Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 17:58:54 (1931)


[17:58]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hv. þm. Jóhann Ársælsson veki athygli á þeim viðhorfum sem ég kom fram með hérna áðan gagnvart öllum alþýðuflokksmönnum um allt land. Það er ekkert launungarmál að ég er ekki sammála í öllum atriðum svokallaðri milliþinganefnd Alþfl. sem hann er væntanlega að vísa hér í í sjávarútvegsmálum. Ég hef margsinnis lýst því yfir að þó ég finni marga galla á kvótakerfinu, þá sé ég í bili ekkert kerfi sem getur komið í staðinn fyrir það, eins og staðan er í dag. Á síðasta flokksþingi Alþfl. voru uppi mikil átök í flokknum um sjávarútvegsmálin. Þar náðist ákveðin málamiðlun þar sem talað var um að styðja kvótakerfið, breyta því með nokkrum hætti, m.a. þannig að reyna að koma í veg fyrir með lögbindingu, eins og hæstv. sjútvrh. hefur tekið undir, að sjómenn yrðu með einhverjum hætti knúðir til kvótakaupa. Hluti af málamiðluninni var einnig að það yrði reynt að standa vörð um þann rétt sem krókaveiðimenn hafa haft síðustu árin. Ég skrifaði þessa málamiðlun sjálfur. Ég veit alveg hvað í henni felst og ég mun fylgja henni.