Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:55:44 (1875)

[12:55]
     Flm. (Eggert Haukdal) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig tekur því kannski ekki að vera að karpa um liðna tíð. Þeir sem hafa verið við stjórn landsmála á undangengnum árum, eru allir sekir í að láta vaxtabrjálæðið ganga og við getum kannski deilt endalaust um hverjum það sé mest að kenna. Við eigum þarna allir vissa sök, þar á meðal við báðir hv. þm. En ég sný ekki aftur með það að upptaka lánskjaravísitölunnar eru ein meginmistökin í löggjöf hér á landi. Það hefur komið í ljós. Af því stafa öll vandamál okkar í dag, heimila og atvinnufyrirtækja. Skuldir hafa margfaldast, vaxtabyrðin er svo gífurleg að undir henni hefur ekki tekist að standa. Aflasamdráttur og eitt og annað sem komið hefur upp á þessum árum er að sjálfsögðu slæmt. En miklu verri er lánskjaravísitalan og það kerfi sem henni hefur fylgt, af því að stjórnmálamenn kunnu þá ekki tök á að halda verðbólgunni í skefjum. Lánskjaravísitalan er sá meinvættur sem þarf að hverfa.