ég vil endurtaka þakkir til flutningsmanna.