Skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 14:26:22 (1890)

[14:26]
     Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir 240. þingmáli Alþingis sem er á þskj. 275. Það er þáltill. sem varðar veitingu ríkisborgararéttar. Flm. auk mín eru allar aðrar þingkonur Kvennalistans.
    Þáltill. gengur út á það að Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að setja reglur um að lágmarkskunnátta í íslensku sé fyrir hendi hjá umsækjendum um ríkisborgararétt þannig að annaðhvort sé lagt fram gilt vottorð um íslenskukunnáttu eða umsækjandi sýni fram á að hann hafi sótt nám í íslensku máli.
    Í öðru lagi að hinu opinbera sé skylt að sjá til þess að í boði sé nám í íslensku fyrir þá sem ætla sér að setjast hér að.
    Í þriðja lagi er þess getið að undanþiggja megi fólk sem vegna aldurs eða sjúkdóma sé ekki fært um að afla sér þessarar fræðslu.
    Það er alkunna að á undanförnum 13 árum hefur erlendum íbúum á Íslandi fjölgað afskaplega mikið og nú liggur fyrir þinginu m.a. tillaga um veitingu ríkisborgararéttar. Það er að vísu ekki margt fólk en við vitum að á Íslandi eru mjög margir erlendir menn sem hafa ekki enn þá fengið íslenskan ríkisborgararétt. Þeim sem hafa búið hér árum saman má skipta í tvennt. Þeir sem ætla að halda gamla ríkisborgararéttinum sínum eða þeir sem eru að bíða eftir að fá hinn íslenska. Aðfluttu fólki á Íslandi hefur fjölgað mjög, sérstaklega frá fjarlægum málsvæðum og það fólk sem kemur frá erlendum málsvæðum hefur yfirleitt önnur trúarbrögð og mjög ólíka siði og á kannski erfiðara með að skilja hugsunarhátt og venjur á Íslandi. Þess vegna er enn þá mikilsverðara að séð sé til þess að það fólki fái þær upplýsingar um stöðu sína á Íslandi sem nauðsynlegar eru og læri það mikið í íslenskri tungu að það geti lifað og starfað við eðlilegar aðstæður hér.
    Þessi þáltill. lýtur fyrst og fremst að einum þætti þeirra skilyrða sem fólk verður að uppfylla til að fá íslenskan ríkisborgararétt, þ.e. íslenskukunnáttu umsækjanda og skyldu hins opinbera til að veita fræðslu í íslenskri tungu og þar með þekkingu á íslensku samfélagi. Þeir sem búa langa ævi meðal þjóða sem þeir geta ekki átt orðastað við hljóta að finna til einsemdar og hjálparleysis. Það getur haft alvarlegar afleiðingar þegar tjáskiptagetan er svo léleg að fólk skilur ekki starfsfólk heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu eða löggjafans og einnig er einsemdin í hinu daglega lífi geigvænleg hjá slíku fólki.
    Í Noregi fá allir innflytjendur 240--700 stunda fræðslu. Flóttamenn eiga rétt á 500 stundum hið minnsta og geta sótt um 700 til viðbótar. Þeir innflytjendur sem eiga við lestrarörðugleika að etja eða eru ólæsir þegar þeir koma til landsins geta komist í tveggja ára nám í norsku og verklegum greinum. Það er svonefnt verkstæðisnám í Noregi.
    Það er líka til fólk sem kemur hingað til Íslands sem er mjög illa læst og jafnvel ólæst og við þurfum auðvitað að reyna að veita því þá fræðslu sem það þarf til að standa jafnfætis okkur hinum í þeim efnum og það er mikið verk sem fólkið stendur frammi fyrir þegar svo er. Í Svíþjóð er lágmarkstalan 600 stundir og hámark 1.600 og þar fær fólk námslaun meðan það er í náminu. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að við tökum mið af þessum stundum sem þeir eru með og við getum a.m.k. ekki boðið minna en það minnsta sem þeir bjóða og krafist minna en þess minnsta sem þeir kefjast, þ.e. 250 stunda.
    Ég hef ekki lesið upp greinargerðina alla en ég tel að þetta sé nægilegt. Að umræðu lokinni leyfi ég mér að leggja til að þessari þáltill. verði vísað til hv. allshn. og síðari umr.