Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 11:33:48 (1855)


[11:33]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hvar er hæstv. viðskrh.? ( Forseti: Þannig háttar til að hæstv. viðskrh. þurfti að hverfa af fundi vegna fundar með ákveðnu sveitarfélagi á Vestfjörðum úti í Þórshamri.) Nú, ég verð þá að una því, ég ætlaði reyndar að eiga við hann ofurlítinn orðastað, en ég vil ekki láta hjá líða að þakka hv. 1. flm. þessa máls fyrir eljuna og flytja þetta mál í sjöunda sinn. Okkur hefði farnast betur ef við hefðum samþykkt þetta mál fyrir sjö árum síðan. Verðtryggingin er leifar frá fortíðinni og það er löngu kominn tími til að afnema þær leifar. Ef ég mætti taka aftur eitthvað af því sem ég hef gert í þingsölum þá orkar það ekki tvímælis að það sem ég sé mest eftir að hafa gert í málafylgju eða atkvæðagreiðslum, það er að samþykkja lög nr. 13 frá 1979. Þessi lög voru ekki alómöguleg miðað við þáverandi kringumstæður, þó hefur reynslan sýnt að þar orkaði ýmislegt tvímælis svo ekki sé meira sagt. En á hinn bóginn hafa eftirstöðvar þeirra reynst okkur ógæfulega. Ef ég mætti lifa upp aftur þá mundi ég ekki greiða atkvæði eins og ég gerði þá.
    En það þýðir ekkert að vera að harma orðinn hlut. Þessu verður bara að breyta og breyta sem allra fyrst. Verðtryggingin ásamt allt of háum vöxtum hefur stuðlað að mikilli eignatilfærslu í þjóðfélaginu. Eignatilfærsla var að vísu fyrir 1979 með öðrum hætti, þ.e. sparifé brann upp og það átti þessi lagasetning ásamt með verðtryggingunni að lækna. En lækningin reyndist helmingi hættulegri en sjúkdómurinn. Hér hefur komið fram hvað skuldir, bæði heimila og fyrirtækja, eru gífurlega háar og að búa við svona peningakerfi, þ.e. vaxta- og verðtryggingarkerfi eins og við höfum undanfarin ár búið við og þó sérstaklega á valdatíma þessarar ríkisstjórnar, þá hefur það stuðlað að gífurlegri eignatilfærslu í þjóðfélaginu. Það hefur stuðlað að því að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari. Það hefur verið núv. hæstv. ríkisstjórn þóknanlegt en það er þjóðfélaginu til meins og ólíðandi ástand. Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur tekið á sig dálitla rögg og lækkað vexti með handafli. Það er að sjálfsögðu spor í rétta átt og þakkarvert, en það er ekki stórt skref og það þarf að stíga fleiri. Ríkisverðbréf eru hærri á Íslandi en í 13 löndum eftir þessa vaxtalækkun, samkvæmt fréttabréfi um verðbréfaviðskipti sem ég er hér með höndum. Þetta er skrá um raunvexti ríkisskuldabréfa í 14 löndum samkvæmt tímaritinu Economist í byrjun nóvember 1993 og Verðbréfaþingi Íslands. Raunvextir eru nafnávöxtun nýrra ríkisskuldabréfa til langs tíma að frádreginni verðbólgu samkvæmt spá OECD. Ísland er þar í 13. sæti af þessum 14 þrátt fyrir það að við séum búnir að lækka raunvexti ríkisskuldabréfa. Það er einungis í Kanada af þessum 14 löndum, sem við viljum bera okkur saman við, sem vextir á ríkisskuldabréfum eru hærri.
    Það má ekki gleyma því að vextir voru hækkaðir, það var eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, að stórhækka vextina. Nú er að vísu búið að leiðrétta það loksins með handafli eftir allan þennan tíma, þannig að sumir lánaflokkar eru komnir niður fyrir það sem þeir voru þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við og ég undirstrika að t.d. fasteignatryggð skuldabréf eru annað hvort á sama róli eins og þau voru þá eða jafnvel hærri.
    Afurðalánavextir á Íslandi eru enn þá allt of háir og það er óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin beiti handafli sínu til þess að koma þeim neðar ef okkar atvinnulíf á að geta gengið.
    Ég nefni það að vaxtamunur bankanna er enn þá háskalega mikill og því þarf að breyta líka. Þrátt fyrir það að vaxtalækkun hafi orðið og bankarnir hafi sagt að vaxtamunurinn hafi minnkað, þá fæ ég ekki séð samkvæmt þeim gögnum sem ég hef í höndum, að vaxtamunurinn hafi minnkað neitt að ráði og í sumum tilfellum hefur hann beinlínis hækkað.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég vil ítreka þakkir mínar til hv. 6. þm. Suðurl. fyrir eljusemi hans og þar sem ég er einn af meðflm. þessa frv. þá þarf ég ekki að lýsa yfir stuðningi við það, það liggur fyrir á þskj.