Einkavæðing embættis húsameistara ríkisins

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:19:01 (1958)

[15:18]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Það kemur í ljós í hans svörum að hann hyggst ekki leggja niður embætti húsameistara ríkisins heldur ætlar að draga verulega úr starfseminni. En eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. hér áðan þá er ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að draga verulega úr fjármunum til stofnunarinnar. Þar er sem sagt dregið úr um 5% í takt við það sem verkefnin dragast raunverlega saman. En það vekur svolitla undrun að það skuli ekki vera fastara kveðið á um þetta, því að það er greinilegt, eins og kom fram í máli ráðherra, að þetta embætti er barn síns tíma og því ekkert óeðlilegt að það væri jafnvel lagt niður sem slíkt. Mér finnst mjög eðlilegt að lokið sé við þær framkvæmdir sem eru þegar í gangi hjá embættinu. En mér þætti jafnvel eðlilegt að færa þetta allt til markaðarins, alla þessa stofnun. Auðvitað eru þarna merkar teikningar til og er hægt að geyma þær á vönduðum stað, innan annarra stofnana. Mér finnst rétt að smátt og smátt verði markaðinum algerlega færð þessi verkefni sem eru núna undir húsameistara ríkisins og Þjóðskjalasafni fengnar til varðveislu þær teikningar sem þar eru.