Snjómokstur

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:59:09 (1973)


[15:59]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 62 flytur Jónas Hallgrímsson eftirfarandi fyrirspurnir til samgrh. um snjómokstur:
  ,,1. Eru uppi áform um bætta þjónustu Vegagerðar ríkisins við einangraða staði á Austurlandi með fjölgun snjómokstursdaga?
    2. Telur samgönguráðherra ekki tímabært að þjóðvegur 1 um Breiðdalsheiði verði ruddur ákveðna daga í viku hverri líkt og aðrir fjallvegir á hringveginum?
    3. Hver eru áform um snjóruðning milli Norður- og Austurlands (Mývatnsöræfi og Möðrudalsfjallgarða) á næsta vetri?``
    Núverandi reglur byggja að meginhluta á ákvörðun þáv. hæstv. samgrh. Steingríms J. Sigfússonar frá í mars 1991. Töluverðar vegaframkvæmdir hafa átt sér stað að undanförnu á fjallvegum á Austurlandi sem ætti að gefa tilefni til rýmkunar á þessum reglum. Fyrst og fremst er átt við þá staði á Austurlandi sem við mesta vetrareinangrun búa. Til Norðfjarðar er mokað þrjá daga í viku en á Oddsskarðsvegi hafa staðið yfir miklar vegabætur undanfarin tvö ár. Sömu reglur gilda um Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar, þrír dagar í viku hverri, þrátt fyrir mikla uppbyggingu vegar um heiðina á þessu ári. Til Borgarfjarðar eystri er aðeins mokað einu sinni í viku og til Vopnafjarðar er alls ekki mokað, nýjan og vel uppbyggðan veg um Hellisheiði, nema í undantekningartilfellum. Fyrir liggur að fjölgun snjómokstursdaga úr t.d. þremur í alla daga fylgir óverulegur kostnaður, sbr. greinargerð umdæmisstjóra Vegagerðar ríkisins á Austurlandi, um Norðfjörð og Seyðisfjörð, um 2,5 millj. kr. aukning miðað við meðaltal síðustu þriggja vetra.
    Enn eru engar snjómokstursreglur um veginn á Breiðdalsheiði og virðist opnun hennar vera mjög á reiki og er rétt að hér komi fram að m.a. hefur Breiðdalshreppur séð sig knúinn til að láta opna heiðina í einhver skipti á góðviðrisköflum á vetrum. Hér er um mikið hagsmunamál vegfarenda á leiðinni Egilsstaðir--Höfn að ræða og leggja heimamenn ríka áherslu á að komið verði á reglubundnum snjóruðningi um Breiðdalsheiði.
    Rétt er að fram komi að Vegagerðin hefur sýnt nokkurn sveigjanleika í seinni tíð, en engu að síður skortir hér alfarið reglur. Það er mjög mikilsvert að vita hvaða áform eru uppi um að halda leiðinni til Norðurlands og Austurlands opinni í vetur og þá hvort búið sé að móta einhverja framtíðarstefnu í þeim efnum. Engar reglulegar skipasamgöngur eru nú milli þessara landshluta og þarf því ekki að fjölyrða um mikilvægi þessa vegna almennra samskipta og viðskiptahagsmuna.