Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 15:09:52 (1895)


[15:09]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Þetta er nokkuð kyndug umræða utan dagskrár. Ef ég tók rétt eftir var borin fram ósk um að umræða færi fram utan dagskrár um tiltekinn dóm Hæstaréttar sem féll um ágreining sem lýtur að skattalögum. Nú hefur hv. 3. þm. Vesturl. látið dæluna ganga úr önuglyndisbrunni sínum í hálftíma án þess að gera nokkra grein fyrir því brýna málefni sem eitt getur verið ástæða til umræðu utan dagskrár eða bera fram fyrirspurnir eða gera á nokkurn hátt grein fyrir þeim málstað sínum sem réttlætir umræðu utan dagskrár því slíkar umræður eru mjög skýrt afmarkaðar í þingsköpum. Ekkert slíkt hefur komið fram í máli hv. þm. og greinilegt að farið hefur verið af stað með þessa umræðu annaðhvort í fullkomnu tilgangsleysi, skilningsleysi á þingsköpum, eða með eitthvað annað markmið í huga en að ræða það sem óskað var umræðu um.
    En vegna þess að óskað var eftir umræðu um tiltekinn dóm Hæstaréttar þykir mér rétt að víkja örfáum orðum að þeim dómi. Það mál heyrir að vísu undir fjmrh. en ekki sjútvrh., það var ágreiningur um meðferð og framkvæmd á skattalögum. En kjarni málsins er sá að þar var um að ræða ágreining um það hvernig ætti að fara með aðkeyptar aflaheimildir að því er varðar fyrningu og niðurstaða málsins var sú að útgerðarmenn töpuðu þessum dómi. Dómkröfum þeirra var hrundið. Nú geta menn í sjálfu sér haft ýmsar skoðanir á því hvað sé eðlileg skattaleg meðferð í þessu efni og satt best að segja hef ég nokkuð önnur sjónarmið persónulega en niðurstaða dómsins mælir fyrir um. Ekki er ég þar með að halda því fram að dómurinn sé rangur heldur hef ég önnur viðhorf að því er þetta varðar og reyndar koma þau viðhorf fram í áliti minni hluta dómsins þar sem vikið er að því að hér sé um að ræða atriði þar sem verið er að fjalla um endurnýjanlega auðlind sem ekki er forgengileg, a.m.k. ekki meðan við höldum uppi sæmilega markvissri fiskveiðistjórnun, og þess vegna séu rök fyrir því að aflaheimildir sem þannig eru keyptar eigi ekki að afskrifast.
    Í skýrslu tvíhöfða nefndarinnar er nokkuð fjallað um þessi efni og vikið að ýmsum sjónarmiðum sem uppi eru, annars vegar þessu sjónarmiði sem ég hef hér nefnt og svo hins vegar því að eðlilegra sé að tengja þetta við þær reglur sem gilda um afskriftir á skipum með því að aflaheimildirnar eru bundnar þeim. En niðurstaða nefndarinnar er mjög skýr um þetta efni og er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Niðurstaða nefndarinnar er sú í ljósi framansagðs að leggja til að óheimilt verði að fyrna kaupverð varanlegra aflahlutdeilda sem eigendaskipti verða að frá og með upphafi fiskveiðiársins sem hefst 1. sept. 1996. Fram til þess tíma verði farið með þessi viðskipti í samræmi við fyrrgreind sjónarmið ríkisskattstjóra og lögum breytt til að taka af tvímæli um þessi atriði.``
    Rökstuðningurinn fyrir því að veita þá aðlögun sem nefndin leggur til er fyrst og fremst sá að hér eru miklir fjárhagslegir hagsmunir að baki og það gæti raskað mjög fjárhagsstöðu sjávarútvegsfyrirtækja og útgerðarfyrirtækja í landinu ef þessari reglu yrði breytt fyrirvaralaust.
    Það er svo mjög fróðlegt að hlusta á hv. 3. þm. Vesturl. fara með sína hefðbundnu önuglyndisræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið, einkanlega að því er varðar spurninguna um eignina á fiskimiðunum. Þegar núgildandi lög voru samþykkt fór fram um þetta talsverð umræða á hinu háa Alþingi. Fyrir sjútvn. efri deildar Alþingis var lögð lögfræðileg greinargerð þeirra Sigurðar Líndals prófessors og Tryggva Gunnarssonar lögfræðings sem fjallar á mjög athyglisverðan hátt einmitt um þetta atriði og þá spurningu hvort ákvæði frv. um að úthluta aflahlutdeild á einstök skip stangist á við 1. gr. frv. um almenna þjóðareign á auðlindunum. Í niðurstöðu þessarar greinargerðar segir svo:
    ,,Eins og áður er lýst er viðurkennt að atvinnuréttindi almennt njóti verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar og geti menn sýnt fram á að slík réttindi séu þegar fyrir hendi til fiskveiða hagga fyrirvarar í 1. gr. frv. ekki við þeim rétti.``
    Hér er með öðrum orðum vikið að því að stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi kunni að hafa verið fyrir hendi áður en lögin voru samþykkt. Síðan segir í áliti lögfræðinganna:
    ,,Niðurstaðan verður því sú að með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir og með þeim viðbótum sem nefndar eru hér að framan, sé að vísu ekki verið að mynda einstaklingsbundna og stjórnarskrárvarða eign á veiðiheimildum en á hinn bóginn verið að afmarka og skilgreina nánar eignarréttindi í formi atvinnuréttinda sem hugsanlega eru fyrir hendi og leggja jafnframt grundvöll að slíkum réttindum um ókomna tíð.``
    Með öðrum orðum, hér var dregin upp í lögfræðilegu áliti, í meðferð frv. á hinu háa Alþingi, mjög nákvæm og góð skilgreining á þeim eignarréttarlegu vandamálum eða viðfangsefnum sem rétt er að fjalla um í þessu samhengi. Hv. alþm. vissu nákvæmlega um hvað málið snerist, höfðu allar upplýsingar í höndum og hafa væntanlega tekið ákvarðanir á þeim grundvelli. Sá dómur sem nú hefur gengið um framkvæmd á skattalögum kemur því þessum fiskveiðistjórnunarlögum ekkert við. Hann segir nákvæmlega ekkert nýtt í þeim efnum. Hann túlkar ekkert nýtt varðandi fiskveiðistjórnunarlögin. Allar þær upplýsingar lágu hér fyrir hinu háa Alþingi áður. ( Gripið fram í: Hann festir þróunina.)
    Það er líka athyglivert að hlusta á hv. 3. þm. Vesturl., einn af helstu forustumönnum Alþb. í dag, lýsa því yfir að fiskveiðistjórnunarlögin hafi verið sett fyrir sérstaka forgöngu Framsfl. Nú ætla ég ekki að draga úr því að vissulega átti Framsfl. sjútvrh. þegar þessi lög voru sett, bæði þegar fyrsta tilraun var gerð með aflamark og eins þegar núgildandi lög voru sett. En það vill svo til að á þessum tíu árum sem liðin eru frá því að fyrstu lögin voru sett hafa allir flokkar sem sæti eiga á Alþingi nema Kvennalistinn átt aðild að ríkisstjórnum sem greitt hafa atkvæði með þessum lögum. Þó ég ætli ekki að gera lítið úr hlut Framsfl. í þessu efni eða minna en efni standa til þá liggur ábyrgðin býsna víða í þinginu og hjá stjórnmálaflokkunum í landinu. Ekki síst Alþb. því að þingmenn þess greiddu atkvæði heldur betur með þeim lögum á vorþinginu 1990. Ég man ekki betur en að hér hafi komið upp þau sjónarmið á vorþinginu að það kynni að vera ástæða til að taka heldur meiri tíma en ætlað var til að ræða þetta viðamikla mál. En hverjir höfðu forgöngu um það að kveða allar slíkar raddir niður? Það voru forustumenn Alþb. sem voru svo vissir í sinni sök að ekkert væri betra og réttar og nauðsynlegra en að hespa af þessari afgreiðslu að það var gert á örfáum dögum í þinginu. Svo vissir voru þingmenn Alþb. í sinni sök að þeir höfnuðu kröfum um lengri tíma til umræðu um málið. Svo kemur hv. 3. þm. Vesturl. og talar eins og Alþb. hafi hvergi nærri komið og segir jafnvel að þessi lög séu skipulögð glæpastarfsemi. Það er heldur betur áburður sem þessi hv. þm. Alþb. ber á forustumenn Alþb., sem komu ekki svo lítið við sögu þessa máls á sínum tíma. Að þeir hafi staðið fyrir skipulagðri glæpastarfsemi. Það eru aldeilis skilaboð sem hv. þm. sendir inn á landsfund Alþb. um forustumenn flokksins. (Gripið fram í.) Ég hygg að það sé einsdæmi í þingsögunni að þingmaður þingflokks eins og Alþb. hafi kveðið upp slíkan dóm yfir forustumönnum sínum. Að þeir séu ábyrgðarmenn fyrir skipulagðri glæpastarfsemi. ( Gripið fram í: Þú hefur áhyggjur af þessu.) Þetta er einsdæmi að ég hygg í þingsögunni.
    Svo skulum við huga aðeins betur að framvindu mála. Ég man ekki betur en það hafi verið fluttar fréttir af því síðast þegar Alþb. hélt landsfund, eða miðstjórnarfund, ( Gripið fram í: Ertu ekki að tala um fund Hæstaréttar eða hvað?) ( Forseti: Ekki frammíköll.) að þá hafi farið fram nokkrar umræður um sjávarútvegsmálin. Og ég man ekki betur en þar hafi verið borin upp tillaga um að nú skyldi banna framsal á veiðiheimildum. Og hver var niðurstaða fundarins? Fundurinn treysti sér ekki til þess. Alþýðubandalagsmiðstjórnarfundur treysti sér ekki til að samþykkja þá tillögu. Ég held að henni hafi verið vísað til miðstjórnar eða út í hafsauga, ég man ekki hvort heldur var, einu gildir. En jafnvel Alþb., flokkur þess hv. þm. sem hér hellir úr skálum reiði sinnar út af framsalinu, treystir sér ekki í stjórnarandstöðu til þess að taka undir kröfur um það að banna framsal. Svo kemur hv. þm. með alla þessa vandlætingu og reynir að gera aðra tortryggilega og að einhverjum misindismönnum. Málflutningur af þessu tagi er auðvitað alls ekki boðlegur.
    Hugum svo aðeins að því að ef sú kenning væri rétt að þessi dómur upphefði 1. mgr. fiskveiðistjórnunarlaganna og gerði hana að engu. Hver væri þá aðstaðan? Í hvaða stöðu værum við þá varðandi fiskveiðistjórnunina? Það er viðurkennt og nákvæmlega skilgreint hvaða eignarréttarlega þýðingu núv. kerfi hefur. Það felur ekki í sér einstaklingsbundin eignarréttindi en það felur í sér takmörkuð eignarréttindi af því að atvinnuréttindin eru stjórnarskrárvarin með þeim hætti sem alkunna er. Við getum ef við erum sammála um að stjórna fiskveiðunum á þann veg að ákveða heildarafla, þá höfum við í aðalatriðum þrjár leiðir til að ná því marki. Í fyrsta lagi aflamarksaðferðina sem við höfum í dag, þar sem við deilum afla niður á einstök skip, hins vegar tvær aðferðir við sóknarstýringu. Sóknarstýringu með takmörkuðum fjölda

skipa og sóknarstýringu án takmörkunar á fjölda skipa. Ef við skoðum aðeins nánar sóknarstýringu með takmörkuðum fjölda skipa þá hefur hún út frá eignarréttarlegum sjónarmiðum nákvæmlega sömu afleiðingar og núverandi aflamarkskerfi. Rétturinn til að veiða er á höndum afmarkaðs, takmarkaðs fjölda aðila í þjóðfélaginu, sem mega að gera út ákveðinn fjölda af skipum. Þessum aðilum, hverjum fyrir sig, hefur verið fenginn réttur til þess að veiða og í honum eru fólgin fjárhagsleg verðmæti, sem geta gengið kaupum og sölum með skipunum. Nýir aðilar komast ekki inn í atvinnugreinina nema kaupa skip sem hafa þennan almenna rétt. Hér er því út frá þessum sjónarmiðum ekki um neinn eðlismun að ræða.
    Þriðja aðferðin er sóknarmark án takmörkunar á fjölda skipa. Þá getum við sagt sem svo að það séu litlar líkur á því að réttindin til að veiða taki einhver sérstök verðmæti því þá er öllum frjálst að veiða og veiðarnar eru einfaldlega stoppaðar þegar komið er upp að því heildarhámarki sem ákveðið hefur verið.
    Við þekkjum hins vegar afleiðingarnar af því þegar svona veiðistjórnunaraðferðum er beitt. Frægasta dæmið eru lúðuveiðar í Kyrrahafinu. Skipunum fjölgar auðvitað mjög ört og veiðidögunum fækkar. Það verður óðafjárfesting í nýjum skipum því hver og einn verður að auka afkastagetu sína til að ná einhverju úr stofninum. Reynslan af þessari stjórnun við lúðuveiðar í Kyrrahafinu varð sú að heildarveiðin fór fram á einum eða tveimur dögum. Ég hygg að allir geri sér grein fyrir því að slík veiðistjórnun hér mundi leiða ekki bara til slíkrar óðafjárfestingar sem þjóðin hefði ekki efni á heldur til slíks skipulagsleysis og hruns í atvinnugreininni og byggðum í landinu að enginn vildi taka á því ábyrgð. En í raun og veru stæðum við uppi með það að eiga engan annan kost til að stjórna veiðum við landið en þennan ef við ætlum að líta svo á að dómurinn hefði vikið 1. gr. laga um stjórn fiskveiða til hliðar.
    Þetta er kannski kjarni málsins sem menn þurfa að horfast í augu við ef þeir ætla að fylgja fram einhverri ábyrgri stefnu með hagsmuni þjóðarheildarinnar í huga við stjórn fiskveiðanna en standa ekki hér og ausa úr skálum reiði sinnar og óánægju án þess að hafa nokkrar hugmyndir fram að færa um það hvernig skynsamlegt er að standa að stjórn fiskveiða í landinu.