Úrbætur í málum nýbúa

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 14:14:07 (1887)

[14:13]
     Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingmáli 238 sem er á þskj. 273, það er till. til þál. um úrbætur í málefnum ungmenna sem flutt hafa til Íslans frá framandi málsvæðum. Flm. eru auk mín aðrar þingkonur Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Kristín Einarsdóttir.
    Þáltill. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að beina því til menntamálaráðherra að:
    a. Standa fyrir gerð kennsluefnis fyrir ungmenni af erlendu bergi um sögu, landafræði, náttúrufræði og félagsfræði. Kennsluefnið verði á einföldu en góðu íslensku máli og til þess ætlað að byggja brú yfir í efni almennra kennslubóka í íslenskum skólum.
    b. Beita sér fyrir því að tekin verði upp í grunnskólum íslenska sem annað mál fyrir þá nemendur sem eru nýkomnir til landsins eða aðfluttir frá framandi málsvæðum.``
    Í greinargerð segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Meðal hins mikla fjölda nýbúa, sem sest hafa hér að á undanförnum árum, er allstór hópur ungmenna á aldrinum 10 til 20 ára. Mörg koma þau frá framandi málsvæðum Asíu og Austur-Evrópu. Ungmenni frá Austur-Evrópu eiga tiltölulega auðvelt með að tileinka sér málfræði því yfirleitt tala þau tungu sem byggist á beygingafræði. Hins vegar er orðaforðinn allur nýr. Þau ungmenni sem koma frá Asíu tala yfirleitt tónamál og beygingafræði er þeim algjörlega framandi.`` --- Það mun aðeins vera á Filippseyjum sem talað er mál sem er beygingarmál.
    ,,Fyrstu skólaár þessara ungmenna fara því nær alfarið í að ná tökum á daglegum orðaforða og einföldustu beygingafræði. Innihald greina eins og þeirra sem að framan getur fer hreinlega fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum þeirra. Þess vegna flosna mörg þeirra upp úr skóla strax í 10. bekk og eiga oft ekki möguleika á að ná sér aftur á strik í námi. Þessi vandi var fáum ljós í upphafi innflytjendastraumsins hingað en er nú að koma betur og betur fram. Þannig glatast ár hvert út úr skólakerfinu nokkrir greindir og vel gerðir unglingar og er fyrirsjáanlegt að verði ekki gripið til ráða sem duga hið fyrsta mun þessi hópur fara sístækkandi og íslensk þjóð hefur ekki efni á að kasta þannig hæfileikum þeirra á glæ.
    Mörg ungmenni sem koma frá málsvæðum sem liggja nærri íslensku, svo sem germönskum, engilsaxneskum og norrænum málsvæðum, eiga við skamman vanda að stríða en þó þarf að veita þeim úrlausn. Því er lagt til að íslenska standi þeim til boða á námsskrá grunnskólanna sem annað mál áður en þau

hefja venjulegt nám í íslensku móðurmáli.``
    Með orðalaginu ,,annað mál`` er ekki átt við það að íslenska sé erlent mál og kennd sem slík, heldur hitt að fræðslan þarf að miðast við það að íslenska er ekki fyrsta mál sem þau læra í bernsku af móður eða föður heldur mál sem er talað allt í kringum þau í umhverfinu þegar þau koma út af heimili sínu. Kennslan verður því að vera með einfaldari og nokkuð öðrum hætti en ella og prófin þurfa auðvitað að vera eftir því.
    ,,Ungmenni frá framandi málsvæðum þurfa sams konar fræðslu en mun lengur en aðrir. Þannig ber nauðsyn til að nýbúar geti tekið grunnskólapróf í íslensku sem öðru máli svo að þeir hafi möguleika á að komast áfram í skólakerfinu.
    Nauðsynlegt kennsluefni er: Einföld íslensk málfræði og stafsetning, reglur samdar með þarfir þessa tvískipta hóps í huga.`` --- Þ.e. hóps þeirra ungmenna sem koma frá nálægum málsvæðum og svo hinna sem koma frá málasvæðum sem það er algjörlega framandi að þurfa að hugsa um málfræði.
    ,,Einfalt efni í framangreindum kennslugreinum sem einnig gæti nýst fleiri nemendum, þ.e. þeim sem ættu við lesvanda að stríða,`` en eru af íslenskum uppruna, t.d. þeim sem eru það sem kallast lesblindir og orð sem enginn vill nota nú til dags, en ungmenni sem eiga mjög erfitt með að læra lestur af einhverjum ástæðum gætu hugsanlega nýtt sér svona kennsluefni og ég er viss um að það mundi verða þeim til framdráttar í náminu.
    Menntamálaráðuneytið hefur nú þegar gert allmikið átak í málum þessara ungmenna og í menntunarmálum nýbúa almennt en það verður að gera betur.
    Þetta sem við erum að tala um í þessari þáltill. hefur ekki komið upp á yfirborðið fyrr en núna síðasta árið og fólk hefur ekki gert sér grein fyrir þessu og við verðum að bregðast strax við þessu því hópurinn er að verða allt of stór sem núna stendur frammi fyrir þessum vanda og hann mun stækka bara núna á næstu mánuðum. Þess vegna er þessi tillaga fram borin hér. Ég læt þess getið að hæstv. menntmrh. sagði frá því í þinginu um daginn að búið væri að skipa nefnd sem ætti að endurskoða frá rótum málefni nýbúa. Hugsanlega kæmi þetta þar inn á borð en ég er hrædd um að sú nefnd þurfi að vinna mikið verk og verði hugsanlega of lengi að störfum til þess að það sé hægt að bíða eftir þessu. Það þarf að gera eitthvað í þessum málum núna alveg strax.
    Virðulegi forseti. Að umræðunni lokinni óska ég þess að málinu verði vísað til hv. menntmn.