Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:43:11 (1872)


[12:43]
     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka mjög góðar undirtektir og umræður sem hér hafa farið fram um þetta mál. Fyrst um hina stuttu og kjarnyrtu ræðu hv. 1. þm. Vestf. sem hann flutti hér í upphafi. Hún var sannarlega kennslubók fyrir okkur öll hv. þingmenn. Því miður vantaði á að ráðherrar væru hér viðstaddir og hlýddu ef þeir þá mættu nema. En því miður voru þeir ekki viðstaddir.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði hér þá játningu að kannski hefðu verið hans mestu mistök að hafa stutt Ólafslög á sínum tíma og það er að sjálfsögðu fagnaðarefni þegar þingmaður lítur yfir langan feril og sér að hann hefur gert ákveðin mistök. Hver og einn á ekki að skammast sín fyrir að kynna þau þjóð og þingheimi og ég er á því að þetta sé rétt sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði. Þetta voru ein af mestu mistökum í löggjöf sem hefur verið sett á Íslandi. Að sjálfsögðu þurfti að gæta hagsmuna sparifjáreigenda á hverjum tíma en þarna var gengið svo langt, allt of langt til að færa fórnir fyrir íslensk heimili og atvinnuvegi og flutt fjármagn á allt of fáar hendur.
    Ég vil þakka hv. þm. Inga Birni fyrir að koma inn í þessa umræðu einmitt með það sjónarmið sem hann hélt fram að við búum við það að fjölda þingmála er vísað til nefnda og kemur þaðan aldrei aftur. Nú horfir svo til einmitt í þessu máli að það sýnist vera góður meiri hluti í þeirri nefnd sem málið fer til til að fylgja því eftir inn í þingsali og ég vona að það standi ekki á því og það muni fljótlega sjást.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún vakti athygli á þeirri staðreynd að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. á sínum tíma afnam verðtryggingu á kaupgjaldið en gleymdi að taka um leið verðtryggingu fjárskuldbindinga úr sambandi. Ég er henni sammála enda þótt ég styddi þá ríkisstjórn þá get ég horft til baka og séð séð að það voru mistök að þetta var ekki þá þegar gert. Enn hefur þetta ekki verið gert. Enn veður lánskjaravísitalan áfram og nú er komið að þeim tímapunkti sem ég vona að á þessu verði tekið.
    Hv. þm. ræddi um misgengishópa og ég vil taka undir hennar orð. Það þarf að sjálfsögðu að horfa til þess og skoða í ljósi liðinnar tíðar hvernig þar verði hægt að koma til móts. Hv. þm. spurði og: Hvers vegna ekki fyrr? og það er sú spurning sem við getum spurt okkur öll. En það tókst um leið og það skipti um hæstv. viðskrh., Jón Sigurðsson hvarf. Þá tókst um leið að lækka vexti svo að um munaði og það þarf að fylgja því eftir að það sé ekki bara stundarákvörðun.
    Ég held að ég hafi getið þeirra ræðumanna, nei, ég á ónefndan hv. samþingmann minn Guðna Ágústsson og hans skörulegu ræðu. Það er um það að segja að Jón Sigurðsson, hæstv. viðskrh., réð hv. þm. sem aðstoðarmann sinn í bankamálum og fól honum mikil trúnaðarstörf með því að skipa hann bankaráðsformann í eini höfuðbankastofnun landsins. En kratar léku lausum hala í þeirri ríkisstjórn svo sem þeir leika enn, því miður. En út af helstefnu Sjálfstfl. sem hv. þm. minntist á, sjálfstæðismönnum hefur tekist núna að draga úr helstefnu kratanna sem Framsókn tókst ekki í fyrri ríkisstjórn með því að taka skörulega á í vaxtamálum og því ber einmitt að fagna.
    Hv. þm. rakti að hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson hefði tekið á í þessu máli og það má spyrja þá út frá því: Hvers vegna ekki fyrr? Hvað með aðra fjármálaráðherra, þar á meðal þann sem hv. þm. Guðni Ágústsson sat með í fyrri ríkisstjórn? Fjármálaráðherrar hefðu þurft að vakna fyrr og ber að þakka að hæstv. ráðherra Friðrik Sophusson tók á sig rögg.
    Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir undirtektir hans við þetta mál. Þetta er í fyrsta skipti sem ráðherra tekur undir málið. Ég hefði þó viljað að hann hefði sýnt kröftugri stuðning við málin með því að taka undir að það gæti verið afgreitt frá nefnd og komið hér inn í þingið til atkvæða. Hann vísaði enn á rétt eina nefndina sem hann væri að skipa í þessu máli. Nýverið hefur svokölluð vaxtanefnd skilað tillögum. Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan sem fyrrv. viðskrh. skipaði hana. Tillögur hennar í lánskjaravísitölunni eru einfaldlega: Haltu mér, slepptu mér. Nefndin vill draga úr verðtryggingunni og hafa hana að nokkru heimila en ekki skylda. Það er ónóg til endurbóta. Lágmarkskrafa er að fastbinda raunvexti af verðtryggðum lánum sem gera átti reyndar frá byrjun.
    Sannleikurinn er sá að okkur vantar ekki enn að vísa þessu í nefnd. Við eigum bara að ganga til þess leiks þegar væntanlegt er, sem ég vona að komi fljótlega, álit frá efh.- og viðskn. um málið og afgreiða þetta þegar á þingi í vetur.
    Fyrrv. viðskrh. Jón Sigurðsson tók frv. mínu núna í tvö síðustu skipti með þeim orðum að það væri eins og vorboði. Eins og hann stóð að málunum og framkvæmdi þá var það raunar háð. En að nota orðið vorboða í þessu tilliti er dálítið furðulegt, eitt fegursta orð íslenskrar tungu, vorboðinn á vorin sem leysir úr læðingi og færir okkur líf. Gegnum margar myrkar aldir hefur alltaf verið vonast eftir vorboðanum og honum tekið fagnandi. En ef svo væri að frv. mitt og okkar flm. væri vorboði, sem ég vil vona að það sé í mörgu tilliti, þá vænti ég þess að hv. alþm. taki á sig rögg og við samþykkjum á þessu þingi afnám lánskjaravísitölu.