Forvarnir í skólum

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:56:21 (1972)


[15:56]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. greið svör hans. Ég get tekið undir með honum að því leyti sem lýtur að markmiðum og einnig að því leyti sem lýtur að þeim aðferðum sem við höfum og möguleikum til þess að sinna þessu. En ég vil gera þá athugasemd að það er undir sveitarfélögum komið hvort þetta námsefni ,,Að ná tökum á tilverunni`` er kennt eða ekki. Þar sitja því miður ekki öll börn á landinu við sama borð, vegna þess að víða hefur verið hafður sá háttur á að sveitarfélög greiða eina kennslustund og gera skólum að leggja aðra til af skólatíma til þess að geta sinnt þessu kennsluefni. Þetta kennsluefni er krefjandi fyrir börn, foreldra og kennara og því held ég að það sé full ástæða til þess að gera þá kröfu að öll börn eigi kost á að njóta þessa námsefnis.
    Jafnframt fagna ég því frumkvæði og því efni sem komið hefur frá einstökum aðilum innan skólakerfisins. Það eru margir sem bera þetta efni fyrir brjósti, en ef vel á að vera á þetta að vera réttur og eðlilegur þáttur skólastarfs alls staðar á landinu. Við þurfum að fella þetta inn í skólastarf og gera þá kröfu að þetta sé hluti af því námsefni sem börnum er ætlað að tileinka sér og fylgt er eftir með samstarfi kennara og foreldra.
    Ég vil einnig taka það fram að nú er verið að halda ýmsar ráðstefnur um þær hættur sem steðja að unglingum, einelti og ofbeldi af ýmsu tagi. Ég held að það sé almennur vilji í samfélaginu að tekið verði hraustlega á þessu máli og þar verða allir aðilar, ekki síst stjórnvöld að koma að.