Aðstæður fatlaðra í skólum

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:22:03 (1960)

[15:22]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 246 er fyrirspurn til menntmrh. frá Guðrúnu J. Halldórsdóttur sem kom hér inn á þing skamma hríð sem varaþm. og gat ekki, því miður, fylgt þessari fsp. eftir sjálf en hún er svohljóðandi:
    ,,Hvernig er ætlunin að bæta aðstæður fatlaðra í grunn- og framhaldsskólum landsins til þess að þeir geti stundað nám til jafns við ófatlaða?``
    Það verður að segjast eins og er að það sem vakti fyrir fyrirspyrjanda var m.a. að fá við því einhver svör hvort á því væri nokkur hætta að þessi hópur, þ.e. fatlaðir bæði í grunn- og framhaldsskólanum, yrði fyrir niðurskurði eða þjónusta við þennan hóp yrði fyrir niðurskurði, vegna þess að við sjáum hvarvetna í kringum okkur tilhneigingu til þess að skera niður fjárútlát og meta hvern einstakan. Þess vegna vaknar sá ótti að hugsanlegt sé að þessi hópur lendi undir niðurskurðarhnífnum.
    Þó hér sé spurt um grunn- og framhaldsskólana þá snýr þetta auðvitað ekki bara að þeim heldur líka að sérskólum og háskólanum. Ef ég nefni persónuleg dæmi þá veit ég um nokkra nemendur sem hafa lent í ákveðnum vandræðum í sérskólunum og háskólanum vegna þess að ekki hefur legið skýrt fyrir hvaða þjónustu þeir eiga rétt á. Þannig er það ekki ljóst þegar fatlaður einstaklingur sækir um skólavist hvaða aðstoð hann getur fengið. Hann veit ekki hver réttur hans er og skólinn veit heldur ekki oft og tíðum hvaða svigrúm hann hefur til þess að veita þessum tiltekna nemanda sérstaka aðstoð. Mér vitanlega hafa engar almennar reglur verið í gildi um þetta og hefur þurft að meta málin í hvert eitt sinn.
    Ef við lítum á heyrnarlausan nemanda þá þarf hann bæði á aðstoð að halda hvað varðar túlkun íslensku á táknmál heyrnarlausra og hann þarf líka túlkun af táknmáli heyrnarlausra yfir á íslensku og hann þarf kannski námsaðstoð.
    Með blindan nemanda getur verið um það að ræða að það þurfi að lesa námsefni skólans á snældur og hann þurfi að fá námsefni skólans skrifað á disklinga til að geta notað það í tölvu og jafnvel alhliða námsaðstoð líka. Og það liggur ekki alltaf fyrir hvort þessi nemandi á rétt á þessu, hvort hann getur fengið það og hvort skólinn hefur svigrúm til þess að veita þessa aðstoð. Þá hlýtur líka að vakna sú spurning hver er ábyrgur fyrir því að aðstoð sé veitt. Eru það skólayfirvöld, er það sérkennslufulltrúinn, er það menntmrn., er það Samskiptamiðstöð, t.d. heyrnarlausra, o.s.frv.? En fyrirspurnin er sem sagt þessi: Hvernig er ætlunin að bæta aðstæður fatlaðra í grunn- og framhaldsskólunum?