Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:21:25 (1864)


[12:21]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég heyri ekki betur en að við séum nokkuð sammála, ég og hv. þm. Guðni Ágústsson, þó hann vilji meina að almennur sparnaður sé eitthvað meiri en ég hef trú á. Ég efast ekkert um það að fermingarbörnin blessuð leggi sína peninga inn í bankakerfið enda eru bankarnir með gylliboð og jafnvel senda þeim fyrstu krónurnar sem fermingargjöf. Þannig að það er ekkert skrítið og það er ekki sá sparnaður sem við erum í raun og veru að tala um. Hitt er annað mál, sem ég gleymdi áðan, að ég vildi taka örlítið upp hanskann fyrir hv. þm. þar sem veist var að honum áðan fyrir það að halda uppi hávaxtastefnu í landinu. Ég tek ekki undir þær árásir á hv. þm., ég þekki hann af öðru og ég veit að hann hefur barist fyrir öðru. Þó hann hafi hugsanlega ekki náð þeim árangri sem hann persónulega hefði óskað eftir í bankanum, þá veit ég nákvæmlega hver hans afstaða er og hún er sú sem hann lýsti sjálfur áðan.