Aðgerðir fyrir ungmenni sem hafa flosnað upp úr skóla

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:33:54 (1964)

[15:33]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 248 er að finna fsp. frá Guðrúnu J. Halldórsdóttur, sem hljóðar á þessa leið:
    ,,Hverjar voru tillögur starfshóps um samræmdar aðgerðir fyrir ungmenni sem flosnað hafa upp úr skóla, sbr. ályktun Alþingis 12. mars 1991? Til hvaða aðgerða hefur verið gripið í framhaldi af tillögum hópsins?``
    Það er kannski eðlilegt að taka málin í þessari röð vegna þess að þessi tillaga var samþykkt og fyrirspurnin tengist þessari samþykkt. En það er þó sama, þar sem þessi mál eru nátengd, í hvaða röð þau eru tekin, mín vegna.
    Þessi þál. sem ég er þá að fjalla um hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á fót samstarfshópi á vegum ráðuneyta og sveitarfélaga til að gera tillögur um samræmdar aðgerðir sem miði að því að aðstoða ungmenni sem flosnað hafa upp úr skóla. Samstarfshópurinn fjalli einnig um sameiginlegar forvarnir gegn þessum vanda.
    Samstarfshópurinn verði skipaður fulltrúum tilnefndum af dómsmála-, félagsmála-, menntamála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, stærstu sveitarfélögunum og Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Samstarfshópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 1991.``
    Þessi tillaga fékk allmikla umræðu og mjög jákvæða er hún var flutt á Alþingi. Og í framhaldi, eins og sjá má, var hún samþykkt, að vísu með nokkuð breyttum texta frá upphaflegri tillögu. Enn eru í fullu gildi þær ábendingar sem komu fram í greinargerð tillögunnar þar sem m.a. kom fram, með leyfi forseta:
    ,,Þau ungmenni, sem lenda í vímuefnum og á vergangi, eru alls ekki öll úr höfuðborginni heldur munu ýmis þeirra vera af landsbyggðinni en hafa leitað að heiman eftir ,,frjálsræði`` og spennu, sbr. upplýsingar í viðtölum við starfsfólk Rauða kross hússins.``
    Þetta vil ég séstaklega taka fram vegna þess að í þeirri umræðu sem helst hefur verið um þessi mál hefur sjónum einkum verið beint að unglingum hér á höfuðborgarsvæðinu, en það er ekki síður nauðsynlegt að reyna bæði að hafa upp á þessum ungmennum sem hætta í skólum víðs vegar um landið og reyna, eins og þessum samstarfshópi er ætlað, að taka eitthvað á vanda þeirra. Ég inni því hæstv. ráðherra eftir því hvað þessu máli líður.