Fangelsi og fangavist

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 13:59:54 (1884)


[13:59]
     Flm. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa komið og tekið undir þær tillögur sem felast í þeim frv. sem ég mælti fyrir. Í fyrsta lagi þá nefndi hv. þm. Ingi Björn Albertsson þann fjölda sem fengi dóm, 12 mánuði eða meira á ári, hverjar þær tölur væru. Ég er með hér í skýrslu frá fangelsismálanefnd tölur frá 1985--1991. Árið 1985 voru þessir einstaklingar 10 eða 2,9% þeirra sem fengu dóm. 1986 voru þeir 15 eða 4,2% þeirra sem fengu dóm. 1987 16 eða 4,4%. 1988 19 eða 5,2%. 1989 19, 1990 voru þeir 19 og 1991 voru þeir 11. Þeir sem fengu 12 til og með 36 mánaða dóm. Síðan eru þeir sem fá yfir 36 mánaða dóm og það eru miklu færri einstaklingar. 1985 eru þeir 2. 1986 eru þeir 3. 1987 eru þeir 2. 1988 eru þeir 4. 1989 eru þeir 6. 1990 eru þeir 7 og 1991 eru þeir 5.
    Hv. þm. Árni R. Árnason spurði mig hvort ég hefði kannað sérstaklega hvort hægt væri að taka þarna inn þá sem hefðu fengið styttri dóma heldur en 12 mánuði. Ég hef ekki kannað það sérstaklega, hins vegar mat ég það út frá viðtölum sem ég hef átt við forsvarsmenn fangelsanna við fanga sjálfa og með tilliti til þess að hér var lagt fram frv. á síðsta þingi um samfélagsþjónustu sem hugsanlega getur komið í stað þriggja mánaða dóms eða dóma allt að þriggja mánaða fangelsisdóm. Ef það frv. verður lagt fram aftur, sem ég vonast til, og fær afgreiðslu þá fannst mér eftir þessa athugun að þetta væru rétt mörk og einnig með það í huga að yfirleitt er það þannig að menn afplána ekki allan dóminn. Þeir sem fá 6 mánuði, þá er oft og tíðum 4--6 mánaða afplánun. Svo kom náttúrlega inn í sú umræða sem var í heilbr.- og trn. fyrir ári síðan þegar ég ræddi þessa tillögu þar hvað þetta kostaði og þess vegna fannst mér eðlilegt að gera þessa tilraun og sjá hvernig þetta kæmi út, þá yrði farið af stað með það að miða við að um 12 mánaða refsivist væri að ræða.
    En ég ítreka þakklæti mitt til hv. þm. og vil taka sérstaklega undir þau orð sem komu frá hv. þm. Guðrúnu Halldórsdóttur þar sem hún talaði um að það þyrfti að bæta við starfsliði Fangelsismálastofnunar. Sú stofnun hefur á þeim árum sem hún hefur starfað unnið verulega gott verk. Í dag eru að eiga sér stað breytingar í fangelsinu austur á Litla-Hrauni sem eru alveg í samræmi við þá skýrslu fangelsismálanefndar til dómsmrh. síðan 1991 sem ég vitnaði til áðan og fékkst fjármagn í þær breytingar á þessu ári.
    Forstöðumaður Fangelsismálastofnunar hefur sagt það oftar en einu sinni að ástand fangelsismála í dag sé ekkert betra eða verra heldur en við viljum. Það sé háð þeim fjárveitingum sem Alþingi ákvarðar og það er alveg rétt. En þær tillögur, sem koma hins vegar frá þessari nefnd og eru í þessari skýrslu sem ég hvet hv. þm. til að kynna sér, lýsa einmitt því viðhorfi sem fram kom áðan að fangelsin væru notuð, þó það sé kannski ekki rétt að nota orðið betrun, þá væri það samt í þá átt heldur en hitt. Ég velti því fyrir mér í sumar þegar þessi umræða um strokin var sem allra mest, strokin frá Litla-Hrauni og frá Skólavörðustíg, hvort það væri það sem við þyrftum til þess að augu okkar opnist fyrir því að Alþingi þyrfti að veita fjármagn til þessa málaflokks og fannst það svolítið hastarlegt að hugsa það þannig að það væri kannski og það er kannski einkennilegt að orða það þannig einnig, að það væri kannski því að þakka að fjármagnið fékkst, að það þurfi alltaf eitthvað alvarlegt að gerast til þess að augu okkar opnist fyrir fjárþörfinni í þessum málaflokki, því það hefur ekki verið mikið lagt í þennan málaflokk af hálfu Alþingis. En ég vil hins vegar taka það fram að frá því að hæstv. núv. dómsmrh. kom í dómsmrn. þá hafa átt sér stað verulegar úrbætur og störf fangelsismálanefndar og skýrslan sem er unnið eftir er m.a. fyrir hans forgöngu.