Fangelsi og fangavist

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 13:30:10 (1878)

[13:30]
     Flm. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, sem er á þskj. 227 og á þskj. 226 er frv. til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, með síðari breytingum. Ástæðan fyrir því að ég óska eftir að mæla fyrir þessum frumvörpum saman er sú að þau fela bæði í sér lagabreytingar sem snerta fangelsi og fangavist, þó viðkomandi lög heyri undir tvö ráðuneyti, annars vegar heilbr.- og trmrn. og hins vegar dómsmrh.
    Breyting sem ég legg til að gerð verði á lögum um atvinnuleysistryggingar er að við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    ,,Nú hefur maður lokið samfelldri afplánun refsivistar sem staðið hefur a.m.k. síðustu 12 mánuði, að meðtalinni gæsluvarðhaldsvist, og skal hann þá hafa rétt til atvinnuleysisbóta þó að hann uppfylli ekki skilyrði 3. tölul. 1. mgr. þessarar greinar, enda uppfylli hann önnur skilyrði til greiðslu bótanna.``
    Þá er lagt til að lög þessi öðlist þegar gildi.
    Í 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um hverjir það eru sem eiga rétt til atvinnuleysisbóta. Í fyrsta lagi eru það þeir sem eru á aldrinum 16--70 ára, í öðru lagi þeir sem dvelja hér á landi og í þriðja lagi þeir sem hafa á síðustu 12 mánuðum unnið samtals a.m.k. 425 dagvinnustundir í tryggingaskyldri vinnu. Í fjórða lagi þeir sem sannað hafa með vottorði frá vinnumiðlunarskrifstofu, samkvæmt lögum um vinnumiðlun, að þeir hafi í upphafi bótatímabils verið atvinnulausir þrjá eða fleiri heila vinnudaga.
    Í 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru þeir taldir upp sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 3. tölul. að þeir sem sviptir eru frelsi sínu með dómi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þó er það ekki algild regla því að í 17. gr. laganna er kveðið á um að í einstaka tilviki geti einstaklingur geymt bótarétt sinn í allt að 24 mánuði vegna sérstakra aðstæðna. Í síðustu mgr. 17. gr. segir:
    ,,Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar gilda eftir því sem við á um þá, sem taldir eru upp í 3. tölul. 21. gr.``
    Þar er átt við þá einstaklinga sem sviptir hafa verið frelsinu með dómi, en þeir geta geymt áunninn rétt sinn til atvinnuleysisbóta í allt að 24 mánuði meðan á afplánun dóms stendur. Vissulega er hér um ákveðið öryggi að ræða fyrir þá sem eru allt að 24 mánuði í fangelsi. Staðreyndin er hins vegar sú að fæstir þeirra sem afplána dóm, um lengri eða skemmri tíma, hafa stundað vinnu reglubundið áður en til fangelsisvistar kemur. Því er í fáum tilvikum um áunninn bótarétt að ræða sem þessir einstaklingar geta nýtt sér að aflokinni fangelsisvist. Því er lagt til að lögum um atvinnuleysistryggingar verði breytt til hagsbóta

fyrir þá sem koma út úr fangelsi eftir að hafa afplánað 12 mánaða refsivist.
    Eins og áður sagði er í 3. tölul. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kveðið á um að til þess að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta þurfi að skila a.m.k. 425 dagvinnustundum á síðustu 12 mánuðum áður en sótt er um bæturnar. Ekki er að finna í lögum neina undanþágu frá þessu ákvæði fyrir þá sem geta alls ekki uppfyllt þetta skilyrði, vegna þess að þeir hafa verið sviptir frelsi sínu með refsidómi á umræddu tímabili og eiga ekki neinn áunninn rétt. Ég tel þó ekki neina ástæðu til að ætla að fyrir löggjafanum hafi vakað að gera rétt manna minni fyrir það að þeir hafi setið af sér refsidóm. Samkvæmt lögum um fangelsi og fangavist síðan 1988 er okkur skylt að sjá til þess að maður sem afplánar refsivist eigi kost á vinnu eða námi meðan á fangelsisdvöl stendur. Ekki hefur reynst unnt að framfylgja þessu ákvæði laganna vegna þess að aðstæður eru ekki fyrir hendi í öllum fangelsum landsins til þess að bjóða vinnu. Og þar sem þær aðstæður eru til staðar er sjaldnast um að ræða fullan vinnudag. Þeir fangar sem hafa haft möguleika á að stunda vinnu innan fangelsis og gert það um lengri eða skemmri tíma, geta ekki nýtt sér þann unninn tíma til bótaréttar. Fangar geta þess utan ekki valið sjálfir í hvaða fangelsi þeir fara með tilliti til þess hvort þar er vinnu að hafa eða ekki. Ákvörðun um hvar afplánun refsingar fer fram er tekin af Fangelsismálastofnun ríkisins.
    Samkvæmt frv. sem ég mæli hér fyrir er ekki gert ráð fyrir að þeir sem hafa afplánað skemmri dóm en eitt ár geti unnið sér inn rétt til atvinnuleysisbóta meðan á fangelsisvist stendur. Gert er ráð fyrir að gæsluvarðhaldsvist komi til viðbótar afplánun ef afplánun kemur í beinu framhaldi, þannig að viðkomandi hefur ekki verið frjáls maður þar á milli. Einnig er gert ráð yfir að einungis með samfelldri afplánun geti maður aflað sér réttar á þennan hátt.
    Loks vil ég geta meginástæðu þess að frv. er flutt. Ég tel að við samþykkt þess aukist möguleikar þeirra sem lokið hafa refsivist í fangelsi til nýs lífs án afbrota. Hafa verður í huga að verulegur hluti þeirra sem sitja í fangelsum landsins er fólk sem lifað hefur rótlausu lífi og jafnvel verið háð vímuefnum. Í mörgum tilfellum á þetta fólk ekki fjölskyldu sem getur veitt því þann stuðning sem til þarf og verður að takast á við lífið án aðstoðar. Þeir sem lokið hafa afplánun í fangelsi eiga oft erfitt með að fá vinnu og það atvinnuleysi sem nú er til staðar dregur enn frekar úr atvinnumöguleikum þessa hóps.
    Ef einstaklingur kemur út úr fangelsi án atvinnu, án fjölskyldu og jafnvel án húsnæðis, nema í stuttan tíma, eru möguleikar hans til þess að lifa eðlilegu lífi afar takmarkaðir. Atvinnuleysi og peningaleysi getur því jafnvel orðið til þess að menn leiðist aftur inn á braut afbrota. Með því að tryggja þessum hópi atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit stendur má e.t.v. tryggja að einhverjir þeirra sem tekið hafa út dóm og lokið afplánun í fangelsi fari ekki út á sömu braut aftur.
    Við afgreiðslu frv. um atvinnuleysistryggingar á síðasta þingi flutti minni hluti hv. heilbr.- og trn. brtt. við frv., efnislega samhljóða því frv. sem ég mæli hér fyrir. Sú brtt. var ekki samþykkt. Helst mátti skilja að það væri vegna þess kostnaðar sem samþykkt hennar hefði í för með sér. En ég vil þá biðja hv. þm. að íhuga vel hvort unnt er að meta til fjár þann ávinning sem fengist ef samþykkt þessa frv. gæti orðið til þess að koma í veg fyrir að fyrrum refsivistarfangi fari aftur inn á braut lögbrota. Einnig ættu menn að hugleiða hvort ekki sé rétt að gera það sem hægt er til að svo verði ekki.
    Fangelsismálanefnd hefur skilað skýrslu um stöðu fangelsismála í dag og í yfirliti sem birt er sem fskj. með skýrslunni kemur fram að 16 fengu dóm til fangelsisvistar í 12 mánuði eða meira árið 1991. Þar af voru 5 með 36 mánaða dóm eða meira. Í yfirliti nokkurra ára sýnir að fjöldinn er þetta á bilinu 15 til 25 á ári sem fá dóm til refsivistar yfir 12 mánuði og þá meðtalið þeir sem eru með lengri dóma, 36 mánuði eða meira. Af þessum tölum sést að það er ekki um stóran hóp að ræða sem fengi rétt til atvinnuleysisbóta samkv. frv. þessu og hefur því ekki verulegan kostnað í för með sér.
    Virðulegi forseti. Mér hefur stundum fundist að þjóðfélagið haldi áfram að refsa einstaklingi sem hlotið hefur fangelsisdóm og tekið út sína refsingu. Viðtökurnar sem sá einstaklingur fær þegar frelsið er fengið er í sumum tilvikum ekki hvatning til að halda sig frá því líferni sem áður var. Starfsemi Fangelsismálastofnunar og tillögur hennar um úrbætur í fangelsismálum miða að því að hver einstaklingur fái sem mesta umhugsun og leiðbeiningar meðan á afplánun dóms stendur. Menn horfist í augu við þann verknað sem þeir hafa framið, en noti þann tíma sem dvalist er innan veggja fangelsis til að búa sig undir að takast á við lífið þegar út kemur, með öðrum hætti en áður. Deildaskipting fangelsa er einn liður í því starfi. Því miður gengur þetta ekki upp í öllum tilvikum, það er staðreynd. En fái fangelsismálin það fjármagn sem til þarf til að koma tillögum Fangelsismálastofnunar og stefnu í framkvæmd, þá er ég viss um að markmið hennar nást og ekki verði lengur talað um að menn komi út úr sumum fangelsum jafnvel forhertari en þeir fóru þangað inn. Okkar er síðan að taka við og sjá til þess að einstaklingi sem lokið hefur afplánun dóms verði veitt lágmarksaðstoð meðan viðkomandi leitar sér að vinnu og kemur undir sig fótunum að nýju. Réttur til atvinnuleysisbóta er sú lágmarksaðstoð. Það kostar vissulega peninga að greiða atvinnuleysisbætur en það kostar meira í tilfinningalegu og efnahagslegu tilliti ef einstaklingurinn fer aftur í sama far afbrota og glæpa. Auk þessa er hér ekki, eins og áður sagði, um verulegar upphæðir að ræða, þar sem hópur þeirra einstaklinga sem hljóta 12 mánaða fangelsisdóm eða meira er sem betur fer frekar fámennur. Því ætti kostnaðurinn ekki að koma í veg fyrir samþykkt frv.
    Síðara frv. sem ég mæli fyrir, virðulegi forseti, er eins og áður sagði á þskj. 226 og fjallar um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, með síðari breytingum. Þar er lagt til að breytingar verði gerðar á 2. gr. laganna þar sem kveðið er á um hlutverk Fangelsismálastofnunar ríkisins. Í fyrsta lagi að við greinina bætist nýr töluliður er verði 5. töluliður og orðist svo:
    ,,Að veita aðstandendum fanga sérhæfða þjónustu, svo sem félagsráðgjöf og sálfræðiaðstoð.``
    Í öðru lagi er lagt til að núv. 5. tölul. 2. gr. laganna verði 6. tölul. og orðist svo: ,,Að sjá um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta, svo sem heilbrigðisþjónusta, prestþjónusta og sálfræðiþjónusta.``
    Í 2. gr. frv. er síðan ákvæði um gildistöku.
    Í frv. er lagt til að meðal lögbundinna verkefna Fangelsismálastofnunar verði að veita aðstandendum fanga sérhæfða þjónustu, svo sem félagsráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Ákvæði þar að lútandi bætist við sem nýr 5. tölul. 2. gr. laganna. Fram til þessa hafa starfsmenn stofnunarinnar reynt eftir mætti að veita aðstandendum fanga þá sérhæfðu þjónustu sem hér er lagt til að verði eitt af lögbundnum verkefnum hennar. Aðstandendur fanga eiga oft við svipuð andleg og félagsleg vandamál að glíma og fangarnir sjálfir og leita því aðstoðar sérfræðinga Fangelsismálastofnunar. Það er mikið áfall hverri fjölskyldu þegar einstaklingur innan hennar brýtur af sér og er af þeim sökum dæmdur til fangelsisvistar.
    Í þjóðfélaginu fer lítið fyrir opinni umræðu um fangelsi og fangavist. Helst fer umræða um þessi mál af stað ef hægt er að tengja hana einhverjum æsifréttum og þá oft fjallað um fangelsi og dvöl fanga innan veggja fangelsa af vanþekkingu. Neikvæðir atburðir sem eiga sér stað í fangelsum verða oft kveikja að slíkum umræðum og hún snýst oft og tíðum eingöngu um það neikvæða. Skemmst er að minnast síðustu syrpu sem tekin var í umfjöllun fjölmiðla um fangelsin þegar fangar struku frá Litla-Hrauni og Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg eða þegar sál þjóðarinnar hellti úr sér yfir fjölmiðlamenn, sem kynda óspart undir með því að velta vöngum yfir því hvort dómur í tilteknu ofbeldismáli hafi verið of þungur eða of vægur. Inn á milli er svo verið að reyna að koma að málefnalegri umræðu um framkvæmd fangelsismála í landinu en þá virðist áhugi þjóðarsálarinnar og fjölmiðla ekki eins mikill. Það segir e.t.v. sína sögu að ég held að enginn stjórnmálaflokkur hafi nokkru sinni birt meðal stefnumála sinna neitt um fangelsi eða fangamál.
    Af þessu má ljóst vera að vitneskja aðstandenda einstaklings, sem hlotið hefur fangelsisdóm, um það hvað bíður hans er harla lítil. Þar á ofan er alltaf erfitt að horfa á eftir sínum nánustu í fangelsi, jafnvel þó alvarlegur verknaður liggi að baki dómi. Aðstandendur, og þá sérstaklega foreldrar og maki þess er fangelsisdóm hlýtur, leita iðulega til Fangelsismálastofnunar með vandamál sín. Eðlilega, þangað sem þekkingin býr og skilningur er til staðar á líðan þeirra. Í dag starfar einn sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun. Hlutverk hans samkvæmt lögum er að veita föngum sérfræðiaðstoð. Jafnframt hefur það komið í hans hlut sem og annarra starfsmanna stofnunarinnar að sinna aðstandendum fanga. Það segir sig sjálft að einn sálfræðingur nær engan veginn að anna þeirri þörf sem fyrir hendi er í fangelsunum sjálfum, fyrir þessa sérhæfðu þjónustu, hvað þá að sinna öllum þeim aðstandendum fanga sem til stofnunarinnar leita. Með samþykkt frv. sem ég mæli hér fyrir yrði það eitt af lögbundnum verkefnum Fangelsismálastofnunar ríkisins að veita þessum aðstandendum sérhæfða þjónustu, félagsráðgjöf og/eða sálfræðiþjónustu, en það þyrfti þá að samþykkja eitt stöðugildi starfsmanns, félagsráðgjafa eða sálfræðings til að sinna þessu hlutverki. Þetta stöðugildi yrði til viðbótar þeim sem þegar eru fyrir hjá stofnuninni. Kostnaðurinn við það mun vera u.þ.b. tvær millj. kr. á ári.
    Þess má geta að enn hafa ekki fengist heimildir fyrir öllum þeim stöðugildum sem áætlað var að yrðu hjá Fangelsismálastofnun þegar lögin um stofnunina voru samþykkt árið 1988. Þá mun hafa verið talið að tólf stöðugildi þyrfti til að sinna því hlutverki sem stofnuninni var falið, en starfsmenn stofnunarinnar hafa verið á bilinu 7--9.
    Í júlí 1991 skipaði dómsmrh. nefnd til að gera heildarúttekt á stöðu fangelsismála og leggja fram tillögu um stefnumörkun. Í nefndinni áttu sæti hópur fólks með víðtæka þekkingu á stöðu fangelsismála. Í skýrslunni sem fangelsismálanefnd sendi frá sér, að loknu starfi nefndarinnar, er í raun tekið undir þær breytingar sem hér eru lagðar til í frv. Þar er m.a. fjallað um nauðsyn á sálfræði- og félagslegri þjónustu fyrir fanga og aðstandendur þeirra. Þar segir að við samþykkt laga um fangelsi og fangavist árið 1988 hafi þótt nauðsynlegt að auka félagslega þjónustu við fanga. Jafnframt segir í skýrslunni:
    ,,Ekki þarf að hafa mörg orð um það að félagslegar aðstæður fanga og nánustu vandamanna þeirra eru oft og tíðum mjög bágbornar og efast enginn sem til þekkir um að rík þörf er fyrir markvissa félagslega aðstoð. Efla þarf félagslega þjónustu við fanga í formi stuðningsviðtala við þá og fjölskyldur þeirra, þeim þarf að veita stuðning til að ná tökum á lífinu og skipuleggja framtíðina og undirbúa endurkomu út í þjóðfélagið. Löng refsivist setur jafnan úr skorðum fjárhagslegan og tilfinningalegan grundvöll tilverunnar.``
    Í skýrslunni kemur einnig fram, eins og áður sagði, að aðeins einn sálfræðingur er starfandi hjá Fangelsismálastofnun, sem hvergi nærri getur annað öllum þeim beiðnum um aðstoð sem frá föngum koma og því hefur myndast löng biðröð eftir þessari nauðsynlegu þjónustu og því varla hægt að ætla þessum eina starfsmanni að sinna einnig aðstandendum fanga.
    Seinni breytingin sem ég legg til að verði gerð á lögum um fangelsi og fangavist er sú að lagt er til að 5. tölul. 2. gr. laganna breytist í samræmi við nýjan tölulið. Í gildandi lögum þar sem kveðið er á um hlutverk Fangelsismálastofnunar segir í 5. tölul.:
    ,,Að sjá um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta, svo sem heilbrigðisþjónusta, prestþjónusta,

o.s.frv.``
    Ég tek fram, virðulegi forseti, að þessi orð, og svo framvegis, eru ekki mín heldur eru þau beint upp úr lagatextanum.
    Í frv. sem ég mæli hér fyrir er lagt til að þessi töluliður orðist svo:
    ,,Að sjá um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta, svo sem heilbrigðisþjónusta, prestþjónusta og sálfræðiþjónusta.``
    Eina breytingin er sú að í stað orðanna og svo framvegis komi orðið sálfræðiþjónusta. Ég tel reyndar að þessi orð, ,,og svo framvegis`` eigi ekki að sjást í upptalningu á lagatexta.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka markmið þess frv. sem ég ræddi í upphafi, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, þ.e. að veita einstaklingum sem lokið hafa afplánun tólf mánaða fangelsisdóms lágmarksaðstoð í formi atvinnuleysisbóta, til að gera þeim kleift að hefja líf án afbrota. Markmið seinna frv. er að veita aðstandendum fanga sérhæfða þjónustu, félagsráðgjöf og/eða sálfræðiþjónustu, því fátt er eins erfitt og að vita einhvern manni nákominn fremja afbrot svo alvarlegt að það leiði til fangelsisdóms.
    Ég legg til að frv. til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. og frv. til laga um breytingar á lögum um fangelsi og fangavist verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.