Fangelsi og fangavist

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 13:50:14 (1880)


[13:50]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég kem upp fyrst og fremst til að lýsa stuðningi mínum við þær hugmyndir sem hér liggja að baki og vil þakka flm., hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, fyrir hennar framlag og framlagningu þessara mála.
    Í stuttu máli, ef ég vík að þskj. 227, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, þar sem gert er ráð fyrir að fangar sem afplánað hafa eða setið inni í tólf mánuði skuli öðlast rétt til atvinnuleysisbóta, þá get ég sagt að það er mín skoðun að þegar menn eru búnir að afplána sinn dóm og sitja af sér þá eru þeir búnir að gera upp við samfélagið, gera upp við þjóðfélagið, og því eiga þeir að hafa öll þau réttindi sem aðrir menn, frjálsir menn, hafa. Þetta er í grundvallaratriðum mín skoðun og í raun og veru

þá þyrfti ég ekkert að segja meira um þetta mál. Það er því miður oft þannig þegar rætt er um fanga og fangelsismál að þá kemur fyrst upp í huga manna stórglæpamenn og síbrotamenn, en það er nú ekki þannig, sem betur fer, í fangelsum landsins. Megnið af þeim sem þar sitja inni eru menn sem hafa orðið leiksoppar örlaganna eða hafa af einhverjum öðrum ástæðum farið úr af sporinu og langflestir þeirra ætla sér ekkert annað en að komast beint á beinu brautina þegar þeir koma út. Þess vegna er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að við gerum allt sem við getum til að koma þeim á beinu brautina, það er nógu erfitt samt að koma út og mæta fordómum þjóðfélagsins sem bíður þeirra þar. Fyrir utan það ástand sem er hugsanlega í það og það sinnið í þjóðfélaginu, eins og t.d. í dag þegar mikið atvinnuleysi ríkir og erfitt getur verið fyrir menn að koma undir sig fótunum.
    Ég velti samt fyrir mér hvort menn eigi að fara beint á atvinnuleysisbætur eða hvort það eigi að líða einhver tiltekinn tími, ég veit það ekki. Þetta er atriði sem ég tel að nefndin þurfi að skoða. Ég veit ekki hvort það er hugsanlegur hvati til að fara ekki beint í að leita sér að vinnu, ef menn geta farið beint á atvinnuleysisbætur. Það ætti t.d. að láta mánuð líða eða eitthvað slíkt þannig að menn færu frekar beint í að leita sér að vinnu en ella. Þetta er spurning sem kemur upp. Ég veit ekkert hún á rétt á sér eða ekki, en nefndin mun skoða það.
    Ég hef enga trú á að þessu fylgi mikill kostnaður. Ég held að hann hljóti reyndar að vera afar lítill. Hv. flm. veit vafalaust um hversu marga er að ræða svona í meðalári. En ég hef enga trú á að það sé slíkur fjöldi að við séum að tala hér um stórar upphæðir, þannig að það verður ekki baggi á þjóðfélaginu þó að þessum útgjöldum yrði bætt við. Um þetta mál hef ég í rauninni ekkert annað að segja. Ég á sæti í hv. allshn. og mun taka þátt í að fjalla um málið þar og mun gera það á þeim nótum sem ég hef hér lýst. Ég vona að það skiljist að þær eru mjög jákvæðar.
    Um hitt málið hef ég nákvæmlega ekkert að segja annað en það að ég er því einfaldlega sammála. Ég er sammála síðasta ræðumanni um að það mætti jafnvel auka þetta enn frekar en gert er ráð fyrir. En fyrsta skrefið er jú það mikilvægasta, það má þá vinna að því að laga það seinna. Aðalatriðið er að umræðan fari af stað og um leið og hún er farin af stað þá leiðir hún oftast nær til einhverra bóta.