Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 15:56:44 (1902)


[15:56]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þeir voru nú að tala um sitt hvort málið, hæstv. viðskrh. og hv. 14. þm. Reykv. Það sem hæstv. viðskrh. hélt fram og trúlega með réttu er að þingmaðurinn hafi greitt atkvæði gegn frávísunartillögu en það sem þingmaðurinn hélt fram og líka með réttu að ég hygg er að þingmaðurinn greiddi ekki atkvæði með sjálfu kvótafrv. Ég held að menn megi ekki blanda þessu um of saman.
    En það sem ég vildi aðeins segja örfá orð um vegna ræðu hæstv. viðskrh., sem var hér kynntur sem hæstv. efh.- og viðskrh. og hygg ég að það sé nýmæli að hann sé kominn í þá stöðu, var sá málflutningur hans að blanda saman þremur hlutum sem eru ekki allir þeir sömu. Í fyrsta lagi að blanda saman skilningi á orðinu eignarréttindi, annars vegar ,,í skattalegum skilningi`` og hins vegar ,,í eignarréttarlegum skilningi`` og svo hitt atriðið sem eru bætur ef eignin er tekin af með lögum. Það segir í 1. gr. laganna að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Það er hins vegar skýrt kveðið á um það og kemur fram í dómi Hæstaréttar að hann telur að hér sé um eignarréttindi að ræða, eignarréttindi. Punktur. Ekki eignarréttindi í skattalegum skilningi og ekki eignarréttindi í eignarréttarlegum skilningi heldur bara eignarréttindi og hef ég of knappan tíma til að geta lesið það upp, en ég geri það þegar ég flyt ræðu mína hér á eftir. Það er því alveg ljóst að í dómi Hæstaréttar er talað um þetta sem eignarréttindi.
    Hinu get ég verið sammála hæstv. viðskrh. að það er mitt mat að dómur þessi hafi ekki fest það að ríkisvaldi beri að greiða kvótaeigendum bætur ef kvótakerfið er afnumið. Svo langt erum við ekki komnir enn en við erum á þeirri leið.