Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 11:03:06 (1852)

[11:02]
     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár. Ásamt mér eru flm. þeir hv. þm. Matthías Bjarnason, Steingrímur Hermannsson, Páll Pétursson, Kristín Ástgeirsdóttir, Jóhann Ársælsson og Kristinn H. Gunnarsson.
    Í frv. segir:
    ,,1. gr. Frá og með 1. janúar 1994 er óheimilt að verðtryggja fjárskuldbindingar, þar með talin inn- og útlán í bankakerfinu, skuldabréf, verðbréf o.fl., enda verði lánskjaravísitalan lögð niður.
    2. gr. Við gildistöku þessara laga falla úr gildi ákvæði VII. kafla, 34.--47. gr., laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., svo og önnur lagaákvæði er kunna að stríða gegn lögum þessum.
    3. gr. Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara.
    4. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994.``
    Greinargerð frv. er svohljóðandi:
  ,,Frumvarp þetta er hér flutt í sjöunda sinn, nú með örfáum breytingum. Síðast var það flutt á 116. löggjafarþingi.
    Verðtrygging fjárskuldbindinga samkvæmt lánskjaravísitölu hefur þegar gengið sér til húðar, enda komið á daginn að atvinnuvegirnir bera hana ekki. Greiðslustöðvanir og gjaldþrot fyrirtækja, raunar einnig heimila, hafa farið hraðvaxandi. Áframhaldandi hrun og atvinnuleysi er fram undan ef ekki er gripið í taumana.
    Fyrirheit, sem gefin voru með verðtryggingu fjárskuldbindinga, um samdrátt útlána, minni erlendar lántökur og aukinn sparnað, hafa öll brugðist eins og hagskýrslur bera með sér.
    Lánskjaravísitalan er meiri verðbólguvaldur en aðrar vísitölur þar sem byggingarkostnaður er innifalinn, en hann er háður mestum sveiflum í hagkerfinu. Vinnulaun eru og reiknuð í vísitölunni en ein afleiðing þess er sú að sérhver kjarabót launþega er jafnharðan af þeim tekin með sjálfkrafa hækkun skulda af íbúðalánum. Kaupgjaldsvísitalan hefur þegar verið afnumin með lögum og því ekki siðferðilega stætt á

því að halda lánskjaravísitölunni.``
    Um 1. gr.: ,,Þegar lög þessi öðlast gildi er gert ráð fyrir að viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar innlánsstofnanir, sem veita viðtöku fé til ávöxtunar, taki upp þá reglu, sem viðgengst í öðrum vestrænum ríkjum, að greiða vaxtaauka á bundin spariinnlán til eins árs eða lengur ef gildandi vextir eru lægri en nemur verðbólgu. Útgjöld vegna vaxtaaukans eru þá fjármögnuð með fé sem inn kemur við vaxtalækkun á hlaupareikningum, ávísanareikningum og almennum sparisjóðsbókum er notast sem viðskiptareikningar. Talið er af sérfræðingum í banka- og peningamálum að 90--95% rekstrarkostnaður í viðskiptabanka fari í að þjónusta þessa reikninga og fyrir þá þjónustu ber eigendum þeirra að greiða með lágum vöxtum af slíkum innlánum.
    Langtímaútlán verða hins vegar samkvæmt viðtekinni reglu erlendis háð breytilegum vöxtum. Er þá ýmist heimilt að breyta vaxtaprósentunni innan ákveðinna marka (t.d. 2--4%) eða binda hana í t.d. þrjú ár og láta hana síðan fylgja gildandi vöxtum á hverjum tíma.
    Verðtrygging fjárskuldbindinga er ekki lengur við lýði í viðskiptalöndum okkar sem við erum að aðlagast. Þau ríki, sem reyndu verðtryggingu (Finnland, Ísrael og að takmörkuðu leyti Bretland og Svíþjóð), hafa hætt henni. Enginn grundvöllur er því lengur fyrir verðtryggingu hér. Við getum ekki varið það að verðtryggja skuldir en ekki kaupgjald láglaunafólksins sem á að borga skuldirnar.
    Ísland hefur ekki efni á að raska því jafnvægi í kjaramálum og verðlagi sem náðist með þjóðarsátt. Atvinnuvegirnir þola ekki nýja vaxtaskrúfu af völdum lánskjaravísitölu eins og þá er varð 1982--1990 þegar skuldauppsöfnunin náði 100 milljörðum króna hjá útgerð og fiskvinnslu. Það er grunnorsök vandans í dag, ekki aflasamdráttur sem oft hefur verið meiri án þess að valda sambærilegum erfiðleikum.
    Það er út í hött að gera verðtryggingu frjálsa að vali lánveitenda og lántakenda. Hinir fyrrnefndu ráða ferðinni þannig að verðtryggingin yrði í reynd áfram lögþvinguð.
    Það knýr á um afnám verðtryggingar að samkomulag er um að skattleggja fjármagnstekjur eins og aðrar tekjur. Er þá hendi næst að bankar og sparisjóðir innheimti skattinn fyrir ríkissjóð eins og gert er í öðrum löndum. Hann reiknast á nafnvexti enda ógerningur að greina í hverju einstöku tilfelli á milli verðbótaþáttar og raunvaxta. (Ef verðbólga er umtalsverð má hins vegar til mótvægis lækka skattprósentuna.)``
    Rökin sem færð voru fyrir verðtryggingu fjárskuldbindinga eru hin sömu og fyrir sjö árum þegar þetta frv. var fyrst lagt fram. Þau er flest að finna í greinargerðinni. Ýmislegt hefur þó gert afnám verðtryggingar brýnni en áður:
    1. Skuldauppsöfnun af völdum verðtryggingar er nú orðin meiri en atvinnuvegirnir, heimilin og sjálfur ríkissjóður þola. Eins og kemur fram í greinargerðinni fimmfölduðust verðtryggðar skuldir landsmanna á árabilinu 1982, þegar full verðtrygging var upp tekin, til loka áratugarins. Þjóðarsátt við launþega stöðvaði eða minnkaði þann hrunadans en hve lengi stendur hún? En þrátt fyrir þjóðarsátt og lága verðbólgu hefur lánskjaravísitalan hækkað á þessu ári um 3,3%. Skuldir heimilanna eru taldar um 250 milljarðar. Þótt þær séu ekki allar verðtryggðar má ætla að þær hafi hækkað minnst um 6--7 milljarða. Skuldir fyrirtækjanna eru taldar um 330 milljarðar þannig að þar gæti hækkunin verið 9--10 milljarðar. Að sjálfsögðu má ætla að eignir hafi hækkað eitthvað á móti en þess þarf og að gæta að eignir í íbúðarhúsnæði og atvinnufyrirtækjum standa ekki of vel í því kreppuástandi sem yfir okkur gengur. En þrátt fyrir þetta er það staðreynd að lánskjaravísitalan smyr yfir 15 milljarða ofan á skuldir landsmanna á þessu þjóðarsáttarári.
    2. Þá er og þess að geta að gjaldeyrisviðskipti hafa verið gefin frjáls og gengi sveigjanlegt. Hvorugt þetta fær staðist til lengdar ef við höfum kerfi sjálfkrafa vaxtahækkana sem viðskiptaþjóðir okkar hafa ekki.
    Að öllu samanlögðu og vegna biturrar reynslu eigum við ekki annars úrkosta en að afnema ófreskju lánskjaravísitölunnar.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. er nú flutt í sjöunda sinn eins og fyrr kom fram, þannig að saga þess er orðin nokkuð löng. Ýmist hefur það verið svæft í nefnd eða vísað til ríkisstjórnar. Nú eru kaflaskil. Vaxta- og verðtryggingarkerfið er komið í strand, svo sem ég hef lýst, og flutningsmönnum hefur fjölgað, eru orðnir sjö úr fjórum flokkum. Því er þess að vænta að frv. fái skjóta afgreiðslu í nefnd og komi hér til atkvæða. Löngu er orðið tímabært að Alþingi standi frammi fyrir atkvæðagreiðslu, já eða nei, um afnám lánskjaravísitölu.
    En það eru önnur kaflaskil þessa dagana. Stundaglasið var að renna út þegar ríkisstjórnin beitti sér fyrir vaxtalækkun fyrir skemmstu. Ríkisstjórnin hafði gefið fyrirheit um að beita sér fyrir mikilli vaxtalækkun í tengslum við kjarasamninga. Lengi vel gerðu menn ekki annað en að tala en nú hefur athöfn fylgt orðum sem sannarlega ber að fagna. Er vonandi að bankar, lífeyrissjóðir og allir aðilar haldi áfram að taka þátt í þessari tilraun þannig að árangur náist og ekki verði gengið til baka. Almenningur og atvinnufyrirtæki hafa lengi beðið eftir þessum fréttum, ekki aðeins að þetta standi í bráð, heldur og í lengd.
    Ástæða er til að ítreka þakkir til ríkisstjórnarinnar, sérstaklega forsrh., fyrir að hafa tekið rögg á sig í vaxtamálum. Þetta varð að gerast fyrir 10. nóv. og hvort við eigum þetta að þakka markaðinum eða handaflinu, þá einfaldlega loksins, loksins gerðist þetta, það var meginmálið og þungu fargi var þar með létt af heimilunum og atvinnufyrirtækjunum.
    Um leið og ég endurtek þakkir til forsrh. fyrir aðgerðir í vaxtamálum vil ég kynna þá skoðun mína

að þetta hefði ekki gerst þrátt fyrir góðan vilja annarra ráðherra ef Jón Sigurðsson sæti enn í stóli viðskrh. Hann var sá veggur í þessu máli sem sýndist ókleift að komast yfir.
    Auðvitað ætti forræði vaxta- og peningamála að vera í höndum forsrh. á hverjum tíma. Hann hefur með efnahagsmálin að gera og þarf því að hafa forræði vaxtamála í sinni hendi. Þeirri breytingu þarf nauðsynlega að koma á. En ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. núv. viðskrh. fyrir aðgerðir hans í þessu máli. Hér var bókstafalega um líf og dauða þjóðarinnar að ræða að stíga þetta skref. Dauð hönd viðskrh. mátti ekki lengur standa.
    Ég er ekki vanur að hrósa krötum en nú vil ég bregða út af því og ítreka þakkir til hæstv. núv. viðskrh. fyrir að höggva á hnútinn. Það var mál til komið og drottinn minn dýri, ef við sætum enn við óbreytt ástand. Hæstv. núv. viðskrh. var umdeildur í sínu fyrra embætti. Í sínu nýja embætti virtist hann í fyrstu og raunar enn snúa sér um of að landbúnaðarmálum svo sem gerir hans ágæti formaður. Þau mál eru á annarra forræði. En forgöngu hæstv. forsrh., forgöngu hæstv. núv. viðskrh. í þessum vaxtamálum, þau ber að undirstrika og þakka. Nú vil ég mega vænta frá hæstv. ráðherra, eftir að búið er að tryggja varanlega vaxtalækkun að hann gerist góður liðsmaður í baráttunni fyrir afnámi lánskjaravísitölunnar. Það er í fullu samræmi við aðgerðir hans, aðgerðir einmitt hæstv. viðskrh. í vaxtamálum að undanförnu.
    Ég vil svo leyfa mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.