Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 11:41:57 (1856)


[11:41]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og fleiri þakka flm. og ekki síst 1. flm. elju hans og þrautseigju að það skuli nú vera í sjöunda sinn sem hann leggur þetta mál fram. Þó að það hafi ekki náð fram að ganga að öðru leyti þá er enginn vafi á því að það hefur haft áhrif á umræðuna í þjóðfélaginu. Hann skipti sinni ræðu í tvennt, annars vegar snerist hún um afnám lánskjaravísitölunnar sem hann leggur mikið upp úr og hins vegar um vexti. Auðvitað eru þetta í sjálfu sér tvö aðskilin mál, það er enginn vafi á því að lánskjaravísitalan hefur haft sín verðbólguáhrif en ég hygg þó að Íslendingar séu um það sammála að sá tími má aldrei koma í sögu þessarar þjóðar að fjármagnið verði brennt upp í óðaverðbólgu, sparifé er dýrmætasta eign hverrar þjóðar og það er auðvitað mikilvægt að kenna ungu fólki og þjóðum í heild sparnað. Það hefur kannski að vissu marki tekist, alla vega sýnir staðan það hvað spariféð varðar að hún er ólík því sem hún var og hefur þróast í rétta átt frá því að Ólafslögin voru sett.
    Ég vænti nú þess að alþingismenn séu sammála um hversu mikilvægt er að sparifé haldi verðgildi sínu. Hitt er svo önnur saga hverjir vextirnir eigi að vera. Ég er t.d. alveg sannfærður um það að einhver mestu mistök sem gerst hafa á íslenskum peningamarkaði gerðust 1985 að kröfu Sjálfstfl. um að vextir yrðu gefnir frjálsir. Þar hófst sú skriða hækkandi vaxta sem hefur lagst af miklum þunga á atvinnulífið og gengið frá því lömuðu á mörgum sviðum. Það er enginn vafi á því að sú dýra ákvörðun sem gerð var að kröfu Sjálfstfl. 1985 hefur valdið því að íslensk atvinnufyrirtæki og íslenskar fjölskyldur eru skuldum vafnar í dag. Þar voru stigin þau örlagaspor sem hleyptu stóreignamönnum á fjármagni og lífeyrissjóðunum í þá samningsaðstöðu, í þá kröfugerð, sem ekki hefur linnt síðan. Því miður. Það er kannski hlægilegt að hrósa krötunum verulega úr þessum ræðustól á þessum degi. Þeir eru farnir í pílagrímsför um landið, greyin, og þeir fara undir kjörorðinu ,,Lækkum vexti, bætum kjörin``. Þetta er iðrunarferð. Hverju hefur þessi ríkisstjórn áorkað? Hennar fyrstu verk voru að hækka vexti á spariskírteinum ríkissjóðs úr 6,5% upp í 8,3% hæst haustið 1991.
    Þessi aðgerð hefur kannski leitt það af sér sem þeir eru að segja íslenskum heimilum núna að ríkisstjórnin hafi með sinni vaxtalækkun fært íslenskum heimilum og fyrirtækjum 10 milljarða. Hvað hefur gerst á þessum tveimur árum? Þessi handaflsaðgerð við upphafsferil ríkisstjórnarinnar hefur auðvitað ráðið því að margir hafa misst heimili sín og við sjáum það núna að fyrirtæki eins og Hjálmur á Flateyri og fleiri segja: Þessi ár voru svo örlagarík að nú verðum við að hætta störfum og loka. Þau eru mörg fyrirtækin í þeirri stöðu á Íslandi sem ekki þoldu þessa ákvörðun og ekki hafa þolað vaxtatöku tveggja síðustu ára og eru því miður nú að segja fólkinu upp og loka dyrunum. Þannig að það er seint í rassinn gripið og hin minnsta ástæða fyrir stjórnarflokkana að slá sér á brjóst og hrósa sér af afrekum sínum. Þeirra stærstu mistök var þessi fyrsta gjörð og það er langt þangað til að íslensk þjóð verður á nýjan leik komin út úr þeim erfiðleikum sem þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar skóp. Enda sagði hv. flm. að stundaglasið væri að tæmast og því miður er það tómt hjá mörgum hvað þetta varðar.
    En auðvitað ber að fagna því að loksins náðu menn saman um að snúa til baka þó seint væri. Ég ræddi það hér við stefnuræðu forsrh. hversu mikilvægt væri að lækka vexti og sagði þá m.a.: ,,Eina raunhæfa leiðin til lækkunar vaxta er því sú að íslenska ríkið lækki sín tilboð um svona 3%. Þá er víst að almennir útlánsvextir munu lækka að sama skapi. Við þessa aðgerð yrðu stærstu fjármagnseigendurnir, sem eru lífeyrissjóðirnir í landinu og stóreignamenn á peningum að lækka sína ávöxtunarkröfu.``
    Það má segja að ríkisstjórnin hafi, eins og skáldið sagði: ,, . . .  yfir fóðri Framsóknar fýlir grön en étur.``

    Hún varð að fara handaflsleiðina, hún varð að fara skynsemisleiðina fyrir rest og ná saman um málið og þetta er áreiðanlega í eina skiptið í heiminum sem ein setning fjmrh. hefur haft svo afdrifarík áhrif en hann sagði einfaldlega þetta: Ef þið ekki kaupið þessi bréf ríkissjóðs með þessari vaxtaprósentu eða þessum afföllum þá erum við farnir á erlendan markað.
    Þessi yfirlýsing dugði til þess að þeir sem svo vel hafa verið fóðraðir á síðustu árum sáu að þeir urðu að kaupa áfram. Og vonandi standa þeir með íslensku atvinnulífi og íslenskum heimilum og halda peningunum hér í landinu þó bréfin séu nú á lægri kjörum en þau hafa verið.
    Á þetta vildi ég leggja áherslu. Auðvitað veltir maður því líka fyrir sér og því hafa ýmsir haldið fram að Seðlabankinn væri mikilvægt stjórntæki í vaxtamálum og flestar ríkisstjórnir um allan heim viðurkenna að svo sé. Hér sagði hv. flm. að Jón Sigurðsson hafi verið ókleifur veggur í gegnum mörg ár. Þetta virtist hann vera sem viðskiptaráðherra. Það fannst okkur sem störfuðum með honum í fyrri ríkisstjórn og það fannst þeim sem kannski hafa starfað með honum í þessari. En ég er þó í engum vafa um það hvað Seðlabankann varðar og eftir komu hans þar, svo ég taki að hrósa krötum, þá á Jón Sigurðsson, sem seðlabankastjóri auðvitað sinn þátt í því að leiða til lykta þessa nýju framsóknarstefnu ríkisstjórnarinnar sem framkvæmd var á haustdögum því hann hefur með þekkingu sinni sem seðlabankastjóri auðvitað lagt málið upp með nýjum hætti. Og það er enginn vafi á því að mörg þau nýju úrræði sem Seðlabankinn loksins kom með í þessu máli urðu til þess að vextir lækkuðu og bankarnir og aðrir gátu gengið inn í þetta samstarf með ríkisstjórninni. Á þetta vildi ég leggja áherslu.
    Ég get fallist á það að lánskjaravísitalan hverfi og auðvitað er það tímabært þegar verðbólga hefur um svo langt skeið verið jafnlág. En ég vil jafnframt leggja á það áherslu sem ég sagði í upphafi að það er afar mikilvægt að varðveita spariféð og sá tími má aldrei koma aftur að þeir sem eru að spara og fara ekki í sólarlandaferðir, spara sér bílakaup, leggja þjóðfélaginu til sparnað sinn, jafnvel með því að borða minna dag hvern eins og sumir gera, að þetta fé eitt verði látið brenna upp. Þess vegna er það mikilvægt um leið og lánskjaravísitalan er afnumin að menn finni þá tækni eða nái saman um þá stöðu að spariféð haldi verðgildi sínu og beri hóflega vexti eins og nú er að gerast. Enn fremur vil ég taka það fram að það hefur alltaf verið mér ljóst að bankar lifa ekki á háum vöxtum, þeir lifa á vaxtamun, þeim er ekkert mikilvægara bönkunum en að atvinnulífið snúist á nýjan leik. Að það sé góður gangur í atvinnulífinu því við sjáum auðvitað að það sem bankar og sjóðir hafa verið að leggja til hliðar upp í gjaldþrotin, töpin á síðustu árum, ekki síst á tíma þessarar ríkisstjórnar, það eru auðvitað hroðalegar tölur að það skuli vera einir 10 milljarðar á tíma þessarar ríkisstjórnar sem bankar og sjóðir hafa orðið að leggja til hliðar til þess að mæta þeirri helstefnu sem þessi ríkisstjórn setti af stað strax á sínu fyrsta degi. En þökk sé þeim að smáskíma hefur nú komist inn í kollinn á þessum ráðherrum sem hér ríkja.