Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 15:34:57 (1897)


[15:34]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil halda mig við það tilefni sem varð til þessarar utandagskrárumræðu. En það er hvernig Hæstiréttur Íslands hefur nú fellt dóm um hvernig farið skuli með keyptan aflakvóta í skattauppgjöri fyrirtækja. Forsaga málsins var sú að útgerð Hrannar hf. á Ísafirði keypti aflakvóta, þ.e. langtímakvóta, fyrir tæplega 50 millj. kr. og útgerðin færði kaupin til gjalda að fullu á rekstrarreikningi á kaupári. Það er enginn ágreiningur um það í skattauppgjöri hvernig fara skuli með kaup skammtímakvóta eða leigukvóta innan eins árs. Þar eru slík kaup bókfærð á rekstrarreikningi eins og um væri að ræða kaup á rekstrarvöru og verða þá til þess að lækka tekjuskattsstofn samsvarandi og væntanlega um leið tekjuskatt viðkomandi fyrirtækis. Ágreiningur hafði staðið um hvernig ætti að fara með skattalegan frágang þegar útgerðarfyrirtæki kaupir langtímakvóta. Það sem útgerð Hrannar hafði gert var að færa kaupin til gjalda að fullu á rekstrarreikningi á kaupárinu. Sú meðferð hefði þýtt að fara hefði átt með þennan aflakvóta eins og um kaup á rekstrarvöru eða leigukvóta til eins árs hefði verið að ræða. Ef á það hefði verið fallist þá hefði rekstrarhagnaður fyrirtækisins verið lækkaður sem nam kaupverðinu og tekjuskattur fyrirtækisins lækkað í samræmi við það.
    Hæstiréttur hafnaði hins vegar þessari túlkun. Niðurstaða hans varð sú að í skattauppgjöri atvinnufyrirtækja bæri að færa keyptan langtímakvóta til eignar á efnahagsreikningi en jafnframt að fyrna hann um 20% á ári í fimm ár sem þýðir að hin skattalega eign færist að fullu til gjalda á fimm árum í staðinn fyrir að hún hefði færst til gjalda öll í einu á kaupárinu ef niðurstaða Hæstaréttar í þessu skattamáli hefði verið sú sem útgerðarfélag Hrannar hf. óskaði eftir. Þannig myndar hin skattalega eign eignarskattsstofn sem afskrifast á fimm árum og gjaldfærslan dreifist þannig á fimm ár í stað þess að kvótakaupin komi öll til gjalda á kaupári.
    Ég ítreka, virðulegi forseti, að við erum hér einfaldlega að tala um hvernig eigi að fara með þessi viðskipti í reikningsuppgjöri og skattauppgjöri fyrirtækja. Það greiðast út óumdeilanlega, í þessu tilviki 60 millj. kr., sem kemur sem greiðsla út úr rekstrarreikningi. Það er ekki hægt að fara með þá greiðslu í uppgjöri til skatts öðruvísi en annaðhvort að gjaldfæra hana á rekstrarreikningi, sem þýðir lækkun á hagnaði og lækkun á tekjuskattsgreiðslu, eða nota þá aðferð að útgreiðslan á rekstrarreikningi myndi eignfærslu á eignareikningi sem myndar þá hærri eignarskattsstofn og hærri eignarskattsgreiðslur atvinnufyrirtækisins en ella og heimila svo afskriftir með einhverjum afskriftarreglum. Þetta er skattalegt mál. Þetta er spurning um

skattalegt uppgjör, ekki um eignaréttindamál heldur eingöngu um það hvernig eigi að fara með þessi viðskipti í skattalegu uppgjöri.
    Auðvitað veit hv. 3. þm. Vesturl. að ekki er hægt að sleppa þessu. Það er ekki hægt að sleppa svona viðskiptum úr reikningshaldi fyrirtækja, það verður að gera grein fyrir þeim annaðhvort sem kaup á rekstrarvöru eða þá að eignfæra þau og afskrifa á tilteknum tíma og gjalda þá skatt af afgreiðslunni. Því má segja að þetta hafi snúist um hvort nota mætti slík kaup til að lækka tekjuskattsgrunn og þar með tekjuskatt fyrirtækis eða hvort ætti að færa slík kaup til eignar sem myndaði þá hærri eignarskattsstofn og hærri eignarskattsgreiðslur viðkomandi fyrirtækis í ríkissjóð.
    Lögfræðingur Landssambands ísl. útvegmanna hefur haldið því fram að með þessu væri verið að gera að engu 1. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem kveðið er á um að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar. Þetta er ekki rétt. Niðurstöður Hæstaréttar kveða ekki á um þetta. Þær kveða einungis á um hvernig eigi að framkvæma hið skattalega uppgjör vegna þessara viðskipta. Og menn sem styðja það að fiskimiðin eigi að vera sameign þjóðarinnar eiga auðvitað ekki að koma hér upp á ræðustól á Alþingi til að mistúlka niðurstöðu Hæstaréttar í þá veru að draga úr áhrifum þeirrar lagasetningar sem Alþingi hefur sett í þessu efni.
    1. gr. laga um stjórn fiskveiða frá 1990 hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.`` Og svo kemur annað meginefni greinarinnar sem ég vil sérstaklega undirstrika, síðasta málsgreinin sem er svo, með leyfi forseta: ,,Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``
    Þessi grein var sett í lög fyrst og fremst til þess að taka af öll tvímæli um það að ef, eins og sumir mundu segja, þegar, eins og ég vil gjarnan segja, lögum um stjórn fiskveiða verður breytt á þann veg að afnema kvótakerfið og aflaúthlutunarkerfið þá geti útgerðarmenn ekki gert bótakröfur á ríkið vegna þess að verið væri að svipta þá einhverjum eignarrétti. Þetta er kjarni málsins í greininni. Hún þýðir það að útgerðarmenn geta ekki myndað, ekki einu sinni með hefð, þau eignarréttindi til aflakvóta að þeir geti gert kröfur um skaðabætur ef stjórnkerfinu verður breytt þannig að horfið verði til annars stjórnkerfis en þess að úthluta einstökum fiskiskipum aflakvóta. Niðurstaða Hæstaréttar hefur engin áhrif á þessi atriði. Úrskurður Hæstaréttar varðar hvora leið af tveimur sem til greina koma skuli fara í sambandi við skattalegt uppgjör viðskipta sem sannanlega fara fram.
    Meginkjarninn í þessari grein er að tryggja að eignarréttur geti ekki myndast hjá útgerðarmönnum á aflaheimildum þrátt fyrir það að aflaheimildum sé úthlutað til þeirra. Með öðrum orðum, eins og ég sagði, hlutverk greinarinnar er að koma í veg fyrir að útgerðarmenn geti farið fram á skaðabætur vegna eignaupptöku verði stjórnkerfi í fiskveiðum breytt og hætt að úthluta aflakvótum en þess í stað t.d. tekið upp veiðileyfagjald.
    Úrskurður Hæstaréttar hefur engu um þetta breytt og það er rangt þegar lögfræðingur LÍÚ fullyrðir að svo hafi verið. Það er enn mjög skýrt í lögum að þjóðin er eigandi auðlinda fiskimiðanna og Alþingi getur hvenær sem er tekið hvaða ákvörðun sem Alþingi vill um hvaða stýring skuli valin á nýtingu þessarar auðlindar án þess að útgerðarmenn geti farið fram á skaðabætur þó að úthlutaður kvóti verði felldur niður.
    Í þessu samhengi verða menn að gera skýran greinarmun, og ég trúi ekki öðru en alþingismenn geri það, menn sem vinna við lagasetningu, þeir hljóta að geta gert skýran greinarmun annars vegar á skattalegri eign og eign samkvæmt eignarrétti hins vegar. Keyptur langtímakvóti er eftir úrskurð Hæstaréttar bæði í skattaréttarlegum og reikningsskilalegum skilningi eign sem færast á í bókhaldi sem slík. En með hliðsjón af 1. gr. laga um stjórn fiskveiða er alveg skýrt að þessi kvóti getur ekki talist vera eign í skilningi eignarréttar, enda var tilgangur löggjafans aldrei sá að veita þeim sem fengu úthlutað kvóta eða keyptu sér hann hlutbundinn og varanlegan rétt yfir fiskimiðum.
    Sú niðurstaða sem Hæstiréttur og áður héraðsdómur komust að er í samræmi við þær aðferðir sem taldar hafa verið eðlilegar í reikningsskilum samkvæmt góðri reikningsskilavenju, enda var í dómi Hæstaréttar sérstaklega vikið að áliti Félags löggiltra endurskoðenda á því hvernig fara skyldi með keyptan aflakvóta í reikningsskilum. Niðurstaðan varð einnig í samræmi við þá meginreglu skattaréttar að færa eigi til eignar það sem keypt hefur verið gegn gjaldi og hefur peningalegt verðmæti. Það má hins vegar deila um á hve löngum tíma eðlilegt sé að fyrna slíka eign, en e.t.v. má telja að sú niðurstaða sem Hæstiréttur komst að sé ekki svo ýkja ósanngjörn, ekki hvað síst í ljósi þess að vel er hugsanlegt og vonandi mögulegt að Alþingi taki upp annað kerfi við stjórn fiskveiða.
    Virðulegi forseti. Þetta er kjarni málsins og þeir sem styðja þá stefnu að fiskimiðin séu auðlind í eigu þjóðarinnar og að núverandi kvótakerfi myndi ekki rétt hjá útgerðarmönnum til þess að krefjast skaðabóta, ef þessu stjórnkerfi verður breytt, eiga að sjálfsögðu ekki að grafa undan trú þjóðarinnar á ótvíræðum fyrirmælum í lögum um stjórn fiskveiða. Menn verða að gera greinarmun á því hvað er skattaleg eign annars vegar, hvernig á að fara með viðskipti af þessu tagi í reikningsskilum og skattauppgjöri fyrirtækja og hvað er eignarréttarleg eign hins vegar, þ.e. eign sem ekki verður tekin af mönnum öðruvísi en fullar bætur komi í staðinn.

    Að lokum, virðulegi forseti, hv. málshefjandi ræddi um kvótakerfið svona út og suður og vítt og breitt. Hæstv. sjútvrh. hefur gefið honum fullnægjandi svör við því. Ég vil aðeins minna á að núv. stjórnkerfi var fest í sessi vorið 1990, nánar tiltekið þann 5. maí. Þá stóðu mál þannig að í hópi þáv. stjórnarliða var andstaða við það kerfi á stjórn fiskveiða, kvótakerfið, sem fylgt hefur verið frá ráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar frá því að lög um stjórn fiskveiða voru fyrst sett undir hans stjórn. Ég hef aldrei greitt atkvæði með kvótakerfinu á Alþingi þegar það hefur verið borið upp, hvort sem ég hef setið í stjórn eða stjórnarandstöðu. Málin stóðu hins vegar þannig hinn 5. maí árið 1990 að það var nokkurn veginn jafnt milli þeirra sem vildu ekki staðfesta kvótakerfið og hinna sem vildu festa kvótakerfi í sessi. Þá var borin upp frávísunartillaga á þeim fundi og ég var samkvæmur sjálfum mér í því að ég lýsti því yfir að ég mundi styðja þá tillögu. Vitað var að 21 þingmaður mundi greiða atkvæði gegn tillögunni og 21 sem vitað var að mundi greiða atkvæði með henni ef allt skilaði sér. Það þurfti bara einn alþýðubandalagsmann, bara einn félaga hv. 3. þm. Vesturl. til þess að tryggja það að kvótakerfið festist ekki í sessi. En það gaf sig enginn fram. Allir þingmenn Alþb. á þessari úrslitastundu greiddu atkvæði með kvótakerfinu sem hann formælti svo harkalega hér áðan. Allir sem áttu þá sæti í neðri deild, Steingrímur J. Sigfússon, sjálfkjörinn varaformaður Alþb., Geir Gunnarsson, Þórður Skúlason, Guðrún Helgadóttir og Hjörleifur Guttormsson. --- Nei, hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði nei, samkvæmt þingtíðindum, í neðri deild þann 5. maí 1990 og vísaði þar með frá eða felldi þar með frávísunartillögu sem flutt var af þingmönnum. Það hefði aðeins þurft hana, þennan hv. þm., virðulegur þm. Jóhann Ársælsson, til að tryggja það að kvótakerfið yrði ekki fest í sessi. Svo kemur þingmaður Alþb. hér upp í ræðustól og talar eins og hann talaði hér áðan. Ég tel að svona málflutning ætti Alþb. ekki að flytja út til annarra landa.