Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 16:38:10 (1916)


[16:38]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sá er m.a. munurinn á fémætum réttindum sem geta verið skattskyld í skilningi skattalaga og hlutabréfaeign að það er ekki hugsanlegt að löggjafinn svipti hlutabréfaeigandann eignarrétti sínum. Það eru hlutdeildarréttindi sem ganga kaupum og sölum og eru varin með slíkum hætti þótt auðvitað geti þau verið tengd áhættu. Það er það sem hv. þm. vísar til, auðvitað geta þau verið tengd áhættu. En aflaheimildin sem gengur kaupum og sölum með varanlegum hætti er hins vegar öðruvísi en hlutabréf að því leyti að löggjafinn, sem hefur ekki framselt eignina og eignin er þjóðarinnar, getur einfaldlega afturkallað þennan rétt. Réttur einstaklingsins til þess að eiga hlutabréf verður ekki afturkallaður með lögum.