Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:00:07 (1861)

[12:00]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil nú eins og aðrir þingmenn sem hér hafa tekið til máls þakka þeim þingmönnum sem þetta frv. flytja og þá ekki síst 1. flm., hv. 6. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, fyrir að koma með þetta hér eina ferðina enn. Það segir auðvitað sína sögu um að þetta er tímabært frv. að þessi umræða skuli þó eiga sér stað þetta mikil, miðað við að þetta er í sjöunda sinn sem frv. kemur inn í þingið.
    Ég vil segja það sem mína skoðun að ég tel að það sé jafneðlilegt að afnema nú verðtryggingu fjárskuldbindinga eins og það var að minni hyggju eðlilegt að verðtryggja fjárskuldbindingar með Ólafslögunum árið 1979. Það kemur mér reyndar svolítið á óvart og finnst það fróðlegt út af fyrir sig að heyra hér í hv. þm. sem stóðu að þeirri verðtryggingu, stóðu að því að samþykkja Ólafslögin árið 1979 að þeir skuli nú gera þá játningu að það hafi kannski verið þeirra stærstu mistök á þeirra þingmannsferli að gera þetta vegna þess að mér hefur ekki fundist umræðan vera á þeim nótum síðan að þarna hafi verið sérstök mistök gerð.
    Eins og við náttúrlega öll vitum þá var áratugurinn á milli 1970 og 1980 þannig að vextir voru neikvæðir allan tímann og þeir verða ekki jákvæðir í rauninni, raunvextir fyrr en með Ólafslögunum 1979, fyrr en með verðtryggingu fjárskuldbindinga. Á þessum áratug, 1970--1980 náðu vextir því meira að segja að verða neikvæðir um allt að 24% sem er auðvitað alveg gífurlegur, hvað eigum við að segja, bruni bara á sparifé sem átti sér þá stað. Það sjáum við líka ef við skoðum þennan áratug að innlendur sparnaður brann meira og minna upp. Og það er á þessum áratug sem erlend lántaka fer að eiga sér stað í þeim mæli að við bindum okkur verulega skuldabagga sem við eigum í erfiðleikum með núna, sem við erum að súpa seyðið af og komumst illa frá. Þannig að vissulega var þá tímabært að grípa til einhverra ráðstafana vegna þess hvernig sparifé brann upp á þessum áratug.
    Ég held að almennt höfum við Íslendingar farið dálítið illa að ráði okkar á þessum áratug. Við áttum ýmis tækifæri, það var færð út landhelgin í tvígang. Fyrst 1972 og síðan 1975. Við bárum hins vegar ekki gæfu til að fara þannig með fiskimiðin sem við náðum undir íslenska lögsögu að við umgengjumst þau með þeim hætti að það væri ekki um rányrkju að ræða vegna þess að við í rauninni tókum til við rányrkjuna þar sem Bretar og Þjóðverjar hættu henni og erum að súpa seyðið af því líka í dag í þeim niðurskurði sem á sér stað í þorskveiðum. Engu að síður var talsverð þensla á þessum áratug, það var talsverð velta í samfélaginu en við brenndum upp innlendan sparnað og við fórum út í erlendar lántökur og ég held að á þessum áratug séu margar rætur þess vanda sem við er að etja í dag.
    Hins vegar voru Ólafslögin ekki fyrstu lögin til þess að ákvarða verðtryggingu fjárskuldbindinga vegna þess að áður höfðu t.d. námslán verið verðtryggð, það gerðist strax árið 1975. Þá voru námslán verðtryggð og það fólk sem var í námi á þeim árum og þar á eftir er allt saman með sín námslán verðtryggð nánast að fullu. Og námsmenn gengust inn á það á þeim tíma vegna þess að þeir töldu eðlilegt að þeir greiddu til baka það sem þeir fengu lánað, að námslánin brynnu ekki upp eins og annað en súpa nú kannski margir seyðið af því í dag.
    Þegar verðtryggingu var komið á þarna 1979, þá varð hún engu að síður þess valdandi að í dag búa tvær þjóðir í þessu landi. Það er annars vegar þjóðin sem fjárfesti fyrir verðtryggingu og svo sú sem

fjárfesti eftir verðtryggingu. Það fólk sem eignaðist íbúðir sínar eða fjárfesti þá í fyrirtækjum eða öðru eftir að verðtrygging kom til og svo hinir sem eignuðust íbúðir sínar áður en verðtryggingin kom til. Þetta held ég að öllum sé ljóst og nú finnst mér sú spurning vakna við þetta frv. hvort þetta muni endurtaka sig, hvort það verði aftur tvær þjóðir í þessu landi eða kannski bætast við þriðja þjóðin, þá erum við að tala um þjóðina sem er með þessar verðtryggðu skuldbindingar allar frá síðasta áratug, frá því eftir 1979 og svo hins vegar þá þjóð sem mun ef þetta nær fram að ganga fá sín lán án verðtryggingar. Og þetta segi ég vegna þess að mér finnst kannski vanta inn í þessa umræðu að menn velti því fyrir sér hvernig eigi að fara með þann hóp fólks sem er með gífurlegan skuldabagga á herðunum að fullu verðtryggðan og með háum vöxtum líka. Og við skulum bara horfa á það fólk sem hefur verið að taka húsbréfalán síðan húsbréfin komu til sögunnar. Þar eru flestir með 5,5--6% vexti á húsbréfunum auk verðtryggingar. Mér finnst að það verði aðeins að velta því fyrir sér hvernig á að taka á málum þessa hóps. Þessi hópur skiptir sjálfsagt þúsundum því húsbréfalánin sem afgreidd hafa verið síðan það kerfi tók til starfa skipta örugglega þúsundum. Þannig að þarna er verulega stór hópur á ferðinni sem þá situr uppi bæði með verðtryggingu, háa vexti og afföllin. Þegar við erum að tala um hér að lækka vextina og þeir hafa farið lækkandi á húsbréfunum t.d., og við erum að tala um að afnema verðtrygginguna og væntanlega eins og málin standa núna eru lítil afföll. Þarna erum við komin með tvo hópa sem búa við algjörlega mismunandi kjör ef fram fer sem horfir. Og við verðum að velta því sérstaklega fyrir okkur hvernig við ætlum að taka á málum þessa misgengishóps sem lenti í misgenginu eftir 1983 þegar kjörin voru skert á einu bretti um 30% en verðtryggingin hélt áfram. Það var ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. sem það gerði árin 1983 og 1984. Þar var ákveðinn hópur sem lenti í þessu misgengi og það er spurning hvort þessi hópur er aftur að lenda í því að sitja uppi með verðtryggð lán og háa vexti. Þetta er auðvitað ekki bara fyrir okkur í þinginu að velta fyrir okkur heldur auðvitað ríkisstjórnina líka ef hún hefur markað þá stefnu að afnema verðtryggingu.
    Hér hefur líka verið sagt --- þá erum við að tala um þessa háu vexti sem hér eru ríkjandi --- að rót þess vanda liggi í ákvörðun um að gefa vexti að hluta til frjálsa 1984 og síðan voru þeir gefnir að fullu frjálsir 1987 og fóru þá fljótlega upp í 9% og hafa verið þar nánast síðan. Þá hafi þessi vandi skapast. Og ég get alveg tekið undir það, það sýna allar tölur, að þarna gerðist þetta. Þarna hækkuðu raunvextirnir upp í 9% og hafa í rauninni ekki lækkað fyrr en þá núna á allra síðustu dögum og vikum.
    En mér finnst skjóta svolítið skökku við þegar hv. 5. þm. Suðurl., Guðni Ágústsson, segir að þetta hafi verið gert að kröfu Sjálfstfl., það kann vel að vera, nú þekki ég það ekki, en þarna voru auðvitað saman í ríkisstjórn á þessum tíma Sjálfstfl. og Framsfl. Þetta hefur væntanlega verið gert með tilstyrk beggja flokka. Og menn geta ekki þvegið algerlega af sér fortíðina og hljóta að gangast við því að þeir áttu þátt í þessum ákvörðunum með einum eða öðrum hætti. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. Guðni Ágústsson hefur átt þar hlut að máli en einhverjir hafa væntanlega komið þar að.
    Vaxtalækkunin nú lofar vissulega góðu og er fagnaðarefni, hlýtur að vera fagnaðarefni öllum sem bera hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu fyrir brjósti, en auðvitað vaknar sú spurning eins og hér hefur verið velt upp: Hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að gera þetta fyrr? Hvaða aðstæður eru það einmitt núna sem segja að það sé hægt að lækka vexti, aðstæður sem ekki voru hér fyrir nokkrum mánuðum? Ég fæ ekki séð hvaða aðstæður það eru. Vextir í löndunum í kringum okkur eru enn lægri en hjá okkur það voru þeir líka fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það er enn þá talsverð eftirspurn eftir lánsfé, það hefur ekki dregið úr henni. Hún er enn til staðar þessi eftirspurn eftir lánsfé. Hún var það líka fyrir nokkrum mánuðum þannig að það er í rauninni ekkert nýtt í stöðunni sem gerir það að verkum að menn geta einmitt núna lækkað vexti en gátu það ekki fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þar er bara einhverju viljaleysi um að kenna. Menn hafa skýrt það þannig út að þjóðin hafi verið sálfræðilega tilbúin til þess núna. Ég held að þessi þjóð sé búin að vera sálfræðilega tilbúin fyrir vaxtalækkun lengi. Það kunna að vera einhverjir sparifjáreigendur sem voru sálfræðilega ekki undir það búnir og hafa kannski þurft að vinda einhvern veginn ofan af sér til að verða viðbúnir vaxtalækkun. En almennt held ég að þjóðin sé búin að vera sálfræðilega undir þetta búin og hafi kallað eftir þessu nú um langt skeið.
    Ég vil segja að lokum að ég fagna þessu frv. en það vekur ýmsar spurningar ekki síst um það hvernig eigi að standa að málum gagnvart því fólki sem er með miklar verðtryggðar fjárskuldbindingar á bakinu á háum vöxtum. Hvernig ætla stjórnvöld að standa að málum gagnvart þessu fólki?