Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 15:53:10 (1900)


[15:53]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta voru miklir útúrsnúningar. Vissulega er mér kunnugt um að svokölluð erfðafesta á landi er til með ævagamalli hefð. ( Viðskrh.: Ég var ekki að tala um það.) Hvað var þá hæstv. ráðherra að tala um? ( Viðskrh.: Ég var að tala um að þú eignfærir leigulóðarréttindi sem ekki eru þín eign í skattframtölum. Það hlýtur hv. þm. að vita.) Ég vil benda hæstv. viðskrh. á að hér er á engan hátt um sambærilega hluti að ræða. Þessi kaup á kvóta hafa gengið þannig fyrir sig að ryðkláfar sem eru handónýtir hafa verið seldir ofurverði vegna þess að þeir höfðu yfir að ráða einhverjum kvóta. Þetta er að leggja alla fiskveiði í landinu í rúst og ég vil vara hæstv. ríkisstjórn við. Ég hygg að það sé orðinn mikill urgur í sjómönnum og það sé að renna upp fyrir mönnum hvers kyns kerfi þetta er sem hér er búið að innleiða. Ég er alveg sannfærð um að ráðherra talar gegn betri vitund því að eins og hann réttilega sagði hafði hann vit til að samþykkja ekki kvótakerfið. Ég vil minna á að fáir börðust hetjulegar gegn því á sínum tíma heldur en hv. þáv. þm. Skúli Alexandersson sem stóð hér fyrir að ég hygg lengsta þingfundi í sögu þingsins í áratugi þannig að kvótakerfið var ekki innleitt fyrir frumkvæði Alþb. En ég er hrædd um að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn ættu að taka sig saman í andlitinu sem fyrst og afnema þetta kerfi áður en verr fer fyrir íslenskum sjávarútvegi.