Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 18:17:15 (1934)


[18:17]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það hefur áður verið vakin athygli á því í þessri umræðu að rétt hefði verið af hv. málshefjanda að beina þessu máli til hæstv. fjmrh. af því að dómurinn fjallar um skattamál. Hv. málshefjandi gerði það ekki og kaus að snúa umræðunni á annan veg. En vegna þeirrar fyrirspurnar sem hér hefur komið fram um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í skattamálum, þá liggur fyrir í nefndaráliti tvíhöfða nefndarinnar sem var skipuð fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna að rétt sé að breyta skattalögum á þann veg að sala á aflaheimildum leiði ekki til þess að þau réttindi verði fyrnanleg, en sú skipan mála eigi fyrst að koma til framkvæmda 1. sept. 1996 og gefa eigi útgerðum eðlilegan aðlögunartíma fram til þeirrar dagsetningar þannig að stuðst verði við þá reglu sem var niðurstaðan í hæstaréttardómnum. Og það eru því engin rök til þess í ljósi þessa álits að kalla eftir skattafrumvörpum í þessum mánuði eða tengja það þeim skattabreytingum sem ríkisstjórnin hefur lagt á borð þingmanna.
    Þetta er nauðsynlegt að komi fram vegna þeirrar fyrirspurnar sem kom fram frá hv. 5. þm. Vestf.