Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 14:39:25 (1894)


[14:39]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Hinn 18. þessa mánaðar var kveðinn upp dómur í Hæstarétti í máli Hrannar hf. á Ísafirði gegn fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs. Upphaf málsins var það að fyrirtækið hafði í reikningum sínum fyrir árið 1989 dregið tæpar 60 millj. kr. sem það hafði keypt svokallaðar aflahlutdeildir fyrir á því ári frá sem rekstrarkostnað fyrirtækisins. Skattstjóri Vestfjarða taldi þetta óheimilt og að fyrirtækið ætti að eignfæra kvótann en mætti síðan afskrifa hann um 8% á ári. Ríkisskattanefnd var á öðru máli og taldi að fyrirtækið hefði farið rétt að í bókhaldi sínu.
    Héraðsdómur komst svo að þeirri niðurstöðu að kvótann skyldi færa sem eign en mætti afskrifa um 20% á ári. Dómur Hæstaréttar staðfesti niðurstöðu héraðsdóms og það verður ekki deilt við dómara Hæstaréttar.
    Hæstiréttur hefur kveðið upp þann dóm að keyptur kvóti skuli skilgreindur sem skattskyld eign og falla undir 73. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981.
    Frá því að lögin um stjórn fiskveiða voru sett fyrir forgöngu Framsfl. hafa verið uppi miklar deilur í þjóðfélaginu um eignarréttinn á þessari aðalauðlind okkar Íslendinga. Hið svokallaða frjálsa framsal sem opnaði möguleika á að kaupa og selja aðgang að auðlindinni færði kvótaeigendum raunverulegt ígildi eignaréttar á fiskinum í sjónum. Vegna þessara deilna var sett inn í lögin nýtt ákvæði árið 1987 sem hljóðar svona:
    ,,Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``
    Þrátt fyrir að þessi 1. gr. laganna væri alveg skýr, var hafður áfram óbreyttur réttur kvótaeigenda til að notfæra sér hið frjálsa framsal. Það hefur verið ljóst frá upphafi að þessi tvískinnungur hlyti að lokum að leiða annaðhvort til algers markleysis 1. gr. laganna eða þess að frjálsa framsalið yrði lagt af með breytingu á lögunum. Fylgjendur kvótakerfisins hafa fram á þennan dag haldið áfram að blekkja þjóðina með því að halda því fram að 1. gr. laga um þjóðareign á auðlindinni væri í fullu gildi þrátt fyrir rétt kvótaeigenda til að kaupa og selja veiðiheimildir. Þess vegna hafa deilur um þessi mál haldið áfram að magnast eftir því sem afleiðingar þessarar eignamyndunar hafa komið betur í ljós.
    Það er í raun fagnaðarefni að Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm sem ekki verður misskilinn. Það skal fara með keyptan kvóta með sama hætti og aðrar skattskyldar eignir. Þessi niðurstaða Hæstaréttar hlýtur að vera hv. alþm. mikið umhugsunarefni vegna þess að hún segir í einfaldleika sínum að verði lögunum um stjórn fiskveiða ekki breytt þá sé 1. gr. laganna um þjóðareign á auðlindinni markleysa. Sérkennilegt hefur verið að fylgjast með viðbrögðum ýmissa aðila sem málið varðar því að þau hafa verið með ýmsu móti. Lögfræðingur LÍÚ, Jónas Haraldsson, sagði t.d. um dóminn í viðtali við Ríkisútvarpið, með leyfi forseta:
    ,,Ég hef nú ekki skoðað hann frá orði til orðs en ef ég horfi á niðurstöðuna þá virkar þetta þannig á mig að þessi sjö manna dómur Hæstaréttar hafi komist að þeirri niðurstöðu að kvóti sé skattskyld eign útgerðarmanna. Það þýðir að þeir borga eðlilega af þessu skatta, eignarskatta, en það þýðir jafnframt sem mér finnst vera meginmálið að kvóti er ekki sameign þjóðarinnar. Samkvæmt þessum dómi er kvótinn eign útgerðarmanna, gjaldskyld eign sem þeir borga skatta af og þannig að mér finnst hæstaréttardómurinn ganga á skjön við 1. gr. kvótalaganna um að kvóti sé sameign þjóðarinnar. Þarna er komist að afdráttarlausri niðurstöðu um það að kvótinn sé séreign útgerðarmanna.``
    Yfirmaður hans, formaður LÍÚ, Kristján Ragnarsson, taldi að nú væri rétt að tala varlega. Hann sagði í viðtali við Stöð 2, með leyfi forseta:
    ,,Það er ekki okkar vilji að vera gert skylt að eignfæra þessar veiðiheimildir. Við vildum mega gjaldfæra þær á kaupári og þá hefði hvorki komið til þess að þetta væri eignfært eða að taka afstöðu til þess hvernig þetta væri fyrnt. Það er líka umdeilanlegt hvernig fyrndur er réttur til sóknar í auðlind eins og þá sem hér er um að ræða. Það er hins vegar gert vegna þess að þetta er kostnaður til öflunar tekna. Það gefur þeim útgerðum sem verða sér úti um þessar heimildir frekari tekjumöguleika og þess vegna heimilast að afskrifa þetta.``
    Fréttamaðurinn spyr hann þá: ,,Vegna þess að þessi kvóti skal nú afskrifaður og eignfærður í bókhaldi útgerðarfyrirtækja má þá ekki draga þá ályktun að kvótinn sé sannanlega eign útgerðarmanna?`` Og Kristján svarar: ,,Ég held að það verði að líta svo á miðað við þessa niðurstöðu en hér er þó eingöngu um að ræða þennan hluta aflaheimildanna.``
    Hæstv. sjútvrh. sagði í viðtali við Ríkisútvarpið, með leyfi forseta: ,,Þessi dómur breytir í engu þeim réttindum sem kveðið er á um í lögunum og útgerðarmenn hafa ekki öðlast nein ný réttindi með þessum dómi. Þeir einfaldlega töpuðu skattamáli.`` Og hæstv. utanrrh. sagði: ,,Nei, það er rangur skilningur. Nú er það svo að jafnvel þótt til skattlagningar komi sem ég tel eðlilegt í skilningi skattalaga, þá er ekki þar með sagt að verið sé að viðurkenna eignarrétt því að við eigum í mörgum tilvikum réttindi, söluhæf réttindi. Dæmi: Lóðaréttindi sem við borgum af þó annar eigi. Það er í raun og veru afnotaréttur. En kjarni málsins frá mínum bæjardyrum séð er þessi: Ég tel algerlega óeðlilegt að þessir kvótar, þessar aflaheimildir hinar varanlegu séu fyrnanlegar eða afskrifanlegar.`` Og hæstv. sjútvrh.: ,,Ég er ósammála meiri hluta Hæstaréttar að þessu leyti. Ég er á sama máli og minni hlutinn. Ég tel að þetta sé endurnýjanleg auðlind og þess vegna eigi ekki að afskrifa þessi réttindi. Það þýðir að vissu leyti að útgerðarmenn þurfa að borga meiri skatt, en tel þetta vera rökrétta niðurstöðu og eðlilegri niðurstöðu. Hún er líka í samræmi við tillögu tvíhöfða nefndarinnar sem gerir að vísu ráð fyrir ákveðinni aðlögun að því en eftir 1996 eigi þetta að vera óafskrifanlegt.``
    Þarna koma sem sagt hæstv. ráðherrar röflandi um ranga dóma Hæstaréttar eins og áhorfendur á knattspyrnuleik sem alltaf vita betur en dómarinn. Þarna voru þeir á ferðinni félagarnir samstiga eins og

venjulega með sömu eða sams konar blekkingar og forsvarsmenn þessa glæpsamlega kerfis hafa stundað frá upphafi. Ég segi glæpsamlega kerfis vegna þess að frá upphafi hefur verið með blekkingum stefnt að því að festa í sessi eignarhald kvótaeiganda á fiskinum í sjónum og með framkvæmd laganna kerfisbundið stefnt að því að gera 1. gr. laganna um þjóðareign á auðlindinni marklausa.
    Hæstv. forseti. Ígildi eignarhalds sem hið frjálsa framsal færir kvótaeigendum hefur haft margvíslegar afleiðingar þann tíma sem það hefur verið í gildi. Það hefur breytt öllu verðmætamati í útgerð, skip hafa verið í lágu verði en kvóti aftur á móti mjög hátt metinn. Verð á aflaheimildum, langtímakvóti, hefur í raun og veru verið jaðarverð vegna mikillar eftirspurnar. Lánastofnanir fóru fljótlega að meta lánshæfni fyrirtækja eftir kvóta. Þar eru á ferðinni mikil mistök því að fjölmörg fyrirtæki, bæði stór og smá, hafa fengið að safna skuldum í bankakerfinu með stöðugum hallarekstri út á það eitt að geta sýnt fram á að ef viðkomandi fyrirtæki hætti rekstri og seldi aflaheimildir sínar á markaðsverði, gæti það greitt skuldir sínar. En þetta er nú að enda með ósköpum. Og það lýsir sér best í því í hvers konar ógöngur þetta er komið að það er ekki mögulegt að stofna til nýrrar útgerðar með kaupum á skipi og kvótum nema einhver t.d. bæjarsjóður í viðkomandi sveitarfélagi sé viðbúinn að leggja fram 40--50% af verðinu og sætti sig við að fá engan arð af þeim fjármunum og fá fjármunina heldur aldrei til baka.
    En nú berast fregnir af því að Landsbankinn ætli að fara að breyta skuldum sjávarútvegsfyrirtækja í hlutafé. Sé það rétt verður ekki langt í að hann verði stærsti kvótaeigandinn í landinu. Það er ríkisútgerð í stærri stíl en menn hefur nokkru sinni órað fyrir, en í sjálfu sér er það ekki undarlegt að forráðamenn bankans skuli reyna þessa leið þegar afleiðingar þeirra hörmulegu mistaka stjórnenda bankans að láta gangverð aflaheimilda en ekki rekstrargrundvöll fyrirtækjanna ráða fyrirgreiðslu sinni eru að hvolfast yfir bankann.
    En það er fleira sem þetta ígildi eignarréttar hefur í för með sér. Kvótaeigendur eru í stórum stíl farnir að notfæra sér aðstöðu sína til að þvinga fram lægra fiskverð. Það er þessi svokallaða ,,tonn-á-móti-tonni``-aðferð sem er mest tíðkuð. Annað höfuð úr tvíhöfða nefndinni, hv. 5. þm. Norðurl. v., sagði í Dagblaðinu fyrir nokkrum dögum að allir högnuðust á þessum viðskiptum, tonni á móti tonni, bara allir. Það var aldeilis spakleg niðurstaða og að vekur upp spurninguna: Hvaðan kom sá gróði? Eins og við höfum séð þetta gerast, t.d. á Snæfellsnesi og Akranesi, þá er augljóst að það getur ekki verið um neinn sparnað ræða því að fiskinum er ekið þvert og endilangt um landið jafnvel 100 km til vinnslu annars staðar. En við vitum hvers vegna þetta er hægt. Við vitum að það græða ekki allir á þessu. Það eru bara spekingarnir sem ekki vita að það er hægt vegna þess að sjómennirnir og kvótalitlu útgerðirnar í landinu borga brúsann, eða vita spekingar kannski betur? Líklega vita þeir að kvótaeigandinn fær helmingi meiri fisk fyrir 20--30% lægra verð en gengur í öðrum viðskiptum. Og líklega vita þeir líka að þessi 20--30% gera gæfumuninn og duga til þess að standa algerlega undir fjármögnun og kaupum á enn meiri veiðiheimildum til þeirra sem nú þegar eru í þessari aðstöðu. Það er af skiptaverði sjómanna og aflahlut þeirra útgerða sem eru í ánauðinni sem kvótaeigendur fjármagna meiri og meiri kvótaeign sína og flutning aflans frá öðrum byggðarlögum til sín. Og svo skelfilegar eru afleiðingar þessa glæpsamlega kerfis að helmingur eða meir af öllum fiski sem veiðist á Snæfellsnesi er fiskaður í ánauðarsamningum og fluttur í fjarlæg byggðarlög til vinnslu. Vörubílar streyma yfir fjöll og firnindi með fisk, allt er þetta á kostnað sjómanna og útgerðarmanna sem neyðast til þess að gera sig ánauðuga, játast undir vistarband stórútvegsbónda fyrir norðan eða sunnan. Og byggðarlögunum sem ekki hafa stórútvegsbónda sem kann á vistarbandið er að blæða út. Fiskvinnsluhúsin standa tóm og fólkið missir vinnuna. Þorpin og bæirnir sem byggðust upp vegna nálægðar við gjöful fiskimið eru allt í einu orðin til einskis nýt nema til að beita línu og setja upp net fyrir útgerðarmennina sem enn þá tóra svo að þeir geti róið eina vertíð enn fyrir stórútvegsbóndann upp á hálfan hlut.
    En það eru fleiri aðferðir sem eignarréttarígildið gefur kvótaeigendum færi á að nota. Ýmsar útgerðir draga kvótakaup frá aflahlut sjómanna. Það virðist ólöglegt en ýmsir sjómenn hafa mátt þola það að verða að svara því hvort þeir vildu heldur fara í land eða taka þátt í kvótakaupunum. Og svo eru til útgerðir sem fá úthlutað sínum kvóta en láta aðra fiska fyrir sig á þessu lága verði sem kvótalausir bátar verða að sætta sig við og selja síðan fiskinn á markaðinum. Og þeir hirða allan muninn án þess að kosta nokkru til. Þessi aðferð er algjörlega lögleg.
    Hraði þessarar þróunar hefur verið að aukast meir og meir. Fleiri stórútgerðir nota sér þær aðferðir sem ég hef verið að lýsa hér. Fiskmarkaðarnir sem hafa bjargað miklu á sumum stöðum eru nú á hröðu undanhaldi vegna þess að fleiri og fleiri bátaútgerðir hafa neyðst til þess að ganga inn á vistarbandssamninga hjá kvótaeigendum. Það virðist orðið augljóst hvert stefnir. Veiðirétturinn er að öðlast sjálfstætt gildi. Þeir sem eiga hann krefjast þess endurgjalds sem markaðsaðstæður gefa möguleika á á hverjum tíma. Dómur Hæstaréttar mun flýta þessari þróun enn meir. Þeir sem hafa keypt aflakvóta munu geta sagt með sanni: Við höfum keypt verðmæti sem ríkið skattleggur, sem er okkar eign. Við einir höfum rétt til arðsins sem markaðurinn gefur kost á og hljótum að láta viðkomandi útgerð borga hann, hvort sem við eigum útgerðina sjálfir eða leigjum réttindi til annarra. Í ljósi þess verðs sem hefur verið á aflaheimildum á þorski t.d. er augljóst að svo miklir hagsmunir eru í húfi að allur kvótarétturinn mun fljótlega tekinn út fyrir sviga með þessum hætti. Eða halda menn að kvótaleiga eins og hefur tíðkast núna í haust, t.d. upp á 42 kr. í þorski, freisti ekki útgerðarmanna þegar þeim nánast er bent á aðferðina við að draga þessa fjármuni beint frá skiptaverði sjómanna.
    Mér er kunnugt um að útgerðarmenn hafa sagt við forráðamenn sjómannasamtakanna: Ef þið stöðvið ekki þessa vitleysu, þá neyðumst við til þess að gera þetta líka. Við getum ekki keppt við aðrar útgerðir sem gera út á 30--40% lægri skiptaverðum. Það eru gífurlegar hættur fólgnar í þessu ígildi eignarréttar á veiðiheimildunum. Það hljóta allir að sjá að verði þetta áfram við lýði munu engar fiskvinnslustöðvar verða samkeppnisfærar nema þær geti eignast kvóta og notað hann til að þvinga niður fiskverðið. Og hvað með þá sem eru þá í beinum útflutningi á ferskum fiski eða lítið unnum? Þeir eru oft og tíðum í beinni samkeppni við þessi kvótasterku fyrirtæki. Munu þessir aðilar ekki telja sig tilneydda að komast yfir kvóta líka í sama tilgangi og munu ekki milliliðir þeirra hér sjá til þess að það gangi upp? Þá verður fiskurinn fluttur úr landi á vistarbandsverðinu og hvert skyldi þá renna arðurinn af auðlindinni? Og hver ætti auðlindina í raun og veru ef svo fer?
    Sumum finnst þetta kannski svartsýnisraus en allt sem ég hef verið að segja hér á undan hefur gerst nú þegar og ég sé ekki betur en þessi hætta sem ég var að tala um hér áðan um útflutning á ferskum eða lítið unnum fiski blasi við ef ekkert verður að gert.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að koma að hlut hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga voru sjávarútvegsmálin mikið til umræðu og þungamiðjan í þeirri umræðu var eignarrétturinn á fiskinum í sjónum og afleiðingar af þessu óréttláta og spillta kerfi sem helst er hægt að líkja við skipulagða glæpastarfsemi sem fær að þróast í skjóli ríkisvalds í einræðisríkjum. Eða við hvað er hægt að líkja stjórnkerfi sem leggur byggðarlögin í rúst, sem hafa verið byggð upp vegna nálægðar við fiskimiðin vegna þess að veiðirétturinn er kominn í hendur annarra en þeirra sem stunda útgerð á viðkomandi svæðum, stjórnkerfi sem gerir útgerðarmenn og sjómenn að ánauðugum hjúum hjá stórútvegsbóndanum, stjórnkerfi sem veldur því að allur fiskurinn er fluttur til vinnslu í önnur landshorn úr sumum byggðarlögum, kerfi sem veldur því að bæjar- og sveitarfélög eru að moka fjármunum í kaup á veiðiheimildum til að reyna að koma í veg fyrir að atvinnulífið og þar með lífsgrundvöllur íbúanna verði lagður í rúst. Það er heldur betur reisn yfir Alþingi Íslendinga sem hefur lögleitt kerfi sem bannar sjómönnum sem hafa ævilangt starf að baki að róa til fiskjar, en gefur milliliðum og bröskurum frjálsar hendur til að arðræna sjómennina og útgerðarmönnum færi á að hirða án samninga 30--40% af skiptahlut sjómannanna.
    Þetta kerfi sem hv. Alþingi hefur lögleitt var, hæstv. forseti, til umræðu fyrir síðustu kosningar og eftir þær kosningar kom að völdum hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem er dyggilega studd af hæstv. umhvrh. Sú hæstv. ríkisstjórn gaf út hvíta bók. Í þeirri bók er sérstakt ákvæði um það að ríkisstjórnin ætli að tryggja stjórnskipulega stöðu sameignarákvæðis laga um stjórn fiskveiða. Þarna er verið að tala um ákvæði í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða sem fjallar um það að þjóðin eigi fiskinn í sjónum. Þessi yfirlýsing er eins skýr og hugsast getur og verður ekki á neinn hátt misskilin. Hún fjallar um eignarréttinn á auðlindinni, þennan sama eignarrétt og Hæstiréttur var að fjalla um. Það er afdráttarlaust loforð hæstv. ríkisstjórnar til íslensku þjóðarinnar um það að þessu ófremdarástandi sem framkvæmd laganna um stjórn fiskveiða hefur leitt af sér verði aflétt.
    En hver hefur svo verið framkvæmd hæstv. ríkisstjórnar á loforði sínu? Jú, eitt af fyrstu verkefnum hæstv. sjútvrh. var að skipa nefnd til að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Það sem var sérkennilegt í meira lagi við stofnun þessarar nefndar var að í henni voru einungis menn frá stjórnarflokkunum og flestir hverjir voru þeir í beinum tengslum við stórútgerðina í landinu. Þessu var auðvitað mótmælt hástöfum af stjórnarandstöðunni og með þessu voru lögin um stjórn fiskveiða þar sem kveðið er á um samráð við sjútvn. Alþingis brotin. Það hefur svo auðvitað komið í ljós að þarna var ekki skynsamlega að verki staðið. Tillögur þessarar nefndar urðu eins og til var stofnað að mestu leyti settar fram í þágu ríkjandi afla í stórútgerðinni sem hafa ráðið ferðinni í meðferð þessara mála allt frá því að kvótakerfinu var komið á sínum tíma. En eftir langar og erfiðar fæðingarhríðir skilaði tvíhöfða nefndin loks af sér tillögum um að hvert framtíðarfyrirkomulag fiskveiða ætti að vera. Og viti menn. Fyrsta og aðaltillaga nefndarinnar var að festa aflamarkskerfið í sessi og auka og rýmka framsalsmöguleika kvótaeigendanna. Þessi tillaga gengur í raun og veru þvert á yfirlýsingar stjórnarflokkanna í hvítu bókinni því að þetta þýðir á mannamáli að kvótinn skuli fá að ganga kaupum og sölum sem frjálsast og mönnum verði gefnar enn frjálsari hendur til að braska með veiðiheimildirnar. Hæstv. sjútvrh. lagði strax blessun sína yfir þennan skuggabaldur sem nefndin hafði getið af sér og sendi formenn nefndarinnar í einhvern neyðarlegasta og árangursminnsta leiðangur um landið sem hefur verið farinn síðan Eiríkur á Brúnum reyndi að kenna Íslendingum að mormónatrú væri sú eina rétta trú. Formaður tvíhöfða nefndarinnar ( ÓÞÞ: Hver var formaðurinn?) Formenn tvíhöfða nefndarinnar voru tveir, hv. þm., og voru hvarvetna flengdir með skræðunni og það eitt hefði nú átt að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstjórn. En því var nú ekki að heilsa.
    Hæstv. sjútvrh. lagði af stað í hestakaup við hæstv. utanrrh. sem enduðu í aðalatriðum með því að þeir skrifuðu upp á tillögu tvíhöfða nefndarinnar. Þetta var aumlegasta uppgjöf og kúvending sem hefur sést hjá þessari hæstv. ríkisstjórn og hafa þó ráðherrar margt étið þar öfugt ofan í sig. Þetta mál er þó alvarlegra en öll önnur ef svona fer því að hér er á ferðinni meðferð löggjafans um framtíðarstöðu undirstöðuauðlindar okkar Íslendinga. En sem betur fer strandaði þetta mál í stjórnarflokkunum. Það var nefnilega ekki fyrir hendi nægur stuðningur við málið í þingliði þeirra. Og það vantaði upp á í báðum stjórnarflokkunum þrátt fyrir hrossakaupin.

    Hæstv. sjútvrh. kaus að halda því fram undir lok síðasta þings þegar hann var að gefast upp við að tryggja það að málið kæmist áfram að aðalástæðan væri andstaða hv. 17. þm. Reykv., hæstv. núv. umhvrh., við það hvernig málefni smábáta væru meðhöndluð í tillögunni. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir alþýðuflokksmenn að forusta flokksins skuli hafa gert hrossakaup sem fólu það í sér að festa í sessi það ígildi eignarréttar á fiskinum í sjónum sem aflamarkskerfið með frjálsu framsali er.
    Ég veit að í Alþfl. eru fjölmargir sem eru mjög ósáttir við hvernig hefur verið haldið á þessum málum og urðu því fegnastir að ekki tókst að ljúka afgreiðslu þess á sl. vori, ekki síst vegna þess að þeir vildu ekki una því að raunverulegur eignarréttur þjóðarinnar á þessari aðalauðlind hennar rynni úr hendi hennar yfir til fyrirtækja og einstaklinga og safnaðist þar á fáar hendur.
    Það er aðkallandi að farsæl lausn finnist á málefnum smábátaútgerðarinnar en það er mjög mikilvægt að allir geri sér ljóst hvað það er sem stendur í vegi fyrir lausn þess máls, en það er einmitt sú staðreynd að eignarhald veiðiréttareigenda á veiðiheimildum er farið að þvælast fyrir þjóðinni. Þeir sem styðja kvótakerfið halda því fram að það sem smábátarnir veiði sé tekið frá hinum, hinum einu og sönnu eigendum veiðiréttarins og þess vegna verði að skerða veiðimöguleika þeirra mjög verulega. Næðu þær tillögur fram að ganga mundi þessi atvinnuvegur hrynja saman til óbætanlegs tjóns fyrir þjóðina og mörg byggðarlög á landsbyggðinni biðu þess aldrei bætur. Þannig stöndum við á tímum atvinnuleysis í ömurlegri umræðu um að draga úr þeirri nýtingu fiskimiðanna sem gefur okkur mestan arð.
    En þó að málefni smábátaútgerðarinnar séu mikilvæg þá var þó önnur ríkari ástæða fyrir uppgjöf hæstv. sjútvrh. á síðasta vori í þessu máli. Ástæðan var miklu frekar sú að í Sjálfstfl. eru margir þingmenn sem hafa miklar athugasemdir við það að braskað skuli með rétt manna til þess að sækja sjó, að atvinnuréttindi manna gangi kaupum og sölum og aflinn sem veiðist í hinum ýmsu verstöðvum í heilu landshlutunum skuli fluttur um þvert og endilangt landið til vinnslu og fólkið þar með skilið eftir atvinnulaust. Að þjóðin sé í raun að glata yfirráðum yfir auðlindinni sem er undirstaða búsetu í landinu. Og að sjómenn og kvótalitlir útgerðarmenn skuli hnepptir í vistarband stórútvegsbænda og braskara. Hæstv. sjútvrh. hefur ekki tekist að fá stuðning við málið, hann er gjörsamlega strandaður og heldur samt róðrinum áfram. Það er mjög alvarlegt mál vegna þess að ef hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn sýndu þann mannsbrag af sér að viðurkenna að hafa gert mistök í þessu máli í heild þá væri kannski mögulegt að fara að leita annarra leiða. Forða þjóðinni frá meiri skaða og hv. Alþingi frá enn meiri skömm heldur en orðið er.
    Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er tilgangslaust að þrátta um þá niðurstöðu Hæstaréttar að fara skuli með aflaheimildir eins og aðrar eignir við álagningu skatta. Þessi dómur mun að öðru óbreyttu herða á þeirri óheillaþróun sem sala veiðiheimilda hefur haft í för með sér og ég lýsti fyrr í ræðu minni. Það er þessi virðulega stofnun, hv. Alþingi, sem ber alla ábyrgð á því að svona er komið málefnum sem varða þessa aðalauðlind landsins. Sú spurning hefur oft vaknað í huga mínum hvað þurfi eiginlega til að vekja hv. alþm. til vitundar hvað er að gerast. Verður dómur Hæstaréttar til þess --- og nú spyr ég --- verður dómur Hæstaréttar til þess, eða munu menn kannski ekki rumska hér á hv. Alþingi fyrr en sjómennirnir á fiskiskipaflotanum vekja þá með þeim blauta sjóvettlingi sem allsherjarverkfall á fiskiskipaflotanum er? Já, virðulegur forseti, svo alvarlega stefnir þetta mál að sjómannasamtökin telja sig knúin til alvarlegra aðgerða á næstu vikum. Stjórnvöld landsins hafa kosið að stinga höfðinu í sandinn og hlusta ekki á margítrekuð aðvörunarorð sjómannasamtakanna. Aðvörunarorð sjómanna beinast alfarið að afleiðingum af eignarhaldinu á veiðiheimildunum. Þeir hafa, eins og ég hef lýst hér fyrr, orðið fyrir margvíslegu ranglæti vegna þeirra viðskiptahátta sem viðgangast í skjóli kvótalaganna. Sjómenn hafa smám saman, eftir því sem hið spillta viðskiptakerfi hefur orðið sýnilegra, verið að gera sér betur og betur ljóst að innan fárra ára munu allar veiðiheimildir vera komnar út fyrir sviga með þeim hætti að kvótaeigendur munu krefjast þess verðs sem fæst fyrir veiðiheimildirnar á markaðinum og það verður dregið frá fiskverðinu áður en til skiptanna kemur. Þetta þýðir að skiptaverð lækkar um 25--35% miðað við veiðiheimildir í þorski undanfarin ár. Sjómenn, eins og margir aðrir í þjóðfélaginu, trúðu þeim áróðri sem rekinn hefur verið frá fyrstu dögum kvótakerfisins, að kaup og sala á veiðiheimildum væru forsendur fyrir því að hagkvæmni næðist í útgerðinni. Útgerðarmenn mundu kaupa til sín varanlegar aflaheimildir þannig að verkefni yrðu næg fyrir viðkomandi útgerð.
    En er það þetta sem við sjáum í dag? Nei, ekki aldeilis. Það eru nánast eingöngu þeir sem þegar eiga allt of miklar veiðiheimildir sem eru að kaupa meira og geta keypt til sín meiri veiðiréttindi, vegna þess að þeir geta notfært sér neyð hinna og látið þá róa hjá sér upp á hálfan hlut. Þannig eru upphaflegar hagræðingarforsendur kerfisins ekki lengur fyrir hendi. En fylgjendur kerfisins hafa fundið nýjar. Það er ,,tonn- á-móti-tonni``-aðferðin sem hv. 5. þm. Norðurl. v. segir að allir græði á. Hann gleymdi bara að segja frá því á hverju gróðinn byggðist. Hann byggist á því að láta sjómennina borga auðlindaskatt til kvótaeigendanna.
    Sjómenn eru seinþreyttir til vandræða en þegar þeir beita afli sínu og samtakamætti þá neyðast menn til að taka tillit til þeirra. Sjómannasamtökin gáfu eftirfarandi yfirlýsingu í apríl á þessu ári, eftir að sú stefna stjórnvalda varð ljós að festa ætti aflamarkskerfið í sessi. Með leyfi forseta vil ég lesa upp sameiginlega yfirlýsingu frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands og Sjómannasambandi Íslands:
    ,,Framangreind hagsmunasamtök sjómanna lýsa yfir fullri andstöðu við framsali á veiðiheimildum`` --- fullri andstöðu við framsali á veiðiheimildum --- ,,þ.e. sölu á óveiddum fiski innan gildandi kerfis um stjórn fiskveiða. Reynsla síðustu ára hefur leitt til aukinnar andstöðu samtaka sjómanna gagnvart óheftu framsali veiðiheimilda og nú er svo komið að mælirinn er fullur. Sjómannasamtökin telja að nú sé komið að vendipunkti í þessu máli. Frjálst framsal veiðiheimilda hefur skapað fleiri vandamál en það hefur leyst, kjarasamningum fiskimanna sem byggðir eru í höfuðatriðum á hlutaskiptum er ógnað vegna þess að fiskimenn eru nauðugir látnir taka þátt í kaupum á óveiddum fiski. Óheft framsal veiðiheimilda hefur búið til nýja stétt sjómanna og útgerðarmanna sem eru ofurseldir kjörum leiguliðans þar sem þeim er skammtaður aðgangur að fiskimiðunum af þeim sem veiðiréttinn hafa.
    Þessari óheillaþróun verður ekki snúið við nema með algjörri höfnun á sölu á óveiddum fiski. Sjómannasamtökin telja það ekki þjóna tilgangi að fjalla um aðra þætti í tillögum þeirrar nefndar sem fjallar um mótun sjávarútvegsstefnu nema að fyrir liggi að öll viðskipti með veiðiheimildir verði bannaðar.``
    Hver voru svo viðbrögð stjórnvalda við þessari yfirlýsingu? Þau voru engin. Nákvæmlega engin. Stjórnarflokkarnir fóru sínu fram og héldu áfram að togast á um veiðirétt smábáta og um Hagræðingarsjóðinn en þeir hlustuðu ekki á sjómannasamtökin í landinu frekar en vindinn.
    Virðulegur forseti. Að mati hagspekinganna sem hæstv. ríkisstjórn tekur mest mark á þá grundvallaðist kvótakerfið á því að farið verði með veiðiheimildirnar sem eign. Dómur Hæstaréttar skar úr í deilumáli. Eftir hann velkist enginn í vafa um að það fyrirkomulag sem nú er á eignarrétti á kvótanum er fullkomið ígildi eignarréttar.
    Hæstv. forseti. Hæstv. ríkisstjórn heldur þessum málum öllum í sjálfheldu og það stefnir í neyðarástand. Ef það væri einhver mannsbragur á hæstv. ráðherrum þá ættu þeir fyrir löngu að hafa viðurkennt að stefna þeirra gengur ekki og eini möguleikinn til að leysa þessi mál með viðunandi hætti er sá að á Alþingi verði leitað samstöðu meðal þingmanna úr öllum flokkum um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem stöðva kvótabraskið og færa þjóðinni í hendur raunverulegt eignarhald á fiskinum í sjónum.