Þjóðfáni Íslendinga

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 10:56:07 (1850)


[10:56]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að taka til endurskoðunar, eins og þessi till. til þál. gerir ráð fyrir, lög um þjóðfána Íslendinga. Ég sé það af greinargerð með þessari þáltill. að meginástæðan fyrir flutningi tillögunnar er sú að flm. telja að það geti verið kostur að gæðavörur íslenskra framleiðenda á erlendum mörkuðum eigi að bera glögg einkenni Íslands.
    Ég er sammála þessu sjónarmiði. Ég held að það gæti verið mjög æskilegt að gæðavörur íslenskrar framleiðslu, þá ekki síst t.d. matvælaframleiðslunnar, en þar eru Íslendingar framarlega, beri einkenni Íslands. Hins vegar er ég ekki viss um að það þurfi að endurskoða lög um þjóðfána Íslendinga til að ná þessu markmiði. Þó kann vel að vera svo og mér finnst sjálfsagt að athuga það.
    Vera kann að út úr þessari athugun kæmi að það væri æskilegt að hannað yrði sérstakt útflutningsmerki, vörugæðamerki, sem hugsanlega bæri í sér fánalitina, væri merkt Íslandi með þeim hætti og ég teldi að það væri í raun og veru betri leið að hanna slíkt gæðamerki sem tengdist fánalitunum eða jafnvel íslenska fánanum með þeim hætti sem löglegt væri. Ég átta mig ekki fyllilega á því hvort nauðsynlegt er að breyta lögunum til þess, en vil taka undir það með þeim þingmönnum sem hér hafa rætt um þetta mál, með þeim hætti að leggja áherslu á varlega notkun þjóðfánans í þessum efnum. Ég tel að það geti komið til greina að finna aðrar leiðir en þær að breyta lögunum um þjóðfánann, þó ég taki heils hugar undir það að vafalaust mætti notkun fánans innan ramma laganna vera miklu meiri en hún er núna.