Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:57:20 (1876)


[12:57]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það er ástæðulaust að deila um fortíðina. Við getum einmitt mikið af henni lært og ríkisstjórnin hefur í vaxtamálum stigið rétt skref, að mínu viti, og náð árangri sem skilar framtíðinni einhverju, en fortíðin á auðvitað sínar minningar um að þetta gerðist ekki fyrir tveimur árum. Það eru ljótar minningar.
    Hitt er svo önnur saga og það er kannski fróðlegt að velta því upp. Höldum við þessari stöðu í vöxtunum, náum við þeim neðar eða höldum við þessari stöðu? Hér vantar hæstv. fjmrh. við þessa umræðu. Það getur orðið býsna erfitt ef ríkissjóður verður rekinn með 15--20 milljarða halla. Það atriði eitt felur í sér tímasprengju sem getur sprungið framan í ríkisstjórnina. Það er því mikilvægt að hv. þm. brýni fjmrh. sinn í flokknum til þess að taka á ríkissjóðshallanum með sparnaði og ekki síður að reyna að klóra einhvers staðar í þessa 15--20 milljarða sem taldir eru liggja í skattsvikum úti um þjóðfélagið. Öll þessi atriði munu ráða því hvort við getum haldið þeirri ferð sem nú hefur verið mörkuð, um að festa lága raunvexti í sessi sem eru íslensku atvinnulífi og íslenskum heimilum mikilvægust kjarabót um þessar mundir.