Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 11:54:47 (1857)


[11:54]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. ,,Fornar dáðir Framsóknar farnar eru að dofna``. Það er auðheyrt á máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðna Ágústssonar, þess sem talaði síðast hér, sem hefur verið málsvari hávaxtastefnu á Íslandi undanfarin ár og það er eðlilegt að hann kvarti eins og ég skildi hans málflutning fyrir hönd síns banka þar sem hann er hagsmunagæslumaður yfir því að minni gróði flýtur í sjóði þá sem hann er gæslumaður fyrir. Það var einmitt það sem kom fram í hans síðustu orðum að það er vaxtamunurinn sem bankarnir lifa á og það er vaxtamunurinn sem hv. síðasti ræðumaður vill halda uppi og það kemur berlega í ljós af þeim gögnum sem streyma frá þeirri stofnun sem hann stendur fyrir.