Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 18:00:22 (1932)


[18:00]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú fyrst vekja athygli á mótsögninni sem kom ítrekað fram í orðum hæstv. umhvrh. Hann sagði annars vegar: Varanlegur kvóti útgerðarmanna, og svo sagði hann: Sameign þjóðarinnar.
    Þá varðandi eign í skattalegu tilliti. Eins og hv. 2. þm. Vestf. hefur rakið þá er eign ekki öðruvísi en eign. Það er ekki neitt sérstakt tillit í stjórnarskránni hvað það varðar. Eign er eign. Og ég bendi hæstv. umhvrh. á það að þegar menn eiga að bókfæra þessa eign í sitt bókhald þá eiga menn líka um leið að borga eignarskatt af þeirri eign samkvæmt þeim lögum sem um það gilda. Það er engin rök í þessu máli, það er ekkert hald í því að segja að þessi dómur lúti bara skattalegri meðferð málsins.
    Og í þriðja lagi hvað varðar það sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. að í lögunum kæmi fram að það væri heimilt að selja kvóta. Það er ekki rétt. Það stendur einungis að heimilt sé að framselja kvóta og það er aðeins í lögunum um Hagræðingarsjóð sem stendur að heimilt sé að framselja kvóta gegn endurgjaldi. Takið eftir því.