Aðstæður fatlaðra í skólum

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:31:49 (1963)


[15:31]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt að ég ræddi í svari mínu meira um þessa skipulögðu þjónustu sem veitt er í skólunum og meira í einstökum skólum en öðrum. Það er rétt hjá fyrirspyrjanda að það kann að vera erfitt fyrir einstaka skóla að sinna umsóknum um skólavist frá fötluðum nemendum ef viðkomandi skóli hefur ekki verið sérstaklega útbúinn til þess að taka við t.d. líkamlega fötluðum nemanda. Þá hefur verið reynt að beina þeim nemendum í þá skóla sem sérstaklega hafa búið sig undir að taka við slíkum nemendum og í framhaldsskólakerfinu nefni ég þar sérstaklega Menntaskólann við Hamrahlíð.
    Kennarar eru líka vafalaust misjafnlega við því búnir að sinna þessum nemendum. Það fer að sjálfsögðu eftir því hvers konar fötlun um er að ræða.
    Ég legg svo áherslu á það í lokin og tek þar undir með hv. fyrirspyrjanda að það er mikilvægt að sinna þessum nemendum og ég fullyrði að það mun verða fylgst vel með því í menntmrn.