Snjómokstur

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:01:50 (1974)


[16:01]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Fyrirspurnin er í þrem tölusettum liðum, en áður en ég vík að þeim mun ég fara nokkrum orðum um snjómokstursreglur almennt.
    Endurskoðun sjómokstursreglna hefur gjarnan farið fram með 2--4 ára millibili undanfarin ár. Núgildandi reglur eru frá því í mars 1991 og m.a. af þeim sökum verða þær endurskoðaðar nú á næstu vikum. Ég hef falið Vegagerðinni að vinna að endurskoðuninni og er út frá því gengið að nýjar reglur taki gildi síðar í vetur og er undirbúningur þess raunar vel á veg kominn. Endurskoðunin mun leiða til aukinnar þjónustu eins og jafnan áður, en ég tel ekki rétt að víkja sérstaklega að þeim málum frekar. Auk þess sem snjómokstursreglur hafa verið endurskoðaðar með reglulegu millibili eru stundum gerðar breytingar sem eru staðbundnar ef ástæður í samgöngum hafa breyst til viðkomandi héraða. Tvö dæmi um þetta má nefna á því svæði sem fsp. tekur til. Á sl. vetri var tekinn upp snjómokstur á leiðinni milli Norður- og Austurlands. Að sumu leyti var það vegna þess að strandferðir höfðu fallið niður milli Norður- og Austurlands, reglulegar eins og áður hafði verið í báðar áttir, en líka vegna hins að samgöngur hafa breyst og sú þörf sem er fyrir viðskiptaþjónustu, gagnkvæm viðskipti milli fjórðunganna, hefur vaxið og af þeim sökum er óhjákvæmilegt að reyna að halda leiðinni opinni. Af sömu ástæðum var þjónusta aukin við Borgarfjörð eystri vegna þess að strandferðir höfðu fallið niður. Þangað var áður opnað einu sinni í viku, en nú er það gert tvisvar meðan sjóþyngsli eru innan hóflegra marka. Í báðum tilvikum er reiknað með að þessi tilhögun haldist á vetri komandi.
    1. tölul. fsp. hljóðar svo:
    ,,Eru uppi áform um bætta þjónustu Vegagerðar ríkisins við einangraða staði á Austurlandi með fjölgun snjómokstursdaga?``
    Um þetta vil ég segja að ég hef áður svarað því sem tekur til Borgarfjarðar eystri en vil bæta því við að í vetur verður Vopnafjarðarheiði opnuð í tengslum við mokstur á Möðrudalsöræfum. Þjónusta við

aðra staði sem spurningin gæti tekið til verður til umfjöllunar við endurskoðun reglnanna.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Telur samgrh. ekki tímabært að þjóðvegur 1 um Breiðdalsheiði verði ruddur ákveðna daga í viku hverri líkt og aðrir fjallvegir á hringveginum?``
    Í snjómokstursreglum er meginreglan að tengja saman þéttbýlisstaði eftir einni leið. Í sumum tilvikum væri hægt að velja styttri leiðir en nú er gert til einstakra staða, en vegna kostnaðar er lengri leiðin látin nægja. Þannig er aðalreglan að moka milli Egilsstaða, Reyðarfjarðar og suður með fjörðum, en ekki einnig um Breiðdalsheiði, sem er þó 58 km styttri leið. Viðbótarmokstursleið yrði 64 km ef báðar leiðir væru opnaðar. Á undanförnum árum hefur heiðin þó verið mokuð af og til þegar snjólétt er, en þetta hefur ekki verið reglubundin þjónusta. Hvort breyta eigi þessari þjónustu í reglubundna er atriði sem rétt er að taka til athugunar við áðurnefnda endurskoðun, en ég vek athygli á að hér er ekki um einangrað tilvik að ræða. Ég get tekið sem hliðstæðu veginn yfir Fljótsheiði og auðvitað er spurningin hversu langt eigi að ganga í því að halda heiðum opnum ef hægt er að komast fram hjá þeim, ég tala nú ekki um ef vetur eru snjóþungir.
    Þriðja spurningin er: ,,Hver eru áform um snjóruðning milli Norður- og Austurlands (Mývatnsöræfi og Möðrudalsfjallgarða) á næsta vetri?``
    Eins og ég nefndi áður verður mokstur með sama hætti og á sl. vetri. Mokað er tvo samliggjandi daga og er gert ráð fyrir að vegurinn sé opinn á miðvikudögum og fimmtudögum. Þessi tilhögun var tekin upp í fyrra og gekk allvel þó að leiðin sé löng og í mikilli hæð yfir sjó og því háðari veðurfari en styttri og lægri fjallvegir. Í vetur verður einnig reynt að opna Vopnafjarðarheiði sömu daga.